A A A
  • 1950 - Margrét Guðjónsdóttir
  • 1955 - Angantýr Valur Jónasson
20.05.2017 - 14:06 | Vestfirska forlagið,ruv.is,Björn Ingi Bjarnason

Stofna lýðháskóla þótt lögin vanti

Runólfur Ágústsson talar hér á stofnfundi í vetur um Lýðháskóla á Flateyri.
Runólfur Ágústsson talar hér á stofnfundi í vetur um Lýðháskóla á Flateyri.

Stefnt er að því að lýðháskóli hefji starfsemi sína á Flateyri haustið 2018 þrátt fyrir að frumvarp um stofnun lýðháskóla hafi ekki farið á þingmálaskrá vorþings 2017. Engin lög eru til um lýðháskóla á Íslandi. Unnið verður að verkefninu innan laga um framhaldsfræðslu.

Frumvarp ekki lagt fram

Í þingsályktun Bjartrar framtíðar frá því á síðasta ári var samþykkt að fela mennta- og menningarmálaráðherra að hefja vinnu að gerð frumvarps til almennrar löggjafar um lýðháskóla á Íslandi til að gera þá að viðurkenndum valkosti. Í ályktuninni segir að ráðherra skuli leggja fram frumvarp eigi síðar en á vorþingi 2017. Frumvarpið rataði ekki á þingmálaskrá en Runólfur Ágústsson, formaður stjórnar félags um stofnun lýðháskóla á Flateyri, segir það ekki koma að sök. Unnið sé að verkefninu innan laga um framhaldsfræðslu og því sé ekki þörf á sérstakri löggjöf um lýðháskóla á meðan skólinn er þróaður.

 

Vinna í ráðuneytinu

Runólfur segir að nú sé unnið að fjármögnun skólans en til stendur að ráða manneskju til að vinna með stjórninni að stofnun hans frá og með haustinu 2017. Þá verði jafnvel boðið upp á tilfallandi námskeið. Nú sé beðið eftir fundi með menntamálaráðherra til að kynna honum fyrirætlanirnar. Samkvæmt upplýsingum frá menntamálaráðuneytinu er enn unnið að verkefninu innan ráðuneytisins þótt það hafi ekki farið á þingmálaskrá. Runólfur segist horfa til þess að lýðháskólar geti í framtíðinni orðið hluti að menntakerfinu og notið sama fjárstuðnings og aðrar menntastofnanir. Á annað hundrað manns er nú í félagi um stofnun lýðháskólans en markmið hans er að nýta umhverfi og þekkingu sem er til staðar á Flateyri.  Þá stefnir UMFÍ einnig á stofna lýðháskóla á Laugarvatni.

 

Af www.ruv.is - Halla Ólafsdóttir á Ísafirði.


« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30