A A A
  • 1949 - Guðberg Kristján Gunnarsson
  • 1962 - Unnur Cornette Bjarnadóttir
11.04.2015 - 07:56 | Afmælisrit Dýrfirðingafélagsins 2011 - Þórir Örn Guðmundsson

Gísla saga Súrssonar - Haukadalur í Dýrafirði

Þórir Örn Guðmundsson.
Þórir Örn Guðmundsson.
« 1 af 2 »

Þórir Örn Guðmundsson frá Innri-Lambadal, Dýrafirði

„En nú falla vötn öll til Dýrafjarðar, og mun ég þangað ríða, enda er ég þess fús.“


Haukadalur í Dýrafirði er meginsögusvið Gísla sögu Súrssonar og hvergi er hægt að komast í jafn mikla snertingu við söguna og þar nema ef vera skyldi í Geirþjófsfirði. Sögusvið Gísla sögu er mjög afmarkað og lýsingar höfundar á staðháttum svo nákvæmar að einstakt þykir. Þar að auki eru flest þau örnefni sem koma fyrir í sögunni kunn og mörg þeirra notuð enn í dag, rúmum þúsund árum eftir að atburðir sögunnar áttu sér stað. Það er hald sumra fræðimanna að engin önnur af Íslendingasögunum falli jafn vel að staðháttum er sögurnar greina frá sem Gísla saga.

Hvað það er sem fær ferðamenn til að gleyma stund og stað og fara að hugsa um sögu; sögu sem skráð var fyrir mörg hundruð árum og lýsir atburðum sem gerðust í það minnsta þremur öldum þar á undan? Ég get bara svarað þessari spurningu frá eigin brjósti; mína upplifun og hughrif sem ég verð fyrir á göngu minni um sögusviðið í Haukadal get ég helst orðað á þessa leið: það er sem moldin tali til manns og segi söguna og endurgeri í huga mínum löngu orðna atburði.

Með öðrum orðum, orkan í svæðinu og sögunni er einstök.

Það er í senn bæði einfalt og flókið bókmenntalega séð hvernig höfundur Gísla sögu bindur orku í sögunni. Á einfaldan hátt setur hann stöðugt fram andstæður og tvíræð svör. Með stuttum setningum, málsgreinum um atburði, lætur hann tvíræða meiningu svífa svo svörin liggja í lausu lofti og mynda þannig spennu innra með lesanda. „Heyr mál mikið, heyri manns bana, eins eða fleiri,“ er Þorkell hleraði kvennahjal. Eða „Frá því er sagt, að Önundur úr Meðaldal kom til boðs að Gísla og bregður honum á einmæli og sagði, að Vésteinn væri út kominn, - og er hans hingað von.“


Ennfremur „og eru oft köld kvenna ráð“, setningin sem Börkur digri svarar Þórdísi Súrsdóttur með er hún kom upp um bróður sinn eftir að Gísli drap Þorgrím goða, mann hennar. Stöðuorkan sem býr í þessum setningum sögunnar er mögnuð og orð og orðatiltæki hennar koma aftur og aftur upp í huga lesanda.

Það eru líka margar aðrar tvíræðar setningar sem Gísla saga býr yfir. Höfundur lætur lesendum eftir að útskýra það ósagða. Þá skýtur höfundur inn setningum til að auka á tvíræðnina t.d. er hann segir:

„Aldrei varð síðan jafnblítt með þeim bræðrum“ eftir að Gísli drap Bárð vin Þorkels bróður síns á Grannaskeiði í Noregshluta sögunnar. Trúlega er það hin mikla dulúð sem umlykur söguna og sú staðreynd að sögustaðirnir eru aðgengilegir sem valda mestu um vinsældir Gísla sögu. Sögusviðið er sem fyrr segir afmarkað og margir hafa orð á að allar fjarlægðir milli helstu sögustaða séu styttri en þeir höfðu gert sér í hugarlund. Þegar farið er um söguslóðir í Haukadal er gott ráð að hafa Gísla sögu við höndina og fletta upp í henni eftir því sem við á. Það er nánast hægt að lesa setningar og líta síðan staðinn þar sem viðkomandi atburður sögunnar átti sér stað og sjá hann ljóslifandi fyrir sér.

Þegar gengið er um Haukadal er rétt að hafa í huga að ávallt skal ganga vel um allt land og gæta þess að fara ekki um fuglavarpið norðan Seftjarnarinnar. Þá er það sjálfsögð tillitssemi og kurteisi að fara ekki yfir óslegin tún eða valda íbúum eða öðrum, er í dalnum dvelja, óþarfa átroðningi.

 

Þórir Örn Guðmundsson

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31