A A A
  • 1981 - Berglind Hrönn Hlynsdóttir

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkti í gær styrk og ábyrgðir vegna starfsemi lýðháskóla á Flateyri. Um er að ræða 10 m.kr. ábyrgð bæjarins, endurgjaldslausa aðstöðu fyrir skólann til kennslu og félagsstarfs, og niðurgreiðslu á mötuneyti fyrir nemendur og starfsfólk skólans.

Lýðháskólinn á Flateyri hyggst hefja kennslu haustið 2018, með það að markmiði að skapa nýjan og nánast óþekktan valkost í íslensku menntakerfi og skapa mikilvæga viðbót við mannlíf og möguleika á Flateyri og nágrenni. Byggt verður á hugmyndafræði lýðháskóla með áherslu á mannrækt, listsköpun, sjálfbærni, þjálfun og persónuleg gildi menntunar sem slíkrar. "Sá stuðningur sem stofnun Lýðháskólans á Flateyri hefur hlotið í heimabyggð og hjá Ísafjarðarbæ er okkur gríðarlega mikils virði. Þessi samningur er stór liður í því að tryggja fjármögnun skólans" segir Helena Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Lýðháskólans á Flateyri. "Þar sem skólinn verður alfarið rekinn af sjálfsaflafé hefur fjármögnun verið stór þáttur í vinnu okkar síðustu mánuði og það í nokkru kappi við tímann. Með samningnum kemur Ísafjarðarbær ekki aðeins að fjármögnun á mjög stórum liðum í rekstraráætlun skólans heldur tryggir að hægt sé að opna fyrir umsóknir 15. apríl og taka á móti nemendum á fyrsta skólaár í haust, jafnvel þó svo fari að fjármögnun verði ekki að fullu lokið.“

 

Gísli Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar fagnar sömuleiðis samstarfi við Lýðháskólann: „Þetta er ákaflega mikilvægt skref í að auðga Ísafjarðarbæ og þá alveg sérstaklega Flateyri, það er því bæjaryfirvöldum kappsmál að lýðháskólinn hefji starfsemi sína í haust. Nemendum mun bjóðast skemmtilegt og skapandi nám í glæstri náttúru og hlýlegu umhverfi sem hentar fullkomlega til starfseminnar. Flateyringum og öðrum bæjarbúum mun hinsvegar bjóðast sköpunarkraftur og atgervi aðkomunemenda og starfsfólks. Lýðháskólinn mun treysta byggð á Flateyri og flýta mjög framþróun og vexti í sveitarfélaginu okkar."

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30