A A A
  • 1922 - Guðmundur Magnússon
  • 1942 - Sigurður Jónsson
Margblessaður Bogi minn.

Héðan er allt gott að frétta. Jeg vona að þið hafið það gott. Ertu ekki búinn að taka útsæðið frá? Nú er hún Arna komin úr Breiðhillunni, þannig að maður þarf ekki að fara þangað oftar í haust! Hún var nú bara komin niður í Þorbjarnardalskjaftinn um daginn þegar Gunnsi mokaði. Þeir eru seigir, Ketilseyrarfeðgar og hundurinn Lækur. Og svo lentu Bjössi og Mangi líka í smalamennskunni út að Kúlu. Sú stutta er komin á tíunda vetur og lítur bara vel út að sögn, ásamt svörtu gimbrinni sinni og þessum veturgömlu tveim sem voru þarna uppi með þeim....
Meira
05.03.2019 - 10:36 | Hallgrímur Sveinsson

Bréf úr sveitinni: Hækkum lægstu launin og lækkum þau hæstu!

Hallgrímur Sveinsson
Hallgrímur Sveinsson
Kæri Bogi.

Jeg vona að þið hafið það gott. Takk fyrir bréfið. Héðan er allt gott að frétta. Kartöflurnar komu nú ekki nógu vel út hjá okkur í fyrra. Þetta var tómt myr. Nú þykist sextettinn Við bræðurnir og Gaui ætla að fara að halda einhverja söngskemmtun, þó þeir kunni nú varla nein alminleg lög. Svo getur einn þeirra aldrei lært texta og ruglar öllu saman. Þjóð og fljóð og svoleiðis. Svo þekkir hann ekki einu sinni muninn á dúr og moll! Er ekki gamla konan hress? Og kisa kis. Hún er alltaf svo falleg. Fara ekki bráðum að koma kettlingar? 

Jæja. Sko. Hér kemur alvaran:
Nú standa yfir kjaraviðræður í Reykjavíkar. Það er skrýtið orð. Hún er snarvitlus þessi stelpa þarna fyrir sunnan. Hún heimtar bara að við hækkum laun þeirra lægstlaunuðu. Og það í kólnandi hagkerfi. Veit manneskjan ekki að þá fer allt til andskotans? Þjóðarskútan strandar einfaldlega. Hvað gerir skipstjórinn þá?...
Meira
28.12.2018 - 12:35 | Valdimar H. Gíslason

Um tilurð hvalbeinahliðsins í Skrúð á Núpi í Dýrafirði

Beinin sem nú standa í Skrúð eru úr langreið sem skutluð var sumarið 2010 en upp fór nýja hliðið 2012.
Beinin sem nú standa í Skrúð eru úr langreið sem skutluð var sumarið 2010 en upp fór nýja hliðið 2012.
« 1 af 2 »

Grein Valdimars hér að neðan var rituð árið 2008. Sæmundur Þorvaldsson ritar þennan viðauka nú í lok ársins 2018: Beinin stóðu í Skrúð frá 1932 til 2009 eða í 77 ár. Þegar þau voru tekin niður voru 115 ár frá því hvalurinn var skutlaður. Skepnan sú gæti hafa verið 100 ára gömul og því verið borin undan Dýrafirði svona ca 1795, eða þegar Napoleon Bonaparte var aðeins 25 vetra. Beinin voru tekin niður í nóvember 2009 og eru varðveit í Náttúrugripasafni Vestfjarða. Enn flæddi lýsi úr þeim hluta beinanna sem stóð niðri í steypunni. Beinin sem nú standa í Skrúð eru úr langreið sem skutluð var sumarið 2010 en upp fór nýja hliðið 2012.

Um tilurð hvalbeinahliðsins í Skrúð á Núpi í Dýrafirði - Eftir Valdimar H. Gíslason.

