A A A
  • 1931 - Sylvķa Ólafsdóttir
  • 2007 - Mikael Breki Žóršarson
20.02.2019 - 13:42 | Žingeyrarakademķan

Ennžį meira um bankamįlin

Žingeyrarakademķan aš störfum. Ljósm. Haukur Siguršsson.
Žingeyrarakademķan aš störfum. Ljósm. Haukur Siguršsson.
« 1 af 2 »

Þingeyrarakademían ályktar:

 

Höfuðstöðvar Landsbankans, banka allra landsmanna í Austurstræti, er hús með sál og sögu. Þeir eru ekki margir bankarnir norðan Alpafjalla sem eiga svona fallega byggingu. En nú skal byggja nýja peningahöll úr steypu, járni og gleri á dýrasta stað í höfuðborginni og bílakjallara við hæfi. Níu milljarðar þar. Sennilega 15 milljarðar þegar upp verður staðið. Þingeyrarakademían leggur eindregið til að þessari vitleysu verði hætt nú þegar og lóð og heila klabbið selt.

Drottningin í væntanlegri voða stórri höll hefur á skömmum tíma fengið launahækkun sem er á við fimmföld mánaðarlaun verkamanns. Fimmföld. Þar með hefur hún ellefu sinnum hærri laun en gjaldkerinn í bankanum. Rök bankaráðsins eru þau að hún átti að fá þessa hækkun! Frúin í Íslandsbanka er svo sér á báti sem við höfum ekki þrek til að ræða. Ef fer sem horfir verða þessar ofurkonur fljótlega komnar með 10-15 milljónir á mánuði. Þingeyrarakademían leggur hins vegar til að enginn ríkisstarfsmaður hafi hærri laun en 2 milljónir á mánuði. 

Allt sem hér hefur verið rakið er eins og blaut gólftuska framan í landsmenn. Bankasýslan og ráðherra koma af fjöllum og biðja náðarsamlegast um upplýsingar. Er enginn maður með viti sem fylgist með bönkum allra landsmanna? 

Spyrja verður einnig: Hvað eru bankaráðsmennirnir með í árslaun fyrir dómgreindarleysið?

19.02.2019 - 17:16 |

Listamenn sżndu og komu fram ķ Simbahöllinni

Louise Anna
Louise Anna
« 1 af 7 »

Sex alþjóðlegir listamenn dvöldu síðustu tvær vikur í listamannavinnustofu Simbahallarinnar, Westfjords Residency. Er þetta sjöunda árið sem vinnustofur sem þessar eru skipulagðar af vertum Simbahallarinnar og hefur mikil almenn ánægja verið með fyrirkomulagið, bæði frá listamönnum sem og heimamönnum sem fá að njóta.

 

Á föstudagskvöldið var opið hús í Simbahöllinni þar sem listamennirnir ýmist sýndu verk eða fluttu. Þingeyrarvefurinn sendi sérlegan listagagnrýnanda vefsins á stjá til að athuga málið.

 

Fyrst ber að nefna Margaret Byrd frá Seattle í Bandaríkjunum sem nýtti sér kuldann sem ríkt hefur undanfarið til að útbúa ís listaverk sem hún dreifði um bæinn. Ísmolar litaðir með ýmsum náttúrulitum settu því svip sinn á bæjarbraginn á Þingeyri þá daga sem hún var hér.

 

Hin suður kóreska Soo Kyung Bae setti upp vinnuherbergi í einu rými Blábankans og málaði stóla af miklum móð. Sýndi hún nokkur verkanna í Simbahöllinni og vakti frumleg notkun hennar á litum og línum sérstaka athygli gesta.

 

Japanska ljósmyndarann Takashi Nakagawa hafa margir bæjarbúar eflaust séð, en um þriggja vikna skeið var hann mikið á ferðinni með myndavél um hálsinn. Hann sýndi tvær myndaseríur á skjávarpa. Aðra þeirra með stórskemmtilegum svarthvítum vestfirskum götumyndum í 15:9 formatti og hina með safni af abstrakt myndblöndum úr náttúrunni.

 

Kim Curtis frá Illinois í Bandaríkjunum sýndi bútalistaverk sem hún límdi og saumaði saman úr pennateikningum og litagleði sem hún fangaði hér í Dýrafirðinum.

