A A A
  • 1949 - Guðberg Kristján Gunnarsson
  • 1962 - Unnur Cornette Bjarnadóttir
10.12.2016 - 06:28 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið

Merkir Íslendingar - Jón Guðmundsson

Jón Guðmundsson (1807 - 1875)
Jón Guðmundsson (1807 - 1875)
« 1 af 2 »
Jón Guðmundsson fæddist í Melshúsum í Reykjavík 10. desember 1807, sonur Guðmundar Bernharðssonar og Ingunnar Guðmundsdóttur.

Eiginkona Jóns var Hólmfríður, systir Þuríðar, langömmu Vigdísar Finnbogadóttur, og Önnu, móður Matthíasar Johannessen skálds.

Jón lærði fyrst hjá séra Þorvaldi Böðvarssyni, prófasti og skáldi í Holti í Önundarfirði og Holti undir Eyjafjöllum er síðar varð tengdafaðir hans. Hann fór í Bessastaðaskóla 1824 en missti tvö ár úr skóla vegna veikinda og var haltur síðan. Hann lauk stúdentsprófi 1832.

Jón var skrifari hjá landfógeta og settur til að gegna embætti hans um hríð 1836, var umboðsmaður Kirkjubæjarklaustursjarða 1837-47 og bjó þar, var settur sýslumaður í Skaftafellssýslu 1849 en fór utan til laganáms 1850 og lauk því ári síðar.

Jón hafði verið fulltrúi Íslands á stjórnlagaþingi Dana 1848-49. Hann var fulltrúi á Þjóðfundinum í Reykjavík 1851 og var þar í forystu, ásamt Jóni Sigurðssyni, þar sem barist var fyrir landsréttindum Íslendinga. Hann fór utan það ár, ásamt nafna sínum, í erindum Þjóðfundarins, en í banni stiftamtmanns. Við það missti hann sýslumannsembættið og von um frekari embættisveitingar.

Jón var ásamt nafna sínum, Jóni Sigurðssyni, einn helsti leiðtogi sjálfstæðisbaráttunnar um og eftir þjóðfundinn 1851.

Hann eignaðist blaðið Þjóðólf í Reykjavík 1852 og ritstýrði því til 1874 en blaðið kallaði hann „blað lýðsins og þjóðernisflokksins – oppositionsblað“. Hann var alþm. Skaftfellinga 1845-58, Vestur-Skaftfellinga 1858-69 og kosinn alþm. Vestmannaeyja 1874 og bæjarfulltrúi í Reykjavík 1856-68. Þá var hann málflutningsmaður við landsyfirréttinn frá 1858 til æviloka.

Einar Laxness ritaði ævisögu Jóns Guðmundssonar, útg. af Sögufélagi og Ísafold 1960, og annaðist útgáfu bréfa Jóns ritstjóra til Jóns forseta 1845-1855.

Jón lést 31. maí 1875.

 

Morgunblaðið 10. desember 2016.


« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31