A A A

Gönguleiðir

Kort af gönguleiðum. Smellið á myndina til að stækka.
Kort af gönguleiðum. Smellið á myndina til að stækka.
Skaginn milli Dýrfjarðar og Arnarfjarðar býður upp á mikla möguleika til gönguferða í fallegu umhverfi. Þessi mikli fjallasalur er ólíkur öðrum fjöllum á Vestfjörðum að því leyti að mun minna undirlendi er á fjallstoppum, fjöllin almennt hærri og formfegurð fjallanna minnir um margt á Alpana. Enda hefur á seinni árum viðurnefnið „Vestfirsku Alparnir" fest við fjallaskagann. Kaldbakur (998m), hæsta fjall Vestfjarða er miðpunktur þessa svæðis og gnæfir yfir umhverfi sitt. Af toppi Kaldbaks er stórkostlegt útsýni til allra átta. Almennt má segja um gönguleiðir í Vestfirsku Ölpunum að gengið er um grösuga dali, skriðurunnar hlíðar og fjallaskörð. Víða má finna kindagötur til að auðvelda gönguna en oft þarf að fóta sig í grófum hlíðum og gildir þá að miða ferðahraða við getu. Sökum mikils brattlendis, er erfitt að ganga lengri hringleiðir sem er smá galli því þá þarf að skilja bíl eftir við upphaf göngu nema gera ráðstafanir fyrirfram. Í því tilfelli er gott að vera í samfloti með fólki á öðrum bíl en ganga leiðina frá sitt hvorum endanum og skiptast síðan á bíl. Þá er hægt að mæla sér mót í fallegu fjallaskarði og fá sér nesti og skiptast á bíllyklum. Í flestum tilfellum er svipað erfitt að ganga í hvora áttina sem er en leiðarlýsingar miðast þá átt sem algengara er að ganga. Ekki er búið að merkja allar leiðirnar en verið er að vinna í því. Ekki er hægt að ábyrgjast ástand gönguleiða og ferðafólk gengur á eigin ábyrgð. Alltaf ætti að leita upplýsinga um ástand gönguleiða í næstu upplýsingamiðstöð ferðamála á Þingeyri eða Ísafirði.

 

1. Keldudalur - Gjálpardalur 3 - 3,5 tímar Hækkun 250m.
Hægt er að keyra að bænum Hrauni og hefja göngu þar. Upplagt er að skoða gömlu kirkjuna sem Þjóðminjasafnið hefur nýlega gert upp en hún var byggð árið 1885. Gengið er frá kirkjunni í Hrauni fram í Gjálpardal sem er fagur dalur hömrum girtur. Í Strengbergshorninu sem er að norðanverðu í dalnum eru mjög tignarlegir berggangar sem vert er að skoða. Á Vestfjörðum eru berggangar gjarnan kallaðir strengir.

 

2. Keldudalur - Helgafell (549m) 4 - 5 tímar
Hægt er að keyra að bænum Hrauni og hefja göngu þar. Best er að ganga örlítið inn á við í vestur og sveigja svo til hægri og skáskera hlíðina upp á brún. Ferðamenn hafa þó misjafnan hátt þar á. Útsýni af Helgafelli er fallegt og í skíru veðri sést yfir nyrðri hluta Dýrafjarðar og vestasta hluta Alpanna. Uppi á Helgafelli er Altarið, gömul mosavaxin steinhleðsla sem sagt er að Guðmundur góði hafi látið hlaða við komu sína í Keldudal. Að norðanverðu eru mikil standbjörg og rétt að fara varlega við brúnina. Sama leið er gengin niður.

 

3. Sveinseyri - Arnarnúpur ( 558m) 3,5 - 4,5 tímar
Bílnum er lagt fyrir utan bæinn Sveinseyri. Gengið er inn í Eyrarhvilftina og botni hvilftarinnar fylgt upp á brún. Útsýni af Arnarnúpnum er mjög fagurt inn Keldudalinn og um alla hans þverdali. Af fáum stöðum er útsýni yfir Dýrafjörðinn jafn stórbrotið. Sama leið gengin niður.