Á árunum 1890 til 1903 ráku Norðmenn hvalveiðistöð á Höfðaodda í Dýrafirði (sem Norðmenn kölluðu Framnes). Forstöðumaður stöðvarinnar var Kapteinn Lauritz Jacob Berg frá Túnsbergi í Noregi. Séra Sigtryggur Guðlaugsson, prófastur á Núpi og stofnandi Skrúðs, segir svo frá í bók sinni um Skrúð:

 

Það var í landshöfðingjatíð Magnúsar Stephensen, að capt. Berg átti von á tignum gesti: heimsókn landshöfðingjans. Vildi capt. Berg taka sæmilega á móti honum og ekkert til spara þótt fátt væri um viðhafnarefni hér í „útlegðinni”. Svo bar þá við, að einn af veiðibátum hans náði stórhveli – einu því allravænsta, sem hér var að fjöru dregið. Þegar happdrætti þessum hafði verið slátrað til allskonar hagnýtingar lét capteinninn taka kjálka skepnunnar, hreinsa þá og fægja í skyndi. Því næst voru grafnir á enda niður tveir masturstrésstúfar og treystir sem öruggast, sinn hvoru megin við rætur bryggju þeirrar, sem landshöfðingi skyldi ganga eftir, er hann stigi á land. Við þessi masturtré voru svo kverkendar kjálkanna járnboltafestir rammlega, kjálkarnir uppreistir og trjónuendar þeirra festir eins saman í stöðu, sem líkastri því, er verið hafði í skepnunni lifandi. … Og hliðið fékk að standa svo lengi, sem eðlileg öfl náttúrunnar leyfðu. (1)

 

En þar kom að tréstoðirnar fúnuðu og sigurboginn féll til jarðar. Hvalstöðin var rifin, húsum sundrað og efni flutt á brott, mest af því suður til Viðeyjar, en Milljónafélagið hafði keypt húsin og hugðist nota efnið úr þeim til uppbyggingar þar. Ábúendur á Höfða eignuðust hvalkjálkana á uppboði ásamt ýmsu drasli, sem ekki þótti svara kostnaði að flytja í aðra landshluta. Síðar gáfu þeir kjálkana sem minjagripi til Ungmennaskólans á Núpi, þar sem séra Sigtryggur Guðlaugsson var í forsvari sem skólastjóri.

Kjálkarnir voru fluttir sjóleiðina út að Núpssjó. Nemendur skólans sættu klakafæris næsta vetur og drógu kjálkana upp undir Skrúð, en í garðinum var þeim ætlaður staður. Dróst í allmörg ár að koma beinunum fyrir, en árið 1932 voru þau reist á steyptri undirstöðu þar sem þau standa enn í dag, árið 2008. (2)

Nánari upplýsingar um veiðar og stærð hinnar miklu skepnu sem lagði til hvalkjálkana í Skrúð er að finna í bók Mörtu Berg, konu kapteins Lauritz Berg. Bók þessi kom út í Osló 1985. Í henni er kafli tekinn úr ævisögu Hj. Backe-Hansen: Spredte træk fra mit livs erindringer, sem kom út 1937. Kafli þessi nefnist: Paa hvalfangst ved Island, februar 1892 til oktober 1894 (3). Í kaflanum eru áhugaverðar lýsingar á hvalveiðum og vinnslu hvalafurða. Einnig eru þarna skemmtilegar frásagnir af lífinu í hvalstöðinni og samskiptunum við Dýrfirðinga.

Sagt er frá hvalbátunum og búnaði þeirra. Þeir voru um 100 fet á lengd, með ca. 190 hestafla vélum og gengu 8 sjómílur á klukkustund. Með hval í drætti var gangurinn 5 - 6 mílur. Hvalabyssan var staðsett frammi við stefni bátanna. Hlaupvíddin var um 3 tommur og hvalskutlarnir 1,5 - 2 metrar að lengd. Hvallínan var sem mannshandleggur að gildleika, 900 faðma löng. Venja var að hafa tvær slíkar línur um borð og 5 - 6 skutla. Á enda skutuls voru 4 klær, 6 - 7 tommu langar, sem opnuðust og læstust í hvalinn þegar strekktist á hvallínunni. Á skutlinum var komið fyrir sprengjuhleðslu sem í var 1 kg af grófkornuðu púðri. Þegar gripklær skutulsins opnuðust, brutu þær glerkúlur sem kveiktu í púðrinu. (4)

Af framansögðu sést, að hvalbátarnir frá hvalstöðinni á Höfðaodda (Framnesi) voru vel út búnir og hvalur sem varð fyrir skoti laut yfirleitt fljótlega í lægra haldi fyrir þessari hugvitssamlegu drápstækni. Árið 1892 voru þrír hvalbátar gerðir út af Framnesstöðinni í Dýrafirði: Viktoria, 74 brúttólestir, Friðþjófur, 85 brúttólestir og Elliði, 69 brúttólestir.