 

Leikkonan og ljóðskáldið frá Hollywood, Elaine Weatherby, steig á stokk og flutti ljóð sem hún samdi meðan á dvöl hennar stóð hér á Þingeyri. Fjallaði hún m.a. á skemmtilegan hátt um daglegt líf hér í þorpinu og aðdáun hennar á meðlimum Akademíunnar.

 

Skoska tónlistarkonan Louise Anna spilaði lágstemmt popp á lítið rafmagnshljómborð. Skemmtilegar textasmíðar og falleg söngrödd vöktu athygli viðstaddra, svo mikla að hún var fengin til að taka aukalög síðar um kvöldið.

 

Hin danska Ronja steig síðust á stokk. Ronja var ekki hluti af vinnustofunni sjálfri heldur í bænum í öðrum erindagjörðum, en það kom ekki að sök, hvers kyns listafólki er tekið fagnandi í Simbahöllinni. Ronja heillaði viðstadda með frumsaminni tónlist og kraftmikilli rödd. Það er augljóst að Ronja hefur staðið á sviði áður, en öryggi hennar og sviðsframkoma var aðdáunarverð.

 

Óhætt er að segja að listafólkið hafi lífgað uppá samfélagið hér í firðinum með uppátækjum sínum. Fullt var út úr dyrum í Simbahöllinni og almenn gleði var með viðburðinn. Því lengra sem leið á kvöldið þeim mun meira hitnaði í kolunum - og á tímabili var stemmingin við suðumark.

 

Þingeyrarvefurinn þakkar fyrir sig og hvetur til fleiri viðburða af þessu tagi. Ekki aðeins vegna listarinnar sjálfrar, heldur líka vegna þess að svona viðburðir hvetja fólk til að hittast og gera sér glaðan dag - og það er mikilvægt öllum samfélögum.

19.02.2019 - 09:35 |

Framvinda ķ viku 7

Áframhaldandi flottur gangur í gangagreftri og lengdust göngin um 88,8 m í síðustu viku.

Lengd ganga Dýrafjarðarmegin er þá orðin 962,7 m og samanlögð lengd ganga 4.620,3 m sem er 87,2% af heildarlengd. Lengd að gegnumbroti er nú 680,7 m.

Auk gangagerðar vinnur verktaki jöfnum höndum í vegagerð og er vegurinn að göngum óðum að taka á sig mynd. Efni úr göngum er ekið í vegfyllingar frá göngum og til vesturs en í vesturendanum og í átt að göngum hefur mest allt efnið komið úr Kjarnansstaða- og Ketilseyrarnámum. Þá hefur verktaki undanfarnar vikur verið að vinna efni í rofvörn á vegfláa þar sem vegur liggur meðfram og í sjó í vesturendanum og er það efni úr Nautahjallanámu.

18.02.2019 - 13:00 | Hallgrķmur Sveinsson

Žingeyrarkauptśn ķ gjörgęslu: Bśiš aš telja öll hśs og notkun žeirra śtfęrš

Žingeyri
Žingeyri

Tveir spekingar vestan úr Auðkúluhreppi, þeir Grímur gamli á Eyrinni, Breiðhillusmali og fyrrum methafi Auðkúluhrepps í 200  m skriðsundi og Þorbjörn Pétursson bóndi og kvikmyndaleikari á Ósi, eru nú með Þingeyrarkauptún í gjörgæslu. Ekki liggur fyrir hvort þessi gjörgæsla er á vegum Byggðastofnunar, Fiskistofu, Umhverfisstofnunar eða jafnvel Skipulagsstofnunar. Það verður bara að koma í ljós, segja þeir félagar aðspurðir. En þeir fullyrða að þeir brúki hávísindalega aðferðafræði í rannsókn sinni. Nú.

Eftirfarandi óyggjandi staðreyndir í 1. þrepi rannsóknarinnar liggja nú þegar fyrir hjá þeim Auðkúluhreppsmönnum:


Íbúðarhús, fjöldi og notkun á Þingeyri.

