A A A
  • 1935 - Soffía Einarsdóttir
Þingeyri. Mynd: Davíð Davíðsson
Þingeyri. Mynd: Davíð Davíðsson
„Þess vegna vilja bæjarfulltrúar Í-listans taka fram tvennt, sem þeir munu ekki samþykkja, varðandi niðurskurð fyrir árið 2009. Það er annars vegar að leggja niður skólastarf á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri, að hluta eða að öllu leyti og hins vegar að leggja niður þjónustudeild aldraðra á Hlíf, á meðan ekki liggur fyrir að hjúkrunarheimili muni rísa á Ísafirði í staðinn," segir í bókun Í-listans við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Ísafjarðarbæjar, stofnana hans og fyrirtækja fyrir árið 2009, við síðari umræðu. Það sem viðkemur skólastarfi á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri, í bókun Í-listans, vekur athygli en en Magnús Reynir Guðmundsson, bæjarfulltrúi Í-listans, segir marg oft hafa komið fram í máli meirihlutans á bæjarráðsfundum að skoða möguleika á að leggja niður skólastarf að hluta til á þessum þremur stöðum. „Þessar hugmyndir hafa komið fram í bæjarráði þó það hafi ekki verið bókað um þær. Þetta kemur fram í skjölum sem margir telja trúnaðarskjöl en þau eru það ekki endalaust og við viljum því taka allan vafa af um þetta," segir Magnús Reynir.

Hann segir sveitarfélagið þurfa að skera niður um 200 milljónir þá er við því að búast að menn leggi ýmislegt til. „Það er þetta tvennt sem við erum með. Það er annarsvegar þjónustudeild Hlífar. Við viljum ekki loka henni og kasta gömlu fólki út á gaddinn og flytja það af heimili og yfir á stofnun. Við viljum heldur ekki skerða skólana sem eru á minni stöðum Ísafjarðarbæjar. Við lítum svo á að skólarnir eru hjörtu byggðarlaganna og viljum við ekki hrófla við þeim," segir Magnús Reynir.

 

„Ég hef aldrei heyrt umræður um það að leggja niður skólastarf. Það hefur auðvitað verið í umræðunni í tengslum við þetta að sameina leik- og grunnskóla undir einum skólastjóra. Það er heimilt samkvæmt nýjum grunnskóla- og leikskólalögum. Það hefur líka verið í umræðunni hvort ekki væri hagkvæmara að vera með unglingadeild á einum stað og yngri deildirnar einum stað," segir Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.

 

Hann segist eiga erfitt með að skilja bókun Í-listans. „Þau ræða líka í bókuninni um lokun þjónustudeildar Hlífar en það var búið að taka ákvörðun um þetta á þar síðasta ári um lokunina. Við höfum ekki tekið við nýjum einstaklingum þar inn í heilt ár. Það var samstaða um þetta mál og ég verða að segja að ég skil ekki bókunina. Hún er mér óskiljanleg því mér finnst hún ekki í samræmi við þá vinnu sem við höfum unnið að. Mér finnst þau ekki samkvæm sjálfum sér í þessar bókun. Fjárhagsáætlunin er algjörlega unnin af meirihluta og minnihluta og maður sat þarna og hlustaði á þau og það var eins og þau hefðu aldrei komið að þessari vinnu," segir Halldór.

 

„Fjárhagsáætlunin er afgreidd með 200 milljón króna hagræðingarkröfu. Það þarf því annað hvort að auka tekju eða skera niður útgjöld. Við sjáum ekki möguleika á því að auka tekjur. Ég hef sagt það og segi áfram að við hljótum að skoða allt við að ákveða hvar við skerum niður," segir Halldór

 

Bókun Í-listans: „Bæjarfulltrúar Í-listans styðja þær forsendur fjárhagsáætlunar að ná jöfnuði í rekstri bæjarfélagsins. Frekari hallarekstur og lántökur til að standa undir rekstri og viðhaldi teljum við ekki verjandi fyrir framtíð bæjarins og íbúa hans.

 

Bæjarfulltrúar Í-lista eru reiðubúnir að styrkja markmið fjárhagsáætlunar um 200 milljóna króna niðurskurð og vinna að því verkefni með öðrum flokkum í bæjarstjórn. Í þeirri vinnu eru fulltrúar Í-listans tilbúnir að skoða alla möguleika til hagræðingar og sparnaðar, svo sem endurskipulagningu rekstrarþátta, uppsögn verksamninga og tímabundna skerðingu mannafla. Í þessu sambandi skal ávallt sitja í fyrirrúmi að sú þjónusta sem við teljum nauðsynlega fyrir velferð bæjarbúa njóti forgangs. Þess vegna vilja bæjarfulltrúar Í-listans taka fram tvennt, sem þeir munu ekki samþykkja, varðandi niðurskurð fyrir árið 2009. Það er annars vegar að leggja niður skólastarf á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri, að hluta eða að öllu leyti og hinsvegar að leggja niður þjónustudeild aldraðra á Hlíf, á meðan ekki liggur fyrir að hjúkrunarheimili muni rísa á Ísafirði í staðinn. Með tilliti til þess að fjárhagsáætlun sú sem hér liggur fyrir fundi, getur ekki talist fullunnin, teljum við okkur ekki geta samþykkt hana og munum því sitja hjá við afgreiðslu."

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31