Hj. Backe-Hansen, sem er heimildarmaður að framansögðu, var skipverji á Elliða og varð 16 ára þetta ár. Snemmsumars voru skipverjar á Elliða í hvalaleit í íshröngli langt út af Dýrafirði. Eftir nokkurra daga leit rákust þeir á risastóran steypireið. Þeir náðu fljótlega að koma skutli í hann. Um leið og hvalurinn fann fyrir skutlinum tók hann á rás og dró Elliða með sér á meiri hraða en hann hafði áður náð, og þó var vélin keyrð á fullu aftur á bak. Stýrimaðurinn átti fullt í fangi með að beina skipinu fram hjá ísjökum og maður stóð við hvallínuna með öxi viðbúinn að höggva hana í sundur stefndi hvalurinn undir meginísinn. En hann tók stefnuna frá ísnum og ekki þurfti að nota öxina í það sinn.

Eftir um það bil eitt dægur var gerð tilraun til að draga hvalinn nær skipinu, en hann tók þá nýjan sprett, greinilega lítið af honum dregið. Nú gekk óðfluga á kolabirgðirnar. Var þá brugðið á það ráð að nálgast hvalinn með því að draga inn hvallínuna þar til hægt var að skjóta öðrum skutli í hann með annarri línu. Sprengihleðsla hafði sprungið í skutli 1 og sprakk einnig í skutli 2, en lítið dró þó af þessari risaskepnu, hún tók á rás enn á ný. Svo fór að 7 skutlum var skotið í dýrið og sprungu sprengihleðslur í 5 þeirra. Þá loksins lét það af allri mótspyrnu og var stungið til bana. Viðureignin hafði staðið í 52 klukkustundir frá því að fyrsti skutullinn hæfði. Þegar skipshöfn Elliða kom með hvalinn að hvalstöðinni voru bæði kola- og matarbirgðir skipsins upp urnar. (5)

Svo vel vildi til að franskur prófessor, Georges Pouchet, var staddur í hvalstöðinni til að rannsaka líffræði hvala. Geta má nærri að þetta hefur verið mikill hvalreki fyrir hann. Tók Pouchet hvalinn til rannsóknar og Hj. Backe getur um eftirtaldar niðurstöður: Þetta var steypireyður, kvendýr, 105 feta langt og í því 12 feta langt fóstur. Fóstrið sendi Pouchet til Frakklands til frekari rannsóknar. Um stærð hvalsins segir Hj. Backe að lokum: Det var den störste hval som nogen dalevende „hvalmand” hadde seet. (6)

Varla er nokkur vafi á, að hvalbeinin í Skrúð eru úr þessum hval, sbr. ummæli séra Sigtryggs um uppruna beinanna. En er þetta stærsta dýr á jörðinni sem veitt hefur verið? Því verður ekki svarað á sannferðugan máta nema komast í gögn prófessors Pouchet á söfnum í París og bera niðurstöður hans saman við heimildir um önnur stórhveli. Á interneti og í Heimsmetabókum Guinnes má finni fullyrðingar um stærstu hvali. Dæmi af interneti: The largest whale ever measured was a female weighing 171.000 kgs and measuring over 90 ft. -/- 27 m long. Hér er tekið mið af bæði lengd og þyngd. Lengsti hvalur sem undirritaður hefur lesið um var 33 m og þó ekki talinn með stærstu hvölum. Dýrafjarðarhvalurinn var kvendýr, 31,5 metra langt, og gæti samkvæmt framansögðu hafa vegið nær 200 tonn.

Hér er þó rétt að slá engu föstu fyrr en frekari gögn liggja fyrir. Verði niðurstaðan sú, að hvalbeinin í Skrúð séu úr stærstu skepnu sem sögur fara af, þá eru það stór tíðindi sem leggja eigendum beinanna, Náttúrufræði­stofnun, Hafrannsóknarstofnun o. fl. miklar skyldur á herðar.

 

Valdimar H. Gíslason

Mýrum í Dýrafirði.

