A A A
  • 1935 - Soffía Einarsdóttir
25.05.2015 - 06:29 | Hallgrímur Sveinsson

Fyrsta sjúkraskýli í sýslunni?

Skáli Guðmundar norðlenska, um 20 fermetrar að flatarmáli. Er þetta fyrsta sjúkraskýlið í sýslunni? Ljósm H. S.
Skáli Guðmundar norðlenska, um 20 fermetrar að flatarmáli. Er þetta fyrsta sjúkraskýlið í sýslunni? Ljósm H. S.

Frá Guðmundi norðlenska, 2. grein:


Við sögðum frá því um daginn, að öðlingurinn Knútur Bjarnason á Kirkjubóli hefði talið að Guðmundur læknir Guðmundsson hinn norðlenski (1799-1885), forfaðir þeirra smiðjumanna á Þingeyri, hefði fyrstur manna ræktað kartöflur í Dýrafirði. Hefur það líklega verið um eða uppúr 1855. Guðmundur hinn norðlenski var einn merkasti maður í sögu Dýrafjarðar. Fór meðal annars til Hollands þar sem hann dvaldi vetralangt í „vísindalegu augnamiði.“ Hann var samtímamaður Jóns Sigurðssonar og skrifuðust þeir á.

   Guðmundur norðlenski var upprunninn í Skagafirði og hafa þeir Sighvatur Grímsson Borgfirðingur og Halldór Kristjánsson frá Kirkjubóli báðir skrifað æviþætti hans. Ljóst er af þeim að þessi sérstæði persónuleiki hefur ekki látið sér allt fyrir brjósti brenna. Guðmundur bjó á ýmsum stöðum hér í sýslunni, ýmist sjálfs sín eða annarra hjú.

   Lækningar stundaði Guðmundur norðlenski hér í fjörðunum áratugum saman við mikið lof þeirra sem nutu, en misjafnt álit ýmissa valdsmanna. Árið 1858 flutti Guðmundur húsvilltur frá Hæsta-Hvammi í sauðahús á Sandaskerjum utan Þingeyrar með barn sitt á níunda ári, Sigurð Amlín, föður Guðmundar J. Sigurðssonar. Fljótlega reisti hann sér lítið hús í Sandalandi og kallaði Skála eða Guðmundarskála (Kjartansbók). Sér glöggt fyrir undirstöðum þess húss enn í dag, en það mun hafa verið um 20 fermetrar að flatarmáli. Þarna bjó Guðmundur um 10 ára skeið við lítil efni og tók til sín sjúklinga. Er ekki annað vitað en hér sé fyrsti vísir að sjúkraskýli í sýslunni. Eru þá undanskilin húsakynni Hrafns Sveinbjarnarsonar læknis á Eyri í Arnarfirði, en ekki er ósennilegt að þar hafi staðið fyrsta sjúkrahús landsins.

 

Hallgrímur Sveinsson.

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31