A A A
Aðalsteinn með séra Sigtryggi, stofnanda Núpsskóla. Elsti og yngsti stúdent MR, 1959.
Aðalsteinn með séra Sigtryggi, stofnanda Núpsskóla. Elsti og yngsti stúdent MR, 1959.
« 1 af 3 »
Aðalsteinn fæddist á Núpi í Dýrafirði 10.10. 1940. »Ég hafði aldursforystu í stórum barnahópi á hlaðinu undir Núpi. Stóreygð störðum við systkinin á höfunda nýrra glósubóka, enn ekki nema föl í miðjar hlíðar, en fyrr en varði lokaði snjórinn þetta samfélag alveg af, oft vikum saman.

 

Bernskuminningar eru margar frá Gemlufalli. Þar voru mót tvennra tíma. Strokkur í búri, barinn steinbítur, reyktur rauðmagi, gota og ábrystir, súrt slátur. Bryddaðir skinnskór, undanrennuskol handa kaula, heitar rúgkökur af hringum kolaeldavélarinnar, peli heimalningsins sem lifði fyrir náð hofmannsdropa og upphitunar í ofninum.

 

Amma Ágústa og afi voru »að handan« frá Brekku og Hólum. Það styttist í barnaskólann hjá Svövu Thoroddsen og landafræðina hjá Ólafi H. Kristjánssyni, síðar á Reykjum. Landsprófið táknaði svo skilnað við móðursveitina en syðra beið annar skóli og kynnin hófust af föðurættinni: Hildur föðuramma var frá Iðu en bjó á Eyrarbakka.«

 

Í Reykjavík var Aðalsteinn til húsa hjá bróðurdóttur Hildar, Aldísi Kristjánsdóttur, á Bergþórugötu 16a, en smátt og smátt tók Guðrún P. Helgadóttir, skólastjóri Kvennaskólans, við uppeldinu og gerði hann að kennara hjá sér.

 

Aðalsteinn lauk stúdentsprófi frá MR 1959, fyrrihlutaprófi í guðfræði við HÍ 1963, BA-prófi í landafræði, sögu, grísku og uppeldis- og kennslufræði við HÍ 1971 og lauk fyrsta stigi í íslensku í HÍ 1977.

 

Aðalsteinn var kennari við Héraðsskólann á Núpi 1960-61, við VÍ 1961-63, við Iðnskólann og Austurbæjarskólann 1961-63, við Kvennaskólann 1964-77, kennari við KHÍ 1978, yfirkennari í Kvennaskólanum 1977-82 og skólameistari 1982-2000.

 

Aðalsteinn réðst síðan til menntamálaráðuneytis til þess að kvelja fyrri kollega sína með naumum fjárveitingum, eins og hann orðar það.

 

Aðalsteinn var í stúdentaráði HÍ 1963-64, með Ellert B. Schram, frænda sínum, var formaður Stúdentafélags HÍ 1966-67, formaður Félags guðfræðinema og formaður Bræðralags, formaður borðtennisklúbbsins Arnarins 1974-78, formaður mótanefndar BTÍ 1975-85, sat í stjórn og launamálaráði FHK 1974-78, í sameininganefnd FHK og Félags menntaskólakennara 1978-79, var ritstjóri Stúdentablaðsins 1966, í ritnefnd afmælisritsins Kvennaskólinn í Reykjavík 1874-1974 og var í starfshópi á vegum Skólarannsókna 1977-84.

 

Öllum sínum skólaafskiptum er Aðalsteinn nú að ljúka með söfnun gagna um sögu Núpsskóla og vonast til að ljúka ritun þeirrar sögu. Með ýmsum öðru félagsmálum hefur hann látið sér annt um Skrúð. Þess á milli gengur hann með samstúdentum MR 59, spilar borðtennis eða fær sér kaffi í Kvennaskólanum og á Sölvhóli.

 

Fjölskylda

 

Eiginkona Aðalsteins er Guðrún Larsen, f. 1.11. 1945, jarðfræðingur við Jarðvísindastofnun HÍ og lærisveinn Sigurðar Þórarinssonar í gjóskulagafræðum.

 

Börn Aðalsteins og Guðrúnar eru Eiríkur Kristján, f. 22.12. 1966, starfsmaður hjá Samherja á Akureyri, og eru synir hans og Önnu Sigríðar Jökulsdóttur sálfræðings, Egill og Atli, en dóttir hans og núverandi sambýliskonu, Guðrúnar Sigurjónsdóttur, er Sigrún Dalrós; Brynhildur Kristín, f. 29.9. 1980, lögfræðingur hjá Yfirskattanefnd en hún á Aðalstein og Þorgerði, með Jónasi Þór Gunnarssyni en er nú í sambúð með Ólafi Arnari Þórðarsyni, starfsmannastjóra hjá Hagstofunni.

 

Systkini Aðalsteins eru: Guðmundur, f. 6.5. 1943, d. 10.7. 1946; Jón, f. 23.9. 1944, dr. í jarðfræði, sérfræðingur á Raunvísindastofnun HÍ; Hildur, f. 21.3. 1947, lengi á tónlistardeild RÚV; Ágústa, f. 18.6. 1948, hjúkrunarfræðingur á Sauðárkróki; Jónína, f. 14.2. 1952, verkefnisstjóri við Snorrastofu í Reykholti; Magnús, f. 10.12. 1953, véltæknifræðingur og kennari við Iðnskólann í Hafnarfirði, búsettur í Reykjavík; Guðmundur, f. 14.5. 1955, forstöðumaður tæknideildar Faxaflóahafna, Reykjavík; Ásmundur, f. 6.10. 1959, tölvunarverkfræðingur í Reykjavík; Aldís, f. 2.10. 1960, iðjuþjálfi í Borgarnesi, og Ingveldur, f. 9.4. 1965, skólastjóri á Þórshöfn á Langanesi.

 

Foreldrar Aðalsteins voru sóknarpresturinn og kennarinn við Núpsskóla, Eiríkur Júlíus Eiríksson, f. 22.7. 1911, d. 11.1. 1987, og Sigríður Kristín Jónsdóttir, f. 5.10. 1917, d. 17.2. 1999, frá Gemlufalli innar í Mýrahreppi.

 

Morgunblaðið laugardagurinn 10. október 2015

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30