------

Heimildir: 

 
1. Skrúður á Núpi. Græðsla og gróður í fjörutíu ár (1909-1949), 42-43. Framkvæmdasj. Skrúðs 2004.

2. Sama heimild, 43.

3. Hj. Backe-Hansen, 1937:. Paa hvalfangst ved Island, februar 1892 til oktober 1894. Birt í bók Mörtu Berg: Erindringer. Spredte træk fra mit livs erindringer, 151. Oslo 1985.
4. Sama heimild, 152.

5. Sama heimild, 156 -157

6. Sama heimild, 157.


Sigtryggur Guðlaugsson: Skrúður á Núpi. Græðsla og gróður í fjörutíu ár (1909-1949). Framkvæmdasjóður Skrúðs, 2004.


Hj. Backe-Hansen, 1937: Spredte træk fra mit livs erindringer. Paa hvalfangst ved Island, februar 1892 til oktober 1894. Birt í bók Mörtu Berg: Erindringer, 151-172. Oslo 1985.

21.12.2018 - 17:03 | Hallgrímur Sveinsson

„Blómsveigur var lagður á leiði Jóns Sigurðssonar“

Brúðkaupsmyndin af Jóni Sigurðssyni og Ingibjörgu Einarsdóttur. Ljósm. ókunnur.
Brúðkaupsmyndin af Jóni Sigurðssyni og Ingibjörgu Einarsdóttur. Ljósm. ókunnur.

„Blómsveigur var lagður á leiði Jóns Sigurðssonar“

 

Þessa setningu hefur maður oft heyrt í gegnum tíðina. Síðast í gær, en þá var flutt dagskrá í Ríkisútvarpinu, Rás 1 um fullveldið. Sú útvarpsstöð er einhver besta útvarpsstöð í heimi, ef ekki bara best. Algjör gullmoli. En það er önnur saga. 

   Í áðurnefndri ágætu dagskrá mátti heyra að oft var lagður blómsveigur á leiði Jóns Sigurðssonar í umrædd 100 ár. Nema hvað. Það kom jafnvel fyrir að blómsveigar voru lagðir á leiði Jóns forseta frá þremur stjórnmálasamtökum, sem ekki gátu komið sér saman um einn sveig. Eins og hver annar brandari.

   Nú er frá að segja og rifja upp, að eiginkona Jóns Sigurðssonar hvílir við hlið manns síns í hvelfingu í Hólavallakirkjugarði. Það voru ekki nema 9 dagar á milli þeirra hjóna. En megnið af þeim tíma sem liðinn er frá láti þeirra hafa menn verið í óða önn að leggja blómsveiga á leiði Jóns Sigurðssonar. En hvar er Ingibjörg Einarsdóttir? Stóð hún ekki í lifanda lífi eins og klettur við hlið sjálfstæðishetjunnar, eiginmanns síns? Fór hún ekki með honum 29 sinnum yfir Íslandsála fram og til baka vor og haust þegar allra veðra var von? Bægði hún ekki frá honum öllum óþægindum og ama? Hélt hún honum ekki heimili sem var ein af undirstöðum sjálfstæðisbaráttunnar? Nei, ég segi bara svona.

 

19.12.2018 - 11:28 | Hallgrímur Sveinsson

Leyndardómar Vestfjarða 2: Vestfirsku Alparnir

Feðgarnir Elís Kjaran og Ragnar, sem að hluta til lögðu hinn makalausa veg umhverfis Vestfirsku Alpana, stilla sér upp á jarðýtunni sem kölluð var Teskeiðin í Hrafnholum framan í Helgafelli í Dýrafirði  1973. Ljósm. Elín Pálmdóttir.
Feðgarnir Elís Kjaran og Ragnar, sem að hluta til lögðu hinn makalausa veg umhverfis Vestfirsku Alpana, stilla sér upp á jarðýtunni sem kölluð var Teskeiðin í Hrafnholum framan í Helgafelli í Dýrafirði 1973. Ljósm. Elín Pálmdóttir.

Veist þú hvers vegna skaginn milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar er stundum nefndur Vestfirsku Alparnir?


Maður var nefndur Einar Þ. Guðjohnsen, ferðamálafrömuður og fararstjóri til margra ára og kom oft með ferðahópa til Vestfjarða á sinni tíð. Eftir því sem næst verður komist mun hann fyrstur manna hafa byrjað að kalla skagann Vestfirsku Alpana,þar sem hvassbrýnd fjöllin, hornin og tindarnir á utanverðum skaganum minntu hann mjög á hin þekktu Alpafjöll suður í Evrópu. 