 

4. Haukadalur - hringur 3 - 4 tímar Hækkun: 80m
Í Haukadal drýpur sagan af hverju strái. Margt er hægt að skoða og alveg þess virði að verja þar nokkrum klukkutímum við að ráfa um dalbotninn og hugsa um raunir forfeðranna og erlendra sjómanna sem vöndu komur sínar í Dýrafjörðinn. Dalurinn er aðalsögusvið Gísla sögu og er talið að bær hans hafi staðið á Gíslahól en þar má finna tóftir sem taldar eru vera frá söguöld. Dalurinn er hallalítill og í botni hans gnæfir Kaldbakur yfir umhverfi sitt og Kolturshorn er á hægri hönd. Hægt er að ganga á hornið ef farið er inn Koltursdalinn og upp á hrygginn á milli Kaldbaks og Kolturshorns. Leiðin er vandrötuð og ekki fyrir óvana. Fyrir neðan Kolturshornið eru tóftir. Þar heitir Sel og er talið að bær Auðbjargar hinna göldróttu, Annmarkastaðir, hafi staðið en hennar er getið í Gísla sögu. Þegar búið er að skoða tóftirnar er skemmtilegt að fara yfir Þverána og ganga dalinn austanverðan til baka. Í mynni dalsins má sjá Seftjörn þá er Haukdælir til forna háðu á ísknattleiki eins og greint er frá í Gísla sögu. Seinna var tjörnin notuð á veturna til að höggva ís er notaður var í fyrsta íshúsi í Vestur - Ísafjarðarsýslu um aldamótin 1900. Haukadalsbót var einn helsti hvíldarstaður áhafna franskra fiskiskúta er þær stunduðu veiðar við vesturströnd Íslands. Fransmannagrafreitur er í innaverðu mynni dalsins þar sem nokkrir sjómenn af þessum skipum hlutu hinstu hvílu.

 

5. Haukadalur - Lokinhamradalur 5 - 6 tímar Hækkun: 600m
Byrjað er að ganga fram Haukadalinn vestanverðan og efstu kindagötunum fylgt. Ekki er gengið alla leið fram að bæjartóftum hennar Auðbjargar, heldur er sveigt til vesturs upp í grösugan Lambadalinn, meðfram Þverá sem víða fellur í þröngu gljúfri, og gengið fram dalbotninn. Það er frekar bratt upp á Lokinhamraheiðina en heiðin sjálf er örstutt og jafnvel stysta heiði á landinu, ekki nema fimm til sex skref!
Nú blasir við Lokinhamradalurinn og er gengið niður dalinn austanverðan meðfram fjallinu Skeggja sem á þessari leið er oft nefndur Skorarfjall eftir mjög djúpum skorum sem skera sundur tröllaukin hamrabelti fjallsins, enda er þar þurrara undir fæti.

 

6. Meðaldalur - náma 3 - 4 tímar Hækkun 120m.
Í Meðaldal er margt forvitnilegt að sjá. Þar er skemmtilegur golfvöllur Þingeyringa í fögrum fjallasal, leifar gamallar vatnsvirkjunar frá upphafi tæknialdar, og silfurbergsnáma í botni dalsins svo eitthvað sé nefnt. Það var í kringum 1910 sem miklar framkvæmdir áttu sér stað í botni dalsins er framámenn leituðu að silfurbergi sem í þá tíð var mikið notað í ýmisskonar sjóngler. Náman var 10 - 15 metra djúp og námuopið 2,5 metrar í þvermál fremst en mjókkaði svo inn á við. Töluvert hefur borist af efni inní námuna svo að í dag er hún örgrunn (4 - 6 metrar á dýpt). Er vinnslan var hafin, kom í ljós að efnið var ekki silfurberg heldur skyld steind sem nefnist aragónít. Vegslóði liggur langleiðina að námunni en mælt er með því að ganga frameftir.