Íbúðarhús og stakar íbúðir alls............................................................................... 130

(Þar af hús í byggingu, tóm hús og íbúðir ekki í heilsársnotkun........................................  34)


Samtals.........................................................................................................   130Vinnustaðahús, skólar, hótel og fleira........................................................................ 39

 

Samtals fjöldi húsa á Þingeyri (dúfnakofar, hænsnakofar, jarðhús og fjárhús ekki talin með)......169


Íbúðir og hús til sölu á staðnum eru nú 5-6 eftir því sem næst verður komist segja þeir spekingar. (Birt án ábyrgðar)

 

Trúnaðarmaður verkefnisins, Guðberg Kristján Gunnarsson, bóndi, yfirsmali, tófuskytta og sundkappi frá Miðbæ, segir að taka verði þessar tölur frá þeim félögum með fullum fyrirvara. Þær eigi eftir að fara í grenndarkynningu. Og svo er kærufrestur 6 mánuðir. 

Þannig að það er ekki sopið kálið þó í ausuna sé komið, segir trúnaðarmaðurinn. En það verði að taka spekingana trúanlega á  þessu stigi. Þeir hafi nú sjaldan klikkað þegar báðir hafa lagt saman. Þetta sé í fullri alvöru, en með gamansömu ívafi. Mættu margar stofnanir taka þetta til fyrirmyndar. Þær skili  stundum fleiri hundruð blaðsíðna skýrslum sem séu svo leiðinlegar aflestrar að það sé ekki fyrir nokkurn hvítan mann að lesa. Enda fara þær oft beint upp í hillu eða niður í skúffu. Jafnvel þó þær hafi kostað milljónir.

Fleiri fréttir

28.12.2018 - 12:35 | Ašsendar greinar - Valdimar H. Gķslason

Um tilurš hvalbeinahlišsins ķ Skrśš į Nśpi ķ Dżrafirši

Beinin sem nś standa ķ Skrśš eru śr langreiš sem skutluš var sumariš 2010 en upp fór nżja hlišiš 2012.
Beinin sem nś standa ķ Skrśš eru śr langreiš sem skutluš var sumariš 2010 en upp fór nżja hlišiš 2012.
« 1 af 2 »

Grein Valdimars hér að neðan var rituð árið 2008. Sæmundur Þorvaldsson ritar þennan viðauka nú í lok ársins 2018: Beinin stóðu í Skrúð frá 1932 til 2009 eða í 77 ár. Þegar þau voru tekin niður voru 115 ár frá því hvalurinn var skutlaður. Skepnan sú gæti hafa verið 100 ára gömul og því verið borin undan Dýrafirði svona ca 1795, eða þegar Napoleon Bonaparte var aðeins 25 vetra. Beinin voru tekin niður í nóvember 2009 og eru varðveit í Náttúrugripasafni Vestfjarða. Enn flæddi lýsi úr þeim hluta beinanna sem stóð niðri í steypunni. Beinin sem nú standa í Skrúð eru úr langreið sem skutluð var sumarið 2010 en upp fór nýja hliðið 2012.

Um tilurð hvalbeinahliðsins í Skrúð á Núpi í Dýrafirði - Eftir Valdimar H. Gíslason.

Á árunum 1890 til 1903 ráku Norðmenn hvalveiðistöð á Höfðaodda í Dýrafirði (sem Norðmenn kölluðu Framnes). Forstöðumaður stöðvarinnar var Kapteinn Lauritz Jacob Berg frá Túnsbergi í Noregi. Séra Sigtryggur Guðlaugsson, prófastur á Núpi og stofnandi Skrúðs, segir svo frá í bók sinni um Skrúð:

 

Það var í landshöfðingjatíð Magnúsar Stephensen, að capt. Berg átti von á tignum gesti: heimsókn landshöfðingjans. Vildi capt. Berg taka sæmilega á móti honum og ekkert til spara þótt fátt væri um viðhafnarefni hér í „útlegðinni”. Svo bar þá við, að einn af veiðibátum hans náði stórhveli – einu því allravænsta, sem hér var að fjöru dregið. Þegar happdrætti þessum hafði verið slátrað til allskonar hagnýtingar lét capteinninn taka kjálka skepnunnar, hreinsa þá og fægja í skyndi. Því næst voru grafnir á enda niður tveir masturstrésstúfar og treystir sem öruggast, sinn hvoru megin við rætur bryggju þeirrar, sem landshöfðingi skyldi ganga eftir, er hann stigi á land. Við þessi masturtré voru svo kverkendar kjálkanna járnboltafestir rammlega, kjálkarnir uppreistir og trjónuendar þeirra festir eins saman í stöðu, sem líkastri því, er verið hafði í skepnunni lifandi. … Og hliðið fékk að standa svo lengi, sem eðlileg öfl náttúrunnar leyfðu. (1)