13.12.2018 - 12:51 | Bjarni Georg Einarsson,Guðmundur Ingvarsson,Hallgrímur Sveinsson

Nú seljum við Íslandsbanka og setjum 140 milljarða í samgöngumálin!

Það eina sem getur veitt okkur vonir um bjartari og betri framtíð er að samgöngur muni batna á allra næstu árum,“ segir hún Eva okkar í Árneshreppi á Ströndum í Mogganum. 

   Slík og þvílík neyðarköll frá oddvitum byggðanna vítt og breytt um landið eru svo til daglegt brauð. Og hafa verið í áratugi. Einbreiðir vegir og brýr, vantar ofaníburð, heflun og bundið slitlag. Endalausar bænaskrár, skýrslur, fundir og ályktanir, uppákomur og málarekstur fyrir sunnan. Og ályktanir um það sem allir vita. Og allar nefndirnar? Endalaus lobbyismi. Þrýstihópar og málafylgjumenn. En þetta er eins og að skvetta vatni á gæs. Smáskammtalækningar skulu það vera með svokallaðri happa-og glappaaðferð. 


Landið allt er ein heild

   Við félagarnir höfum tekið undir það með mörgum góðum mönnum, að það er löngu kominn tími til að við lítum á land okkar sem eina heild. Við höfum leyft okkur að leggja fram opinberlega ýmsar tillögur í svokölluðum byggðamálum. Ein þeirra hljóðar svo:

   Hlutur ríkisins í Íslandsbanka verði seldur nú þegar. Raunhæft verð, varlega áætlað af sérfræðingum, 140 milljarðar króna. 

    Í nýrri hvítbók er tæpt á þessu máli. Og auðvitað slegið úr og í að vanda. Okkar tillaga er: Seljum bankann eins og skot. Og setjum þessa peninga í samgöngumál. Punktur og basta!

  

Hver og einn bær er hlekkur í keðjunni!

  Í landsfjórðungunum verði svo starfandi verktakar allan ársins hring sem sjái um að koma samgöngum markvisst í almennilegt horf á allra næstu árum. Ekkert væl, eða jaml, japl og fuður, heldur samræmdar aðgerðir þar sem grundvöllurinn verði að landið allt er ein heild. Hver og einn bær er hlekkur í þeirri keðju. Og vegatolla, með heppilegri gjaldskrá, teljum við sjálfsagða þar sem við á.

   Og formúla stjórnmálamanna Loforð fyrir kosningar = Svik eftir kosningar verður aðhlátursefni komandi kynslóða. Allir málaflokkar munu njóta góðs af. Og landið gjörbreytast. Endurtökum: Það breytist allt til batnaðar!

 

09.11.2018 - 08:55 | Hallgrímur Sveinsson

Fráfarandi formaður orðinn frekar lélegur í klettum

Frá Hrafnseyri á þeim árum er þar var stundaður sauðfjárbúskapur. Í baksýn er staðarins fjall, Ánarmúli, sem heitir svo í höfuðið á fyrsta léttadreng staðarins, Án rauðfeldi, manninum hennar Grelaðar. Í því fjalli er einmitt hin heimsfræga Breiðhilla, sem er langur og grösugur klettagangur. Þar er sko ekki heiglum hent að smala. Ljósm. H. S.
Frá Hrafnseyri á þeim árum er þar var stundaður sauðfjárbúskapur. Í baksýn er staðarins fjall, Ánarmúli, sem heitir svo í höfuðið á fyrsta léttadreng staðarins, Án rauðfeldi, manninum hennar Grelaðar. Í því fjalli er einmitt hin heimsfræga Breiðhilla, sem er langur og grösugur klettagangur. Þar er sko ekki heiglum hent að smala. Ljósm. H. S.
« 1 af 2 »

Aðalfundur Breiðhillufélagsins í Auðkúluhreppi var haldinn á veginum fyrir ofan Ketilseyri í Dýrafirði í fyrri viku. Höfðu fundarmenn Dýrafjarðargöng í baksýn.