7. Kirkjubólsdalur - Kaldbakur 5 - 6 tímar frá bænum. Hækkun 998m.
Gönguferð á Kaldbak (998m) hæsta fjall Vestfjarða, er auðveld öllu ferðafæru fólki og lætur engan ósnortinn. Mælt er með því að sitja um gott og heiðskírt veður því utsýnið af toppnum er stórkostlegt. Má segja að Vestfirðir allir og Snæfellsnes blasi við þaðan. Ef ganga á alla leið á toppinn er bílnum lagt við bæinn Kirkjuból. Sýnið tillitsemi við heimilisfólk á bænum varðandi hvar þið leggið. Eins er alltaf góð regla að láta vita af ferðum sínum. Vegslóðanum er fylgt fram Kirkjubólsdalinn með tignarleg fjöll eins og hornin fjögur á vinstri hönd, Hádegishorn, Breiðhorn, Göngudalshorn og Grjótskálarhorn. Þegar komið er framarlega í dalinn er best að fara af veginum og sveigja til hægri uppí Kvennaskarðið. Þaðan má fylgja fjallshryggnum yfir í Meðaldalsskarðið. Úr skarðinu er haldið upp og ógreinilegum stíg fylgt upp á topp Kaldbaks. Á toppnum er tveggja metra há varða sem gefur ferðalöngum tækifæri á að ná þúsund metra hæð. Í vörðunni er líka gestabók.


7a. Kaldbakur úr botni Fossdals 2,5 - 3 tímar. Hækkun 570m
Ekið er framhjá bænum Auðkúlu og út Arnafjörð að Fossdal og fram í botn hans. Í beygjunni er ágætis staður til að leggja bílnum. Eins er hægt að keyra fram Kirkjubólsdalinn, yfir skarðið og leggja bílnum á fyrrnefndum stað. Þaðan er gengið í Meðaldalsskarð (vestara skraðið) og fjallsöxlinni fylgt upp á topp Kaldbaks, sjá leið 7.

 

8. Tjaldanesdalur - Kirkjubólsdalur 5 - 6 tímar. Hækkun 540m.
Ekið er framhjá bænum Auðkúlu í Arnafirði og út fyrir bæinn Tjaldanes og upp afleggjara fyrir utan ána. Ekki borgar sig að fara lengra en upp á kambinn. Dalurinn sjálfur er fyrir margt sérstakur. Hann er miðja svokallaðrar Tjaldaneseldstöðvar sem er kulnuð megineldstöð með ríólít (líparít)skriðum og keiluganga úr gabbrói sem liggja inn að miðju eldstöðvarinnar. Tjaldaneseldstöðin er elsta megineldstöð Íslands. Á sólríkum degi taka skriðurnar á sig ýmsa liti og sérstaklega eftir rigningu. Gengið er fram dalinn að vestanverðu og fylgt kindagötum. Einnig eru litlar vörður upp á hæðum til að létta leiðarvalið. Dalurinn er mikið berjaland sem getur tafið för síðsumars þegar ferðalangar setjast niður við hverja þúfu og fá sér í svanginn. Fremst er dalurinn mjög gróðursnauður og í Tröllakika, er gengur vestur úr honum, er varla stingandi strá. Ef tíminn sé nægur er gaman að taka smá krók þangað inneftir. Göngudalsskarð (65°48.228N 023°34.382W) er næsti áfangastaður og er um brattar skriður að fara og er víða farið að marka fyrir slóða og um að gera að nota hann. Gott er að taka nestishvíld í skarðinu í um 580m hæð með fagurt útsýni til beggja átta. Þaðan er haldið niður í Göngudalinn og nú stendur val um að halda alveg niður í botn Kirkjubólsdal og fylgja vegslóðanum að Kirkjubóli. Hinn möguleikinn er að fylgja svokölluðum Tröllagötum undir Breiðhorni og Hádegishorni alveg heim að Hofsrétt sem er forn hlaðin rétt. Þaðan er að lokum gengið að veginum við bæinn Múla. Þetta er vissulega skemmtilegri leið en meira krefjandi og tekur aðeins lengri tíma.

