A A A
  • 1992 - Hannes Pétur Einarsson
  • 1994 - Jón Þorri Jónsson
05.03.2018 - 14:03 | Vestfirska forlagið

Úr sagnabanka Vestfirska forlagsins

Mynd frá www.timarit.is - Togari, sem sýnist af gerðinni 1907-10 og vélbátur af fyrstu gerð
Mynd frá www.timarit.is - Togari, sem sýnist af gerðinni 1907-10 og vélbátur af fyrstu gerð

Rétt að slá af?


Fram á miðja tuttugustu öldina ferðuðust Dýrfirðingar jafn mikið á sjó og landi og varla var til sá sveitabær við fjörðinn þar sem ekki var til skekta eða mótorbátur. Flutningur hvers konar kaupstaðarvöru fór að mestu leyti fram á sjó. Allir kunnu að róa og meðferð véla í bátum varð flestum auðveld eftir því sem vélbátar urðu algengari.

Við Bakkasjóinn voru að jafnaði þrír bátar, stundum fjórir. Fyrstur með vél í bát þar var Kristján Jón Benónýsson í Hjarðardal. Hann flutti til Reykjavíkur 1942 og hvarf hans bátur þá úr lendingunni. Nokkrum árum síðar keypti Guðmundur Hermannsson í Hjarðardal lítinn bát af Gísla Gilssyni á Arnarnesi, þegar Gísli hætti búskap og flutti suður. Í þessum bát var lítil Gautavél, líklega eitt og hálft hestafl, og gekk hann dável fyrir þessu vélarafli. Ekki hafði Guðmundur átt við vélar í bátum fyrr, og hafði eflaust fengið snöggsoðna leiðbeiningu frá fyrri eiganda um meðferð vélarinnar.

Nú ræðst Guðmundur til kaupstaðarferðar á bátnum og með honum í för Oddur Jónsson, þá ungur maður í foreldrahúsum á Gili. Þegar bátnum hafði verið ýtt úr vör bað Guðmundur Odd að setja stýrið fyrir, en sjálfur bograði hann yfir vélina og gerði hana klára til gangsetningar. Vélin rauk strax í gang, en Oddur settist við stýrið og tók stefnuna á bryggjuna á Þingeyri.

Ferðin yfir fjörðinn gekk eins og í sögu og ræddu þeir Guðmundur og Oddur um muninn á því hve miklu léttara væri nú að sitja og hlusta á mótorskellina heldur en að sveitast við árarnar til þess að komast yfir fjörðinn.

Þegar að bryggjunni kom tók Oddur sveig inn fyrir bryggju-hausinn og stefndi á stigann sem var í innri króknum, en Guðmundur beygði sig yfir vélina til þess að minnka ferðina og bakka áður en árekstur yrði. Eitthvað fataðist honum vélgæslan og báturinn hélt ferðinni þar til hann rakst á stigann og rann stefnið upp stigann þar til sjór féll inn um skutinn.

Ekki haggaðist Oddur mikið, en mælti af rósemi þegar báturinn stóð næstum því upp á endann í stiganum:

Væri nú ekki rétt að fara að slá af, Mundi?

Sögn Davíðs H. Kristjánssonar

 
« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31