 

En þar kom að tréstoðirnar fúnuðu og sigurboginn féll til jarðar. Hvalstöðin var rifin, húsum sundrað og efni flutt á brott, mest af því suður til Viðeyjar, en Milljónafélagið hafði keypt húsin og hugðist nota efnið úr þeim til uppbyggingar þar. Ábúendur á Höfða eignuðust hvalkjálkana á uppboði ásamt ýmsu drasli, sem ekki þótti svara kostnaði að flytja í aðra landshluta. Síðar gáfu þeir kjálkana sem minjagripi til Ungmennaskólans á Núpi, þar sem séra Sigtryggur Guðlaugsson var í forsvari sem skólastjóri.

Kjálkarnir voru fluttir sjóleiðina út að Núpssjó. Nemendur skólans sættu klakafæris næsta vetur og drógu kjálkana upp undir Skrúð, en í garðinum var þeim ætlaður staður. Dróst í allmörg ár að koma beinunum fyrir, en árið 1932 voru þau reist á steyptri undirstöðu þar sem þau standa enn í dag, árið 2008. (2)

Nánari upplýsingar um veiðar og stærð hinnar miklu skepnu sem lagði til hvalkjálkana í Skrúð er að finna í bók Mörtu Berg, konu kapteins Lauritz Berg. Bók þessi kom út í Osló 1985. Í henni er kafli tekinn úr ævisögu Hj. Backe-Hansen: Spredte træk fra mit livs erindringer, sem kom út 1937. Kafli þessi nefnist: Paa hvalfangst ved Island, februar 1892 til oktober 1894 (3). Í kaflanum eru áhugaverðar lýsingar á hvalveiðum og vinnslu hvalafurða. Einnig eru þarna skemmtilegar frásagnir af lífinu í hvalstöðinni og samskiptunum við Dýrfirðinga.

Sagt er frá hvalbátunum og búnaði þeirra. Þeir voru um 100 fet á lengd, með ca. 190 hestafla vélum og gengu 8 sjómílur á klukkustund. Með hval í drætti var gangurinn 5 - 6 mílur. Hvalabyssan var staðsett frammi við stefni bátanna. Hlaupvíddin var um 3 tommur og hvalskutlarnir 1,5 - 2 metrar að lengd. Hvallínan var sem mannshandleggur að gildleika, 900 faðma löng. Venja var að hafa tvær slíkar línur um borð og 5 - 6 skutla. Á enda skutuls voru 4 klær, 6 - 7 tommu langar, sem opnuðust og læstust í hvalinn þegar strekktist á hvallínunni. Á skutlinum var komið fyrir sprengjuhleðslu sem í var 1 kg af grófkornuðu púðri. Þegar gripklær skutulsins opnuðust, brutu þær glerkúlur sem kveiktu í púðrinu. (4)

Af framansögðu sést, að hvalbátarnir frá hvalstöðinni á Höfðaodda (Framnesi) voru vel út búnir og hvalur sem varð fyrir skoti laut yfirleitt fljótlega í lægra haldi fyrir þessari hugvitssamlegu drápstækni. Árið 1892 voru þrír hvalbátar gerðir út af Framnesstöðinni í Dýrafirði: Viktoria, 74 brúttólestir, Friðþjófur, 85 brúttólestir og Elliði, 69 brúttólestir.

Hj. Backe-Hansen, sem er heimildarmaður að framansögðu, var skipverji á Elliða og varð 16 ára þetta ár. Snemmsumars voru skipverjar á Elliða í hvalaleit í íshröngli langt út af Dýrafirði. Eftir nokkurra daga leit rákust þeir á risastóran steypireið. Þeir náðu fljótlega að koma skutli í hann. Um leið og hvalurinn fann fyrir skutlinum tók hann á rás og dró Elliða með sér á meiri hraða en hann hafði áður náð, og þó var vélin keyrð á fullu aftur á bak. Stýrimaðurinn átti fullt í fangi með að beina skipinu fram hjá ísjökum og maður stóð við hvallínuna með öxi viðbúinn að höggva hana í sundur stefndi hvalurinn undir meginísinn. En hann tók stefnuna frá ísnum og ekki þurfti að nota öxina í það sinn.

