A A A
  • 1935 - Soffía Einarsdóttir
20.10.2017 - 06:38 | Hallgrímur Sveinsson,Guðmundur Ingvarsson,Bjarni Georg Einarsson

Læknirinn vill ekki veg um Teigsskóg né nágrenni

Á vestfirska hringveginum í Dýrafirði. Þennan veg munu Dýrafjarðargöng leysa af hólmi. Svona skemmtilegar holur eru menn að reyna að losna við í Gufudalssveit. Ljósm. H. S.
Á vestfirska hringveginum í Dýrafirði. Þennan veg munu Dýrafjarðargöng leysa af hólmi. Svona skemmtilegar holur eru menn að reyna að losna við í Gufudalssveit. Ljósm. H. S.
« 1 af 4 »

Það var okkur félögum mikill vegsauki að vera ávarpaðir um daginn í hinu rómaða Bændablaði. Reynir Tómas Geirsson, læknir, svarar þar málflutningi okkar um vestfirska vegagerð og margumtalaða vegarlagningu um Teigsskóg í Gufudalshreppi. Það sést á skrifum læknisins að hann er prúðmenni. Þar er ekki um svigurmæli eða ofstopa að ræða. Við slíka menn er gott að skiptast á skoðunum um málefni dagsins. Við höfum kannski ekki mikið vit á vestfirskri vegagerð. Og þó. Einn okkar var í liðinu sem fyrst lagði akfæra vegi á Vestfjörðum. Hann var í hópi brautryðjendanna undir stjórn Lýðs Jónssonar fyrirliða.  Auk þess höfum við hátt í 200 ára reynslu samanlagt af akstri um vestfirska vegi. Geri aðrir menntaskólar betur!

Eyðilögðu brautryðjendurnir landið?

Við kumpánarnir höfum leyft okkur að rifja það upp, að  á ótrúlega skömmum tíma lögðu vestfirskir vegagerðamenn vegi svo til að hverjum einasta bæ á Vestfjörðum. Það var torsótt vegagerð, mold, grjót og sandur í bland. Þeir fóru yfir mela og móa, ár og læki, fjallahlíðar og grundir, eftir fjörum og yfir firði, yfir fjöll, yfir skriður og fyrir nes. Og jafnvel í gegnum vestfirska skóga og kjörr. Þetta voru snillingar sem lögðu hönd á þennan plóg. En eyðilögðu þessir brautryðjendur landið? Hefur einhver heyrt að þessir lífsnauðsynlegu vegir hafi eyðilagt vistkerfi Vestfjarða? Hafa þeir eyðilagt einhverja skóga? Og fjöll eða dali?

   Auðvitað hafa verið lagðir hér vegir sem menn hafa ekki verið ánægðir með staðsetningu þeirra. Og komið hefur fyrir að gróið land hefur goldið þess. Þá hafa menn bara bölvað Vegagerðinni og lífið haldið áfram. En þetta eru undantekningarnar sem sanna regluna: Vestfirskir vegir voru almennt snilldarlega lagðir og bera höfundum sínum fagurt vitni. Og hafa komið Vestfirðingum að ótrúlega góðum notum. Hvernig hefðu Vestfirðir verið án vega? Óbyggilegir.

  

Læknirinn vill ekki veg um Teigsskóg né nágrenni

   Við segjum: Búið er að leggja vegi vítt og breytt um alla Vestfirði á að minnsta kosti 100 mjög svo sambærilegum stöðum við Teigsskóg. Jafnvel malbikaða tvíbreiða vegi, sem víða eru svo til á sama stað og gömlu akvegirnir.  Engir meinbugir þar á. Náttúran alveg söm við sig eftir því sem séð verður. Hvers vegna má þá ekki leggja bráðnauðsynlegan veg um Teigsskóg? Við stöndum í þeirri meiningu að Vestfirðingar almennt séu þeirrar skoðunar að það sé óhjákvæmilegt flestra hluta vegna. En læknirinn vill ekki að lagður verði vegur um Teigsskóg, Hallsteinsnes eða nágrenni. Gott og vel. Það er hans mat og berum við fulla virðingu fyrir því svo langt sem það nær.

 

Kröftug mótmæli gegn nauðsynlegum vegabótum

   Það er ekki ný saga þegar nauðsynlegar samgöngubætur ber á góma, að þá rísa menn upp með kröftug mótmæli gegn þeim. Oftast í nafni náttúruverndar. Nefna má Borgarfjarðarbrú, Dýrafjarðarbrú, Vatnaleið til Stykkishólms og Gilsfjarðarbrú. Brúin yfir Gilsfjörð átti að eyðileggja lífríkið óbætanlega á þeim slóðum. Kunnugir menn segja okkur að aldrei hafi verið meira æðarvarp fyrir innan þá brú en þessi árin. Og konungur fuglanna leikur þar við hvurn sinn fingur að sögn þeirra.

   Hver mælir gegn þessum nauðsynlegu framkvæmdum í dag og hverju hefur verið spillt? Vegur yfir Þorskafjörð og Teigsskóg á að þýða óafturkallanlegt náttúrutjón. Bent hefur verið á jarðgöng í stað þeirrar leiðar í vegagerð. Þrjátíu og sex ár eru liðin frá því að fyrst var gerð athugun á gerð Dýrafjarðarganga. Svo segir í Bændablaðinu. Nú er það verk loks hafið og mun taka þrjú ár. Vestfirðingum er kannske ekki ofgott að bíða einhverja áratugi eftir jarðgöngum gegnum Ódrjúgsháls og Hjallaháls. Sem eru á köflum háskaleiðir á vetrum. Það vita þeir best sem nauðugir viljugir verða að aka þá leið í fljúgandi hálku og illviðrum. Eða þegar allt er á floti á vorin.

 

Skemmtiferðavegir á Vestfjörðum?

Læknirinn okkar segir þegar hann ræðir um eldri vegagerð á Vestfjörðum og tvíbreiðan, upphækkaðan veg um Teigsskóg:

   „Þá var um að ræða nauðsynlegar samgöngubætur sem nú á tímum nýtast helst til skemmtiferða á sumrin.“

   Eigum við að trúa því að hann viti ekki betur? Veit Reynir Tómas ekki að stór hluti vestfirska vegakerfisins byggir enn á þeim grunni sem brautryðjendurnir lögðu fyrir 60-70 árum? Það má vera að kalla megi veginn hans Ella okkar skemmtiferðaveg. En hvað með Arnarfjörð svo til allan, Dýrafjörð að hluta, Árneshrepp og nefndu það bara. Við vitum ekki betur en vegurinn hans Ella hafi opnað augu margra fyrir stórkostlegri náttúrufegurð og sögu svæðisins. Verður það ekki eins með Teigsskóg?

Niðurlag

Reynir Tómas nefnir að við séum að minnast á stráka sem „aldrei hafa komið austur fyrir Elliðaár“. Að við séum með því orðalagi að kasta rýrð á aðra með skoðun á málefninu. Auðvitað erum við ekki að því. Þetta er einungis leikur með texta eða textabrigði. Við berum fulla virðingu fyrir þeim sem hafa aðrar skoðanir en við á mönnum og málefnum. Eftir stendur að menn þurfa að ná niðurstöðu í þessu máli: Annaðhvort jarðgöng strax undir hálsana í Gufudalssveit eða laglegan veg um Teigsskóg öllum til hagsbóta sem um Vestfirði leggja leið sína. Hvort er nú líklegra að verði?

Hallgrímur Sveinsson
Bjarni G. Einarsson
Guðmundur Ingvarsson




« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31