A A A
  • 1950 - Margrét Guðjónsdóttir
  • 1955 - Angantýr Valur Jónasson
04.03.2014 - 06:30 | Hallgrímur Sveinsson

Í spegli tímans úr Dýrafirði

 
Árið 2010 gaf Vestfirska forlagið út bókina Undir miðnætursól eftir Jóhann Diego. Það er saga bandarísku lúðuveiðaranna hér við land frá 1884-1897.  Hér á eftir fer formáli bókarinnar eftir Valdimar H. Gíslason á Mýrum.
 
Undir miðnætursól
 
Formáli
 
Bók þessi er hér kemur fyrir sjónir almennings fjallar um lúðuveiðar Gloucestermanna hér við land á árabilinu 1884-1897. Veiðiskipin voru skonnortur með mikinn seglabúnað, 62 til 162 tonn að stærð. Lúðan var veidd á línu sem lögð var út með smábátum, svokölluðum doríum, 7 til 9 á hverri skonnortu og voru 2 menn á hverri. Veiðisvæðið var einkum út af Vestfjörðum og veiðitímabilið apríl-ágúst og stundum fram í september. Skipshafnir komu með skonnortunum frá Gloucester en þegar skipstjórar höfðu kynnst aðstæðum á Vestfjörðum fóru þeir að ráða Íslendinga í skiprúm hjá sér. Dæmi voru um að helmingur áhafnar væru Íslendingar. Skiprúm hjá Könum voru mjög eftirsótt enda launakjör og allur viðurgjörningur hjá þeim miklu betri en tíðkaðist á íslenskum skútum. En vinnuharka var talsverð og doríuveiðin hættuleg. Nokkuð var um mannskaða en þó varla meira en á íslenskum skipum.
Frá árinu 1886 höfðu lúðuveiðiskipin bækistöð á Þingeyri við Dýrafjörð. Fyrirgreiðsluna annaðist  Niels Christian Gram, danskur kaupmaður, Hann var útnefndur amerískur konsúll á Íslandi. Auk þess að sækja þjónustu til Gramsverslunar leituðu hinir erlendu gestir eftir þjónustu hótels á Þingeyri sem í byrjun var rekið af Birni Magnússyni vert og konu hans Guðrúnu vert, en síðar af Jóhannesi Ólafssyni, hreppstjóra. Hótelið var nefnt Hótel Niagara á Kanatímabilinu. Á hótelinu voru haldnir dansleikir og þar tókust kynni með stúlkum á Þingeyri og hinum erlendu sjómönnum. Afraksturinn af þeim kynnum voru 8 börn, samkvæmt kirkjubók Sandaprestakalls. Þetta hefur reynst happadrjúg blóðblöndun og er fjöldi fjölhæfra Íslendinga kominn út af þeim börnum er náðu að geta af sér afkomendum.
Það var oft líflegt á þessum árum á Þingeyri þegar allt að þrettán skipshafnir amerískra skonnorta gengu þar um stíga, gætu hafa verið um 230 manns.
Einn af afkomendum lúðuveiðimannanna er höfundur þessarar bókar, Jóhann Diego Arnórsson. Hann leitar heimilda víða, en drýgstar reynast honum loggbækur skonnortanna. Í þeim má finna lýsingar á flestu sem viðkemur veiðum á hinum fjarlægu Íslandsmiðum. Þar er lýst búnaði veiðiskips, aflabrögðum, veðurfari, straumum, veiðislóðum, samskiptum við Íslendinga og þá einkum Dýrfirðinga. Meginkafli bókarinnar er Loggbók eða dagbók sem rituð var í Íslandsferð skonnortunnar Concort 1890.
Höfundur dagbókarinnar er stýrimaðurinn Alex D. Bushie. Jóhann þýðir dagbók þessa yfir á Íslensku og birtir í heilu lagi. Óhætt er að segja að hér sé um ómetanlega heimild að ræða eins og glöggir lesendur munu sjá. Skipstjóri á Concord var John Diego og hann átti líka hlut í skipinu. Þá er hann langafi Jóhanns Diego, höfundar þessarar bókar. Jóhann er stoltur af þessum forföður sínum, fjallar ítarlega um hann og nær að rekja ættir hans allt aftur á 16. öld og er þá kominn til Frakklands. John Diego var framúrskarandi farsæll skipstjóri, stjórnsamur, úrræðagóður og vinsæll af undirmönnum sínum. Enginn furða þó Ingibjörg í Nýjabæ félli fyrir honum. Sonur þeirra var Hjálmar afi Jóhanns Diego. Já, Jóhann má vera stoltur af hinum frækna langafa sínum, en hann má líka vera stoltur af þessari bók. Hún er eljuverk, vel skrifuð og fróðleg. Myndir og afburða góðar teikningar kóróna svo vel unnið verk.
Nokkrir afkomendur Gloucestermanna hafa haft samband við undirritaðan og viðrað hugmyndir um að minnast Kanatímabilsins á Þingeyri með einhverjum hætti. Margt hefur verið nefnt svo sem ættarmót afkomenda lúðuveiðimanna, sýningu á Þingeyri í minningu tímabilsins, siglingu skonnortu frá Gloucester til Þingeyrar með öllum búnaði sem fengi að leggja eina lögn, kvikmyndun slíkrar ferðar og frekari kvikmyndun byggð á heimildum um tímabilið og að Þingeyri taki upp vinabæjarsamband við Gloucester. Vonandi kemst eitthvað í framkvæmd af þessu.
 
                              Valdimar H. Gíslason
« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30