A A A
  • 1981 - Berglind Hrönn Hlynsdóttir
07.01.2017 - 20:24 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið

Merkir Íslendingar - Egill G. Thorarensen

Egill G. Thorarensen (1897 - 1961)
Egill G. Thorarensen (1897 - 1961)

Egill G. Thorarensen fæddist í Kirkjubæ á Rangárvöllum 7. janúar 1897. Foreldrar hans voru Grímur S. Thorarensen, oddviti og hreppstjóri á Bjólu og í Kirkjubæ, og k.h., Jónína Guðrún Egilsdóttir.

Grímur var sonur Skúla Thorarensen, læknis á Móeiðarhvoli, bróður Bjarna, amtmanns og skálds. Bróðir Gríms var Þorsteinn, bóndi á Móeiðarhvoli, afi Þorsteins S. Thorarensen borgarfógeta.

Jónína var dóttir Egils Pálssonar frá Múla í Biskupstungum.

 

Eiginkona Egils var Kristín Daníelsdóttir og eignuðust þau fjögur börn, Grím kaupfélagsstjóra, Erlu húsfreyju, Benedikt framkvæmdastjóra og Jónínu húsfreyju.

 

Egill stundaði verslunarnám í Danmörku 1912-14 og verslunarstörf 1915 og var til sjós tvö ár, ásamt námi við Stýrimannaskólann.

 

Egill flutti að Sigtúnum við Ölfusárbrú 1918 og átti eftir að verða einn helsti áhrifamaður í atvinnumálum og pólitík Selfyssinga og Suðurlands á síðustu öld. Hann starfrækti verslun að Sigtúnum til 1930, beitti sér þá fyrir stofnun kaupfélags, seldi verslun sína nýstofnuðu Kaupfélagi Árnesinga, var kaupfélagsstjóri Kaupfélags Árnesinga og stjórnarformaður Mjólkurbús Flóamanna í þrjá áratugi, sat í mjólkursölunefnd, mjólkurverðlagsnefnd, beitti sér fyrir kaupum kaupfélagsins á Laugardælum og kom þar upp stórbúskap, beitti sér fyrir hafnargerð og útgerð í Þorlákshöfn, var formaður Meitilsins og sat í stjórn Mjólkursamsölunnar og stjórn Osta- og smjörsölunnar, auk stjórnarsetu í öðrum fyrirtækjum og félögum.

 

Egill var bókmaður og bókmenntalega sinnaður. Um hann sextugan, sagði Ágúst, alþm. á Brúnastöðum, faðir Guðna: „Hann er maður fríður og vel á sig kominn að líkamsvexti. Bjartur á hörund, hárið hvítt; bláeygur og fagureygur, allharður undir brún að líta, en ef betur er að gætt, bros undir hvarmi og blik gáfna og góðmennsku í augum.“

 

Egill lést 15. janúar 1961



Morgunblaðið 7. janúar 2017

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30