A A A
  • 1949 - Guðberg Kristján Gunnarsson
  • 1962 - Unnur Cornette Bjarnadóttir
Eftir Björn G. Björnsson. Hið íslenska bókmenntafélag, 2016. Innbundin, 240 bls.
Eftir Björn G. Björnsson. Hið íslenska bókmenntafélag, 2016. Innbundin, 240 bls.
Hús hans hafa mótað umhverfi okar í rúma öld og haft áhrif á aðra sem komu á eftir,“ skrifar Björn G. Björnsson í innganginum að myndarlegri bók sinni,  Fyrsti arkitektinnRögnvaldur Ágúst Ólafsson og verk hans.

 

Rögnvaldur fæddist í Dýrafirði árið 1874 og lést úr berklaveiki árið 1917, aðeins 42 ára að aldri, í Vífilsstaðaspítala sem var stærsta bygging sem hann teiknaði.

Rögnvaldur lauk prófi frá Lærða skólanum árið 1901 og hélst þá til náms í húsagerðarlist. Vegna berklanna sem skertu lífsgæði hans verulega frá því hann var á þrítugsaldri lauk hann ekki námi en engu að síður varð hann fyrsti Íslendingurinn sem gerði hönnun húsa að ævistarfi. Starfstíminn varð skammur, aðeins tólf ár, en Rögnvaldur varð árið 1906 ráðunautur landsstjórnarinnar um opinberar byggingar og eftir hann liggja á fjórða tug kirkna, fjöldi skólabygginga og annarra húsa víða út um landið. Meðal þekktustu bygginga hans má nefna Húsavíkurkirkju, Pósthúsið í Reykjavík, Sóleyjargötu 1 – Staðastað, Búnaðarskólana á Hvanneyri og Hólum, Kennaraskólann við Laufásveg og Ráðherrabústaðinn – auk fjölda kirkna sem setja svip á kaupstaði, þorp og sveitir landsins.

Í upphafi bókarinnar er fjallað á yfirgripskenndan hátt um bakgrunn Rögnvaldar, uppvöxt og nám í Reykjavík og í Danmörku, og síðan starfsumhverfið í Reykjavík. Annar kafli bókarinnar fjallar um kirkjur hans úr timbri, sá þriðji um önnur timburhús hans, og þá eru kaflar um barnaskólahús úr timbri, bruna miðbæjar Reykjavíkur, kirkjur úr steinsteypu, önnur steinsteypuhús, barnaskólahús úr steinsteypu, og svo óbyggð hús og tillögur Rögnvaldar að húsum. Bókinni lýkur með umfjöllun um ævilok arkitektsins, skrá yfir verk hans og dæmum úr bréfasöfnum.

Þetta er fyrst og fremst ljósmyndabók sem gefur kærkomið og mikilvægt yfirlit yfir verk þessa merka frumkvöðuls íslenskrar byggingarlistar. Í inngangi skrifar Björn að eftir að hafa kynnst verkum Rögnvaldar og hrifist af þeim við gerð sjónvarpsþátta á níunda áratug liðinnar aldar, hafi hann tekið að afla sér heimilda um manninn og verkin. Bókin sé afrakstur 20 ára áhuga á verkum hans „og ótal ferða um landið til að ljósmynda og kanna hús hans og veita þannig innsýn í merkilegt ævistarf“ hans.

Um sumar bygginganna er fjallað á einni síðu, í tveimur til þremur myndum og knöppum texta, aðrar fá opnu eða tvær og þá getur einnig að líta ýmsar teikningar arkitektsins.

Pétur H. Ármannsson arkitekt og rithöfundur skrifar stuttan inngang, á einni síðu, þar sem verk Rögnvaldar eru skýrð og sett í samhengi og saknar þessi lesandi að sjá ekki slík fræðileg tök með skýringum við helstu byggingar í bókinni og um hvernig verkin þróast. Þá vantar myndatexta að mestu og er það bagalegt því í verki sem þessu eru þeir mjög mikilvægir, fylla út í heildarmyndina og leiða lesanda áfram við að skoða og lesa.

Höfundur tekur vissulega fram, að ekki sé „ætlunin að meta verk Rögnvaldar út frá byggingarfræðilegu sjónarhorni“ og er bókinni frekar ætlað að vera „ljósmyndabók með fróðleik en fræðirit með myndum.“ Uppleggið er því skýrt og verkið vel unnið út frá því, en það sem vart er að vænta annarrar bókar um feril Rögnvaldar hefði verið fengur að fræðilegri upplýsingum við einstök hús.


Þessi bók er þó mikilvægt og þarft verk. Á síðustu árum hafa komið út bækur um aðra merka arkitekta okkar og þessari má skipa beint í þann flokk.


Einar Falur Ingólfsson


« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31