Eftir um það bil eitt dægur var gerð tilraun til að draga hvalinn nær skipinu, en hann tók þá nýjan sprett, greinilega lítið af honum dregið. Nú gekk óðfluga á kolabirgðirnar. Var þá brugðið á það ráð að nálgast hvalinn með því að draga inn hvallínuna þar til hægt var að skjóta öðrum skutli í hann með annarri línu. Sprengihleðsla hafði sprungið í skutli 1 og sprakk einnig í skutli 2, en lítið dró þó af þessari risaskepnu, hún tók á rás enn á ný. Svo fór að 7 skutlum var skotið í dýrið og sprungu sprengihleðslur í 5 þeirra. Þá loksins lét það af allri mótspyrnu og var stungið til bana. Viðureignin hafði staðið í 52 klukkustundir frá því að fyrsti skutullinn hæfði. Þegar skipshöfn Elliða kom með hvalinn að hvalstöðinni voru bæði kola- og matarbirgðir skipsins upp urnar. (5)

Svo vel vildi til að franskur prófessor, Georges Pouchet, var staddur í hvalstöðinni til að rannsaka líffræði hvala. Geta má nærri að þetta hefur verið mikill hvalreki fyrir hann. Tók Pouchet hvalinn til rannsóknar og Hj. Backe getur um eftirtaldar niðurstöður: Þetta var steypireyður, kvendýr, 105 feta langt og í því 12 feta langt fóstur. Fóstrið sendi Pouchet til Frakklands til frekari rannsóknar. Um stærð hvalsins segir Hj. Backe að lokum: Det var den störste hval som nogen dalevende „hvalmand” hadde seet. (6)

Varla er nokkur vafi á, að hvalbeinin í Skrúð eru úr þessum hval, sbr. ummæli séra Sigtryggs um uppruna beinanna. En er þetta stærsta dýr á jörðinni sem veitt hefur verið? Því verður ekki svarað á sannferðugan máta nema komast í gögn prófessors Pouchet á söfnum í París og bera niðurstöður hans saman við heimildir um önnur stórhveli. Á interneti og í Heimsmetabókum Guinnes má finni fullyrðingar um stærstu hvali. Dæmi af interneti: The largest whale ever measured was a female weighing 171.000 kgs and measuring over 90 ft. -/- 27 m long. Hér er tekið mið af bæði lengd og þyngd. Lengsti hvalur sem undirritaður hefur lesið um var 33 m og þó ekki talinn með stærstu hvölum. Dýrafjarðarhvalurinn var kvendýr, 31,5 metra langt, og gæti samkvæmt framansögðu hafa vegið nær 200 tonn.

Hér er þó rétt að slá engu föstu fyrr en frekari gögn liggja fyrir. Verði niðurstaðan sú, að hvalbeinin í Skrúð séu úr stærstu skepnu sem sögur fara af, þá eru það stór tíðindi sem leggja eigendum beinanna, Náttúrufræði­stofnun, Hafrannsóknarstofnun o. fl. miklar skyldur á herðar.

 

Valdimar H. Gíslason

Mýrum í Dýrafirði.

------

Heimildir: 

 
1. Skrúður á Núpi. Græðsla og gróður í fjörutíu ár (1909-1949), 42-43. Framkvæmdasj. Skrúðs 2004.

2. Sama heimild, 43.

3. Hj. Backe-Hansen, 1937:. Paa hvalfangst ved Island, februar 1892 til oktober 1894. Birt í bók Mörtu Berg: Erindringer. Spredte træk fra mit livs erindringer, 151. Oslo 1985.
4. Sama heimild, 152.

5. Sama heimild, 156 -157

6. Sama heimild, 157.


Sigtryggur Guðlaugsson: Skrúður á Núpi. Græðsla og gróður í fjörutíu ár (1909-1949). Framkvæmdasjóður Skrúðs, 2004.


Hj. Backe-Hansen, 1937: Spredte træk fra mit livs erindringer. Paa hvalfangst ved Island, februar 1892 til oktober 1894. Birt í bók Mörtu Berg: Erindringer, 151-172. Oslo 1985.

Fleiri greinar


« Febrśar »
S M Ž M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28