24.03.2015 - 07:50 | BIB,bb.is
Fornminjasjóður styrkir hvalveiðirannsóknir á Vestfjörðum
Verkefnið er hluti af rannsóknum Ragnars Edvardssonar, fornleifafræðings hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Vestfjörðum, á umfangi og eðli hvalveiða erlendra manna við Vestfirði. Sérstök áhersla er á að kanna áhrif hvalveiðimannanna á íslenskt samfélag og hvaða ástæður liggja að baki því að Íslendingar hófu ekki hvalveiðar í atvinnuskyni strax á 17. öld þar sem að lýsi var eftirsótt ljósmeti og hefði getað verið mikilvæg viðbót við íslenskan efnahag.
Íslendingar stunduðu ekki hvalveiðar að neinu marki fyrr en komið var fram á 20. öld en við upphaf 17. aldar komu erlendir hvalveiðimenn til landsins, þá aðallega Hollendingar og Baskar. Hvalveiðimenn reistu landstöðvar á Ströndum og stunduðu þaðan hvalveiðar í atvinnuskyni fram til loka 17. aldar. Hvalveiðar í atvinnuskyni á Íslandi lögðust af um 1700 en hófust aftur á seinni hluta 19. aldar með tilkomu norskra hvalveiðimanna sem reistu átta hvalveiðistöðvar á Vestfjörðum og Austfjörðum og stunduðu hvalveiðar fram til 1913.
Styrkurinn úr Fornminjasjóði verður nýttur til að kortleggja minjar við norskar hvalveiðistöðvar bæði á landi og neðansjávar.