 

9. Tjaldanesdalur - Galtadalur 5 - 6 tímar. Hækkun 550m.
Gengið er inn Tjaldanesdalinn og sveigt til austurs við Seljalæk og haldið upp í Kvennaskarð. Haldið er niður Galtadalinn eftir botni hans og niður á veginn við Þverá í Brekkudal.

 

10. Sandafell - hringur 1,5 - 2 tímar
Skemmtilegt er að taka göngutúr í kringum Sandafell og er hægt að halda sig á vegi og stígum mestan tímann. Hluta leiðarinnar frá Þingeyri og að fiskhjöllum harðfiskverkenda er hægt að ganga fallegri fjöru. Upplögð kvöldganga og ganga fyrir alla fjölskylduna. Virðið smágróður skógarins sem er að vaxa upp vestanvert undir Sandafelli

 

11. Sandafell - útsýnisskífa (367m) 1,5 - 2 tímar. Hækkun 170m.
Útsýnið af Sandafelli er frábært. Þrátt fyrir að fellið sé ekki hátt stendur það mikið út í Dýrafjörð. Enginn ætti að láta það úr hendi sleppa að koma þangað upp. Hægt er að keyra alla leið upp á fellið á fjórhjóladrifnum bíl en skemmtilegra er að ganga frá þjóðveginum eða frá Þingeyri. Á toppnum er útsýnisskífa með öllum helstu kennileitum sem fyrir augu ber.

 

12. Mýrafell (312m) 2 - 2,5 tímar. Hækkun 250m.
Mýrafell er á norðurströnd Dýrafjarðar beint á móti Sandafelli og svipar mjög til þess. Útsýni þaðan er mjög fallegt. Leiðin upp hrygginn er auðgenginn og skemmtileg. Best er að leggja bílnum nokkru utan við Mýrabæinn við innri enda fellsins. Þaðan er gengið upp á Setann og svo fylgt stíg upp fellið sem er vel greinilegur á köflum. Á toppi Mýrafells er varða og gestabók.

 

13. Keldudalur - Stapadalur. 7 - 9 tímar.
Nokkuð löng ganga eftir vegarslóðanum sem liggur fyrir skagann á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Vegslóðanum er fylgt frá Keldudal og fyrst farið um klettaþræðinginn í Hrafnholunum. Þar má m.a. sjá leifar trjáa sem eru meira en 10 milljón ára gamlar. Áfram er gengið framhjá Höfn og um Svalvoga. Fjöllin eru hrikaleg og ekki fjaran er síðri, sérstaklega margbrotin og falleg. Frá Svalvogum er vegslóðanum fylgt áfram um Sléttanes og inn til hömrum girts Lokinhamradals. Á leiðinni er gengið framhjá hverjum hamrasalnum á fætur öðrum og berggangar á leiðinni eru hreint ótrúlegir. Skeggi, fjallið innan til við Lokinhamradal og áfram inn á Bjargarhlíðina er einn stórfenglegasti fjallarisi Íslands. Áfram er vegslóðanum fylgt inn undir Skútabjörgin og inn að Stapa og alltaf verður ný upplifun. Frá Stapanum er vegslóðanum fylgt inn að Stapadal en þangað er gott að komast á bíl.

 

14. Svalvogahringurinn. Hjólaleið. 6 - 8 tímar. Hækkun 550m.
Það er að verða sífellt vinsælla að hjóla svokallaðan Svalvogahring. Leiðin er stórkostleg og upplifa ferðalangar allt sem sagt er frá í leið þrettán auk þess að hjóla upp Fossdalinn, yfir skarðið og niður Kirkjubólsdalinn og enda við flugstöðina (á flugvellinum) þaðan sem lagt var af stað. Þetta er sannarlega skemmtileg ferð og óhætt að mæla með henni fyrir alla sem eru með fæturna í sæmilegu lagi. Fyrir þá allra hörðustu, er gaman að fara af hjólinu undir heiðinni (Álftamýrarheiði) og ganga þaðan á topp Kaldbaks. Eftir að hafa notið útsýnisins af „þaki Vestfjarða" er farin sama leið niður aftur og hjólað niður Kirkjubólsdalinn að upphafsstað.

« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30