A A A
  • 1949 - Guðberg Kristján Gunnarsson
  • 1962 - Unnur Cornette Bjarnadóttir
28.09.2017 - 06:50 | Vestfirska forlagið,Hallgrímur Sveinsson,Elfar Logi Hannesson,Blaðið - Vestfirðir,Björn Ingi Bjarnason

Vestfirskir listamenn - Samúel Jónsson

Samúel Jónsson. F. 15. september 1884 Mosdal Arnarfirði. D. 5. janúar 1969 á Patreksfirði. Öndvegisverk: Ljónagosbrunnurinn, Leifur heppni, Hugljómun altaristafla.
Samúel Jónsson. F. 15. september 1884 Mosdal Arnarfirði. D. 5. janúar 1969 á Patreksfirði. Öndvegisverk: Ljónagosbrunnurinn, Leifur heppni, Hugljómun altaristafla.
« 1 af 2 »
Hver dalur á sína sögu og sínar söguhetjur. Selárdalur í Arnarfirði er sannarlega þar á meðal ef ekki bara á topp tíu listanum yfir mestu sögudali landsins. Enda hafa þar gist margir höfðingjarnir og listamennirnir. Nægir að nefna klerkana Pál Björnsson einhvern lærðasta mann 17. aldar, Jón Þorláksson er einnig var skáld gott og kenndi sig við Bægisá og síðast en ekki síst galdraklerkinn Árum-Kára er sagt er frá í þjóðsögunum.

Nútímamaðurinn tengir þó hinn merka sögudal við hinn einstaka einbúa Gísla á Uppsölum. Einn Seldæling til skal telja en það er alþýðulistamaðurinn Samúel Jónsson. Betur þekktur sem Listamaðurinn með barnshjartað. Með sínum litla ellistyrk reisti hann sannkallaða ævintýraveröld sem skákar öllum Disney löndum slíkir eru töfrarnir. Samúel var sannkallaður alþýðulistamaður, hann málaði, gerði styttur, gosbrunn já og svo byggði hann eitt stykki kirkju.
 
Kvaldist upp
 
Fæddur 15. september 1844 í Arnarfirði. Missti föður sinn í bernsku og eftir það gjörðist móðir hans vinnukona hjá síra Lárusi í Selárdal. Þar ólst Samúel upp við síður en svo gott atlæti eða einsog hann segir frá löngu seinna að hann „hafi ekki alist þarna upp, heldur kvalist.“ Engin var kátari en Samúel þegar klerkur flutti úr dalnum og eftir það bjó hann með móður sinni víða í Selárdal og reisti meira að segja dálítið býli undir þau. Er móðir hans andaðist gekk Samúel að eiga Salóme Samúelsdóttur. Eignuðust þau þrjú börn er öll áttu skamma lífdaga, dóu öll í bernsku. Eftir dulítið flakk m.a. yfir í næsta fjörð setjast þau loks að í Selárdal að Brautarholti hvar Samúel byggði sína ævintýraveröld.
 
Þegar Samúel komst á eftirlaunaaldurinn má segja að listamannsferill hans hafi byrjað fyrir alvöru. Hann hafði reyndar málað frá unga aldri og var nokkuð afkastamikill í listinni. Hélt m.a. myndlistarsýningu á Bíldudal sumarið 1957 og þrívegis í sjálfri höfuðborginni. En hæfileikarnir lágu víða. Hann skar út fjölbreytta muni m.a. níu arma kertastjaka er hann gaf Selárdalskirkju, smíðaði kistla og skápa sem hann skreytti með kuðungum og skeljum. Líkön gerði hann af erlendum byggingum, sal sendiherranna í Sevilla, Gullna hofið í Delhí, Péturskirkjuna og torgið í Róm að ógleymdri brúnni yfir Signu er gerð var úr eldspýtustokkum.
 
Árið 1952 er örlagaríkt ár í listamannaferli Samúels en það ár var aldarafmæli Selárdalskirkju. Vildi listamaður dalsins færa sínu guðshúsi eitthvað af því tilefni og hefst handa við gerð altaristöflu. Skyldi hún vera gerð við söguna af upprisunni en verkið nefndi hann Hugljómun. Einn hængur var þó á því kirkjan átti fyrir altaristöflu ævaforna alveg frá 1772. Sóknarnefndin hafnaði gjöfinni en þáði þó hina níu arma kertastjaka sem Samúel vildi einnig færi kirkju sinni. Hvað gera listamenn þá? Nú fátt var annað í stöðunni en að smíða bara nýja kirkju undir altaristöfluna og það gerði Samúel. Víst var listamaðurinn undir miklum áhrifum af erlendri list og um það vitnar hans eigin kirkja með sínum einstaka næputurni.  Hugurinn er svo magnaður og getur tekið mann hvert sem er um það vitna verk Samúels. Aldrei fór hann lengra en til Reykjavíkur en gerði samt öll þessu einstöku verk. Í bókverkinu og á póstkortum sá hann myndir af listaverkum heimsins og fór á flug í eigin listaheimi.
 
Veröld listamannsins með barnshjartað
 
Samúel vildi gera meira og byggði við íbúðarhúsið hvar hann setti upp gallerí. Gólfið í sýningarsalnum reyndist hinsvegar ekki nógu traust þegar fyrsta og eina sýningin fór þar fram. Hann ákvað því að byggja nýtt hús fyrir gallerí en entist ekki aldur til að ljúka því verki. Enn eru ótalin öll útilistaverkin er standa allt um kring í ríki Samúels. Fyrst ber að telja gosbrunn sem er endurgerð á Ljónagarðinum í Alhambra á Spáni. Ljónin sex standa tignarleg í hring en fyrir miðju er súla og ef vatni er hellt þar ofaní gusast vatn útúr kjöftum ljónanna. Þarna má líka sjá styttu af Leifi heppna, sækýr og við hlið hennar stendur piltur sem gefur henni gott í munn. Einnig gefur að líta álft með unga á bakinu og svo er þarna tingarlegur rostungur. Það ótrúlega við alla þessa ævintýraveröld er að hún var reist af aðeins einum manni sem hafði aðeins úr ellistyrknum að spila. Allt steypuefni sótti hann í fjöruna og bar á bakinu allaleið í sitt ríki.
 
Samúel var lengst af heilsuhrautur en um áttrætt fór sjónin að beila og vart má verra gjöra jafn skapandi listamanni. Dvaldi hann um tíma á Bíldudal en dalurinn kallaði strax að vori og þá var hann þangað kominn. Tók á móti gestum hellti vatni í gosbrunninn og fékk gjarnan krónu að launum. Loks fór sjónin alveg og síðustu tvö árin dvaldi hann á sjúkrahúsinu á Patreksfirði hvar hann andaðist árið 5. janúar 1969.

Samúel Jónsson. F. 15. september 1884 Mosdal Arnarfirði. D. 5. janúar 1969 á Patreksfirði.
Öndvegisverk: Ljónagosbrunnurinn, Leifur heppni, Hugljómun altaristafla.
 
Elfar Logi Hannesson

Blaðið Vestfirðir.


« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31