   Það kom fram á fundinum, að formaður félagsins, Grímur gamli á Eyrinni, er orðinn svona frekar lélegur í klettum á allra síðustu misserum. Auk þess hundlaus. Sagðist hann því verða að stóla meira upp á yngri menn en verið hefur. Töldu fundarmenn að þetta ætti ekki að koma að mikilli sök, því Hákon Sturla Unnsteinsson, búaliði á Ketilseyri, er vaxandi maður á öllum sviðum þar á meðal í klettum og slíku. Svo er hann með þennan fína smalahund sér við hlið. Ber hann nafnið Lækur, enda ættaður frá Brjánslæk.

   Nú, nú. Samþykkt var að beina þeim eindregnu tilmælum til Miðbæjarbræðra, Kristjáns og Sigurðar Þórarins hreppstjóra, að þeir gefi kost á sér í fyrirstöðu þegar farið verður í Breiðhilluna. Því inneftir mega þær ekki fara. Verður það væntanlega 3. laugardag í nóvember. Reiknað er með að Miðbæjarkallinn verði þá í Þorbjarnardalskjaftinum með víðu útsýni og gefi þaðan ordrur en Siggi Þói hreppstjóri þar fyrir neðan og á veginum, þó án hreppstjóravalds, því hreppstjóri Auðkúluhrepps gefur það ekkert eftir. Ómar Dýri yfirlautinant verður á þjónustubifreið Auðkúluhrepps og gefur mönnum rapport í talstöðinni. Auðvitað verða allir með talstöðvar. En talandi um þjónustubifreið. Ekki vitum við til að nokkur annar hreppur hér um slóðir haldi úti slíkri þjónustu og er það nokkuð sem þeir þurfa að huga að.

   Arna og gimbrin dóttir hennar og veturgömlu gimbrarnar tvær lækkuðu sig um daginn, en nú eru þær víst komnar aftur upp í Breiðhillu, enda viðbúið í góðviðrinu undanfarið. Svo er alveg til í dæminu að fleiri ær séu þar uppi með lömbum, í Karlsstaðagilinu eða eitthvað.

   Ekki er reiknað með að útbýtt verði Viagra karamellum að þessu sinni, þar sem þær eru eiginlega hættar að flytjast. Allavega þær sem eitthvert bragð er að. 

  Jæja. Ketilseyrarkallinn taldi að þegar Arna þarf að komast í námunda við hrút muni hún lækka sig. En það er náttúrlega alveg óvíst því það geta alveg eins verið hrútar þarna uppi þessvegna. En það verður bara að koma í ljós.

     Ýmislegt fleira var tekið fyrir á fundinum þó þess sé ekki getið hér. Frá því verður þó að segja, að Grímur á Eyrinni var útnefndur ævilangur heiðursforseti félagsins með öllum greiddum atkvæðum. Konni á Ketilseyri var útnefndur nýr formaður Breiðhillufélagsins og var hann samþykktur með ferföldu húrrahrópi. 

   Það skal tekið fram, að þótt hér sé nokkuð fært í stílinn, er ýmislegt alveg pottþétt í málinu!

01.11.2018 - 09:39 | Bjarni Georg Einarsson,Guðmundur Ingvarsson,Hallgrímur Sveinsson

Við þurfum nýjar uppfærslur og önnur sjónarhorn fyrir byggðir Íslands

Löngu er kominn tími til að við lítum á land okkar sem eina heild. Smákóngahugsunarhátturinn ætti að tilheyra fortíðinni. Við félagarnir höfum gerst svo djarfir að benda á, að 100 milljarðar í stórtækar, almennar byggðaaðgerðir á ári í 5 ár, myndu breyta miklu fyrir landsmenn alla. En hvar á að taka þá peninga? Nefna má eftirfarandi leiðir:

  
1. Ríkissjóður gefi út 73 milljarða afborgunarlaus skuldabréf á ári næstu fimm ár með hefðbundnum vöxtum. Gott fyrir þá sem eru að ávaxta fé almennings. Lánið endurgreiðist með vegasköttum og gjöldum sem lagðir eru á umferðina næstu 30 ár eftir að afborganir byrja. Í ár er reiknað með allt að 80 milljarða skattlagningu á þeim bæ. Um það bil helmingur af því fer í annað en umferðarmál. Þá skattheimtu þarf bara ekkert að hækka til að greiða umrædd skuldabréf. En Alþingi verður að dusta rykið af vitleysunni á móti á fjárlögum og hefur til þess 30 ár. Alþingi verður sem sagt að forgangsraða! = ca. 365 milljarðar. 


