Þröstur Sigtryggsson - Fæddur 7. júlí 1929 - Dáinn 9. des. 2017 - Minning
Foreldrar hans voru hjónin Hjaltlína Margrét Guðjónsdóttir, kennari og húsfreyja, frá Brekku á Ingjaldssandi, f. 4.7. 1890, d. 30.1. 1981, og séra Sigtryggur Guðlaugsson, prestur og skólastjóri á Núpi, frá Þröm í Garðsárdal, f. 27.9. 1862, d. 3.8. 1959. Bróðir Þrastar var Hlynur veðurstofustjóri, f. 5.11. 1921, d. 14.7. 2005.
Hinn 22.5. 1954 kvæntist Þröstur Guðrúnu Pálsdóttur sjúkraliða, f. 23.9. 1933, d. 25.8. 2013. Foreldrar hennar voru Bjarnheiður Jóna Guðmundsdóttir húsmóðir, f. 7.9. 1910, d. 10.8. 1976, og Páll Þorbjarnarson, skipstjóri og alþingismaður, f. 7.10. 1906, d. 20.2. 1975.
Börn Þrastar og Guðrúnar eru:
1) Margrét Hrönn, maki Sigurður Hauksson. Sonur Margrétar er Þröstur Rúnar Jóhannsson.
2) Bjarnheiður Dröfn, maki Sigurjón Þór Árnason. Börn þeirra eru Sigtryggur Örn Sigurðsson, Rúna Björg, Ellen Dögg og Árni.
3) Sigtryggur Hjalti, maki Guðríður Hallbjörg Guðjónsdóttir, hún lést 1995. Synir Sigtryggs eru Þröstur, Guðjón Örn og Hlynur.
Fyrir átti Þröstur Kolbrúnu Sigríði, maki Magnús Pétursson. Þeirra synir eru Sigurður Hannes, Pétur Örn, Davíð Þór og Friðjón. Langafabörn Þrastar eru 24.
Eftir lát eiginkonu sinnar eignaðist Þröstur góðan félaga og vin, Hallfríði Skúladóttur.
Þröstur ákvað nokkuð snemma að hans ævistarf yrði á sjó. Hann tók inntökupróf upp í annan bekk farmanna í Stýrimannaskólanum haustið 1952 og útskrifaðist frá Stýrimannaskólanum 1954 og lauk prófi í varðskipadeild í sama skóla 1954. Hann réðst þá sem stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni og varð fastráðinn skipherra 1960 og starfaði þar til hann lét af störfum árið 1990.
Þröstur kenndi tvo vetur við grunnskólann á Þingeyri. Reri einnig frá Þingeyri á eigin trillu, Palla krata, sumrin 1993 og 1994.
Hann var skólastjóri barnaskólans á Núpi 1981 til 1983 og kenndi einnig við Héraðsskólann á Núpi.
Þröstur var mikill áhugamaður um golf á þessum árum og stofnaði golffélagið Glámu á Þingeyri, ásamt því að teikna merki félagsins. Hann falaðist eftir jörð og fékk þar sem hann hannaði og gerði níu holu golfvöll. Æskuslóðir voru honum hugleiknar og gerði hann æskuheimili sitt, Hlíð í Dýrafirði, að menningarminjasafni. Átti hann hugmynd að ritun sögu Núpsskóla. Sú hugmynd varð að veruleika og kom bókin, sem Aðalsteinn Eiríksson ritaði, út í sumar, á 110 ára afmæli stofnunar skólans.
Minningabrot Þrastar, bókin „Spaugsami spörfuglinn“, komu út 1987. Í tilefni gullbrúðkaups og 75 ára afmælis Þrastar gaf hann út diskinn „Hafblik“ með eigin lögum.
Þröstur var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 17. júní 1976. Hin síðari ár var hann virkur í starfi eldri borgara í Grafarvogi og var í stjórn menningardeildar í Borgum þegar hann lést.
Útför Þrastar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 19. desember 2017, klukkan 15.
____________________________________________________
Minningarorð Georgs Kr. Lárussonar
Baráttan um yfirráðin yfir auðlindum hafsins er tvímælalaust einn þýðingarmesti kaflinn í sögu sjálfstæðisbaráttu okkar því án efnahagslegs sjálfstæðis er hið pólitíska sjálfstæði lítils virði. Leiðtogar þjóðarinnar höfðu kjark til þess á sínum tíma að berjast fyrir útfærslu landhelginnar og síðan fiskveiðilögsögunnar og Landhelgisgæslan hafði það ábyrgðarmikla hlutverk að framfylgja þeirri stefnu. Þar stóðu skipherrar Landhelgisgæslunnar í broddi fylkingar við aðstæður sem voru í senn viðkvæmar og hættulegar. Einn þessara manna sem við eigum svo mikið að þakka var Þröstur Sigtryggsson.
Þröstur var fæddur að Núpi í Dýrafirði árið 1929. Hann hóf sjómennsku 1947 og fljótlega upp úr því hóf hann störf um borð í varðskipunum. Að afloknu námi í Stýrimannaskólanum, sem Þröstur lauk með hæstu einkunn, varð hann stýrimaður á varðskipunum 1953. Sjö árum síðar var Þröstur orðinn skipherra og starfaði sem slíkur nánast óslitið til ársins 1990, þegar hann settist í helgan stein.
Þröstur fékkst við ýmislegt á ferli sínum hjá Landhelgisgæslunni. Hann var á ýmsum varðskipum, í stjórnstöð og flugdeild. Á ofanverðum sjötta áratugnum var hann einn af fyrstu stýrimönnum Gæslunnar sem sinntu eftirliti með landhelginni úr Catalina-flugbátum við mjög frumstæðar aðstæður. Þegar Vestmannaeyjagosið stóð yfir annaðist Þröstur stjórn og skipulag búslóðaflutninga úr Heimaey fyrir hönd Landhelgisgæslunnar.
Fyrst og fremst verður Þrastar þó minnst fyrir frammistöðu sína í þorskastríðum áttunda áratugarins. Þar þótti hann ganga fram af mikilli hugdirfsku en um leið fádæma yfirvegun og gætni. Það voru eiginleikar sem skiptu sköpum á þessum viðsjárverðu tímum þegar erlend herskip sigldu um Íslandsmið með gínandi fallbyssukjafta og samskipti þjóðarinnar við önnur og stærri ríki voru á suðupunkti.
Þrátt fyrir að tímarnir væru alvarlegir var Þröstur sjálfur jafnan léttur í lund. Sjálfsævisaga hans geymir margar skemmtilegar sögur enda var Þröstur frábær sagnamaður með kímnigáfu í ríkari mæli en flestum okkar er gefin. Á efri árunum hélt Þröstur ágætu sambandi við sinn gamla vinnustað, nú síðast í febrúar síðastliðnum þegar hann kom í mjög ánægjulega heimsókn í Skógarhlíðina með öldungaráði Landhelgisgæslunnar.
Um leið og við hjá Landhelgisgæslunni vottum börnum Þrastar og öðrum ástvinum innilega samúð minnumst við sannkallaðs heiðursmanns. Hafi orðið „Landhelgisgæslumaður“ átt vel við einhvern þá er það Þröstur Sigtryggsson.
forstjóri Landhelgisgæslu Íslands.
Morgunblaðið þriðjudagurinn 19. desember 2017.