A A A
  • 1950 - Margrét Guðjónsdóttir
  • 1955 - Angantýr Valur Jónasson
03.09.2015 - 07:40 | Morgunblaðið,BIB

Perlan í víkinni

Hvalbeinin úr Skrúði í Dýrafirði.
Hvalbeinin úr Skrúði í Dýrafirði.
« 1 af 2 »

• Þúsundir ferðamanna hafa skoðað söfnin í Bolungarvík í sumar

Náttúrugripasafnið í Bolungarvík, sem formlega var opnað í maí 1998, er það fyrsta sinnar tegundar á Vestfjörðum. Safnið er tileinkað Steini Emilssyni jarðfræðingi, sem lengi var skólastjóri í Bolungarvík og er steinasafn hans uppistaðan í steinasýningu safnsins. Spendýrum og fuglum eru einnig gerð góð skil en þar eru um 250 fuglar af 171 tegund. Flestar fuglategundirnar sem finna má á safninu, dvelja einhvern hluta ársins á landinu en innan um eru fuglar sem hafa af einhverjum ástæðum flækst til landsins. Þá er á safninu stórt og gott eggjasafn og hreiður til sýnis.

Safnið hefur að geyma úrval spendýra, m.a. hvítabjörn og blöðrusel sem báðir eru flækingar frá Grænlandi. Hvítabjörninn fannst á sundi norður af Horni sumarið 1993. Skipverjar á Guðnýju ÍS-266 frá Bolungarvík komu að dýrinu, hífðu það um borð og hengdu. Drápið olli harðvítugum deilum sem enduðu með því að dýrið var gert upptækt, stoppað upp og er nú til sýnis á safninu. Á safninu má einnig sjá hvalbeinin í hvalbeinshliðinu að Skrúði í Dýrafirði, sem eru líklega best þekktu bein hérlendis enda hafa mörg þúsund manns heimsótt garðinn undanfarin 100 ár.

 

Vel sótt af ferðafólki

Að sögn Huldu Birnu Albertsdóttur, forstöðumanns safnsins, er safnið vel sótt af ferðafólki og eru Íslendingar þar í meirihluta. Fram til 15. ágúst síðastliðinn höfðu 1.640 manns sótt safnið heim í sumar, þar af 894 Íslendingar.

Náttúrustofa Vestfjarða sér um rekstur náttúrugripasafnsins sem og um rekstur sjóminjasafnsins í Ósvör sem nýtur sívaxandi vinsælda meðal ferðamanna. Bæði söfnin eru í eigu Bolungarvíkurkaupstaðar.

Tæplega átta þúsund manns hafa sótt sjóminjasafnið í sumar, flestir erlendir gestir með skemmtiferðaskipum sem koma til Ísafjarðar, eða 5.295 manns. Aðrir erlendir gestir teljast vera 1.930 í sumar og Íslendingar 633 talsins.

 

Morgunblaðið fimmtudagurinn 3. september 2015.

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30