2. Hlutur ríkisins í Íslandsbanka verði seldur. Raunhæft verð, varlega áætlað af sérfræðingum, 130-140 milljarðar. = ca.135 milljarðar.

Alls 500 milljarðar sem komi til viðbótar núverandi framlögum í 4 málaflokka.

 


Hvað á að gera við alla þessa peninga?


1.
Samgöngur á landi. Heilsárssamgöngur á landi eru grundvallaratriði fyrir allar byggðir landsins. Allir ættu að komast akandi þangað sem þeir vilja fara ef veður leyfir, hvenær sem er. Það myndi gjörbreyta flestu hér á landi. Þarf ekki að hafa um það fleiri orð.


2. Heilbrigðisþjónusta sem dugar. Allir geti fengið lækningu og fyrirbyggjandi heilsueftirlit í heimabyggð sé þess kostur. Hver einasti landsmaður hafi sinn héraðs-eða heimilislækni líkt og var áður. Margt bendir til að við þurfum að stórefla þetta kerfi, þó margt sé vel gert í dag. Á tímum einsemdar, einmanaleika, stofnanavæðingar og firringar þarf að hefja persónuleg tengsl upp á nýtt plan.  


Virkt og rétt stillt heimilislæknakerfi, þar sem mannleg fyrirgreiðsla er í öndvegi, getur sinnt 95 prósent þess vanda sem leitað er með til heilsugæslu segja þeir sem vit hafa á. Svo tekur við þegar nauðsyn krefur allt það yndislega fólk sem vinnur á spítölum. Enginn ætti að verða úti í okkar góða heilbrigðiskerfi. Það hlýtur að vera grundvöllurinn.

3. Öruggt rafmagn. Allir íbúar landsins geti stólað á rafmagn frá samveitum allan sólarhringinn árið um kring. Langtímamarkmið að allar raflínur fari í jörð.

4. Örugg nettenging um land allt. Menn geti unnið við tölvuna sína hvar sem er og hvenær sem er á mesta mögulega hraða. Ljúka verkinu strax.

 

Loforð fyrir kosningar = Svik eftir kosningar

Sérfræðingar munu auðvitað hlægja þessar tillögur út af borðinu. Við því er ekkert að segja. Hláturinn lengir lífið! Engum er ljósara en sveitamönnunum að það eru veikir punktar í málflutningnum. En það breytir því ekki, að við þurfum nýjar uppfærslur á hagsmunum heildarinnar. Tillögur okkar verður að skoða í því ljósi. Og formúla stjórnmálamanna Loforð fyrir kosningar = Svik eftir kosningar er bara orðin ga-ga eins og unga fólkið segir.

Við verðum að hætta lobbýismanum og skæklatoginu. Nýi bæjarstjórinn byrjar að heimta af ríkinu áður en hann mætir á skrifstofuna. Sennilega fer meira en helmingur af vinnutíma hans allt kjörtímabilið í að heimta fyrir bæinn sinn. Allan andskotann svo sterkt sé að orði kveðið. Við þurfum vegspotta hér og vegspotta þar segir hreppsnefndin. Svo þurfum við að fá heflað. Það er hola, hola hola. Við þurfum bundið slitlag þar. Við þurfum að færa opinber störf út á landsbyggðina. Við verðum að fá þennan skóla til okkar. Við verðum að fá léttan iðnað. Þannig endalaust frá morgni til kvölds. Sem er auðvitað allt 100% satt og rétt. Menn verða að láta vita af sér. En vinnubrögðin eru kolvitlaus!

 

Hvað kostar vitleysan á þjóðhagslegum grunni?

