A A A
  • 1949 - Guðberg Kristján Gunnarsson
  • 1962 - Unnur Cornette Bjarnadóttir
18.09.2011 - 22:54 | bb.is

Keyptu Simbahöllina á 2500 krónur

Wouter Van Hoeymissen og Janne Kristensen. Mynd: bb.is.
Wouter Van Hoeymissen og Janne Kristensen. Mynd: bb.is.
„Okkur langar að reyna að ná fleira fólki hingað yfir veturinn og eitt af því sem við erum að bræða með okkur er gesta- og vinnuaðstaða fyrir listamenn. Þeim fylgja frumlegar og skemmtilegar hugmyndir sem kannski gætu orðið að einhverju í þorpinu," segir Wouter Van Hoeymissen vert í Simbahöllinni á Þingeyri í opnuviðtali í Bæjarins besta í dag. Simbahöllin hefur á undanförnum þremur árum komist á kortið sem einhver besti og óvæntasti kaffistaðurinn á landinu. Ekki bara vegna þess að veitingarnar þykja með eindæmum góðar heldur hefur húsið líka verið gert upp af mikilli natni. En komið hafði til tals að rífa Simbahöllina rétt áður en Belginn Wouter og Daninn Janne Kristensen keyptu húsið á 2500 krónur árið 2005. Kaffihúsið er á neðri tveimur hæðunum en sjálf búa þau í fallegri íbúð á hinum efri, ásamt sex mánaða gamalli dóttur, Fríðu Kötlu.

„Í byrjum vissum við ekki hvað við ætluðum að gera við húsið. En þegar við hreinsuðum út úr því og gamla afgreiðsluborðið í miðju þess kom í ljós fór hugmyndin að kaffihúsi að mótast. Smám saman áttuðum við okkur á að saga hússins er merkileg. Hér var rekin nýlenduvöruverslunin Sigmundarbúð frá 1915 og fram á áttunda áratuginn og húsið dregur gælunafn sitt af henni. Síðar var hér raftækjaverslun og myndbandaleiga og nokkrar senur í myndinni Nói Albínói voru teknar upp í húsinu. Bæjarbúar eiga því margar minningar tengdar Simbahöllinni og okkur langaði til að opna hana fyrir þeim aftur. Og kaffihús varð niðurstaðan," segir Janne.

 

Síðasta vor bættu Wouter og Janne hesta- og fjallahjólaleigu við kaffihúsareksturinn. Wouter: „Við förum varlega af stað. Hingað kemur mikið af fólki sem ekki hefur prófað íslenska hestinn áður og þótt hann sé skemmtilegur er hann líka með svolítið skap. Hingað til höfum við því aðallega verið að prófa okkur áfram með styttri ferðir. Í framtíðinni sjáum við fyrir okkur að bjóða upp á reiðtúra um Svalvoga sem okkur finnst ekki síður magnaður staður en Hornstrandir," segir Wouter.

 

Aðspurð hvort þau fái meira af Íslendingum eða útlendingum inn á kaffihúsið segir Wouter: „Í raun má segja að kreppan hafi spilað með okkur. Þegar hún skall á byrjuðu Íslendingar að ferðast meira innanlands og fyrstu tvö árin fengum við mikið af gestum sem voru að uppgötva eða enduruppgötva Vestfirði. Þetta virðist reyndar vera að breytast aftur því í sumar voru útlenskir gestir í meirihluta og sá hópur stækkar enn. Hátt bensínverð virðist hafa gert að verkum að Íslendingum fækkaði aftur í sumar og eins hafði kuldinn í júní áhrif."

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31