A A A
  • 1950 - Margrét Guðjónsdóttir
  • 1955 - Angantýr Valur Jónasson
25.05.2018 - 11:39 | Hallgrímur Sveinsson

Húmorslítil kosningabarátta

Guðmundur G. Hagalín: Teikning Ómar Smári Kristinsson
Guðmundur G. Hagalín: Teikning Ómar Smári Kristinsson
« 1 af 2 »

Mörgum finnst kosningabarátta seinni ára, bæði til Alþingis og sveitarstjórna svo til húmorslaus. Þrautleiðinleg. Það eru peningar, peningar og aftur peningar. Hvað sagði ekki Björn á Löngumýri: „Það gildir á kosningafundum að koma mönnum í gott skap. Sá, sem veldur leiðindum, hlýtur að tapa, þurrspeki gengur ekki, og rætni og rótarskapur getur verið neikvæður, gamansemin er beittasta vopnið.“ Þeir gömlu vissu hvað þeir sungu. Tökum dæmi héðan að vestan til upplyftingar.


Þegar Guðmundur Hagalín var upp á sitt besta á Ísafirði sagði Haukur Helgason frambjóðandi kommanna á kosningafundi 1942 að jafnaðarmenn ættu að skammast sín fyrir að sumt húsnæði í eigu bæjarins væri ekki sæmandi mannabústaðir. Kvaðst hann vita um gamla konu sem væri í einu herbergi í kjallaraholu í bænum. Umrædd kona sat á fremsta bekk. Næstur kom Hagalín í ræðustól. Hann sagði að Haukur Helgason væri að tala um að jafnaðarmenn byðu upp á slæmt húsnæði. Hann kannaðist við húsnæðið en konan, sem um væri að ræða, væri alls ekki gömul. Þetta er ung kona á besta aldri, sagði Hagalín. Sú gamla á fremsta bekk dillaði öll af ánægju og atkvæði hennar var tryggt.

Nokkru fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 1966, gekk maður nokkur á fund Bjarna Guðbjörnssonar útibússtjóra Útvegsbankans á Ísafirði og bað um víxillán til heimilisþarfa, en Bjarni neitaði. Litlu síðar hittir maðurinn Matthías Bjarnason, sem var efstur á lista sjálfstæðismanna, og segir honum frá erindislokum sínum hjá Bjarna, sem var framsóknarmaður. Matthías segir honum að láta sig fá víxileyðublaðið. Daginn eftir afhendir Matthías manninum víxilinn á ný og segir honum að fara aftur til Bjarna og sjá hvort hann neiti aftur. Þá voru komnir átján ábekingar á víxilinn eða allur framboðslisti sjálfstæðismanna í réttri röð frá Matthíasi sjálfum og niður í heiðurssætið. Bjarni keypti víxilinn og ekki er annað vitað en Útvegsbankinn hafi í fyllingu tímans fengið peningana sína til baka með skilum.

Þetta voru karlar sem kunnu sitt fag!

                                                                     Hallgrímur Sveinsson

                        



« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30