 

Við verðum að biðja einhverja góða sérfræðinga að reikna út hvað vitleysan kostar á þjóðhagslegum grunni. Til dæmis vin okkar Vilhjálm Bjarnason. Hvað kosta í beinum peningum allar suðurferðirnar á fundina og ráðstefnurnar? Aðallega til að heimta hitt og þetta. Erlendu álitsgjafarnir. Og fundirnir í heimahéraði. Jepparnir og uppihaldið. Endalausar skýrslur. Og ályktanir um það sem allir vita. Og allar nefndirnar? Endalaus lobbyismi. Þrýstihópar og málafylgjumenn. Og allar fréttastofurnar og fréttamennirnir sem eru sólarhringinn út að segja frá kvabbinu í okkur. Og getur það verið að helmingur af vinnutíma allra forsvarsmanna sveitarfélaga fari í að heimta? Við höfum ekki þrek til að ræða eftirlitsiðnaðinn sem Alþingi hefur komið upp. Og varla þrek til að nefna að sennilega fer meira en helmingur af vinnutíma Alþingis út um gluggann fyrir framan styttuna af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli vegna atkvæðahræðslu.   

Nei, þessi vinnubrögð eru löngu gengin sér til húðar. Nú þurfum við stórhug, festu, djörfung, kjark og dug. Dustum vitleysuna burt! 

  

   

24.10.2018 - 10:36 | Hallgrímur Sveinsson

Sjónvarpspistill

Kristján Már Unnarsson
Kristján Már Unnarsson

Rétt einn Vestfirðingurinn sem hefur lag á að tala við fólk

Í þáttunum Um land allt á Stöð 2 heldur um tauma Kristján Már Unnarsson, með vestfirskt blóð í æðum. Hann er einn af reyndustu frétta- og sjónvarpsmönnum landsins. Viðurkenna ber, að undirritaður horfir skjaldan á Stöð 2. Geri hann það, velur hann gjarnan þessa þætti hans Kristjáns Más. Þeir eru einkar forvitnilegir og höfða til okkar þessara gömlu Móhikana. Kristján Már hefur nefnilega lag á að tala við fólk og fá það til að vera afslappað og tjá sig án þess vera nokkuð að spá í upptökuvélina. Minnir hann um margt á þá félaga Ómar Þ. Ragnarsson og Hemma Gunn. Þeir voru auðvitað sjónvarpsmenn á heimsmælikvarða. Hjá Kristjáni er sama taktíkin: Áhugaverðar spurningar og greinilega ekkert stress í efnistökum. Allt einhvern veginn eðlilegt, þvingunarlaust og engin hálfvelgja. Öllu, eða flestu, komið til skila sem er á dagskrá. Enda maðurinn Vestfirðingur sem áður segir! 

 
Frá Hrafnseyri í Auðkúluhreppi í
Frá Hrafnseyri í Auðkúluhreppi í "gamla daga"

Sú saga flýgur nú um Vestfirsku Alpana, að stofnað hafi verið nýtt félag í Auðkúluhreppi og segja kunnugir að ekki veiti nú af. Er um að ræða bæði hlutafélag og samvinnufélag og heitir Puntstrá ehf. 


Tilgangur félagsins: Að græða sem mest.


Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að kaupa og selja fasteignir, leigja þær út á svörtum og með almennri lána- og okurstarfsemi. Selja puntstrá og annan gróður af túnum hér vestra til höfuðborgarinnar og annarra landshluta. Einnig markaðsetning erlendis, einkum í Danmörku. Magnafsláttur verður veittur af öllum framleiðsluvörum félagsins. Gangverð á þeim er nú 250,000,- kr. kg. Að hvetja gamla og aflóga bændur til dáða á túnum sínum.

Heimili og varnarþing: Grelutóttir, 465 Bíldudalur.


Stjórn: Þrír góðglaðir á sundi. Nöfn þeirra verða ekki birt fyrr en búið er að færa stofnun félagsins inn í veðmálabækur Auðkúluhrepps.


Skoðunarmenn: Birt líka síðar.


Hlutafé: 450,000,000,00- Fjögur hundruð og fimmtíu milljónir króna.-


Hömlur á meðferð hlutafjár: Já.


Lausnarskylda á hlutabréfum: Nei.


Í tilkynningu kemur fram, að þeir sem áhuga hafa á að kaupa hlutabréf, því það sé eftir miklu að slægjast, snúi sér til Sparisjóðs Auðkúluhrepps. Þá kemur þar fram að gróðinn verði þvættaður og ávaxtaður bæði þar og á svokölluðum Tortóla eða Jómfrúreyjum eða jafnvel Cayman Islands. Þar ku hann vera nokkuð öruggur fyrir Skattmann gamla. Tekið skal fram, að hér er um fullan sannleika að ræða, þó nokkuð sé hann færður í stílinn.

Eldri færslur
« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31