A A A
  • 1949 - Guðberg Kristján Gunnarsson
  • 1962 - Unnur Cornette Bjarnadóttir
06.03.2013 - 19:21 | Morgunblaðið,BIB

Dýrfirska Fjallkonan með nútímalegar hugmyndir

Guðjón Friðriksson við Laugaveg 20b en þar rak Kristín Dahlstedt eitt glæsilegasta veitingahús sitt. Rýmið var stórt, klætt speglum, tónlistin lifandi og þjónarnir voru klæddir einkennisbúningum
Guðjón Friðriksson við Laugaveg 20b en þar rak Kristín Dahlstedt eitt glæsilegasta veitingahús sitt. Rýmið var stórt, klætt speglum, tónlistin lifandi og þjónarnir voru klæddir einkennisbúningum
« 1 af 6 »
Þeir sem heyra sögu veitingakonunnar Kristínar Dahlstedt úr Dýrafirði sammælast um að hún teljist til merkra Íslendinga sem hafa sett svip sinn á reykvíska menningu.
Hinn margverðlaunaði rithöfundur og sagnfræðingur Guðjón Friðriksson flutti erindi á dögunum um veitingamennsku Kristínar í tengslum við sýninguna Fjallkonan og reykvíska eldhúsið sem nú stendur yfir í Landsbókasafni Íslands 
- Þjóðarbókhlöðunni við Suðurgötu.
 
Árið 1880 var það lögboðið að réttindi stúlkna til náms væru jöfn við drengja þó að viðhorfið hafi verið lífseigt að óþarfi væri að mennta stúlkur. Það verður því að teljast merkilegt að kona frá þessum tíma hafi náð að brjótast til mennta í sinni grein og fylgja ástríðu sinni. Kristín Dahlstedt var fædd árið 1876 í Dýrafirði, fór til Danmerkur aðeins 23 ára gömul, kom svo sjö árum seinna til Íslands, opnaði hvert veitingahúsið á fætur öðru í Reykjavík. „Kristín var Jónsdóttir upphaflega og var fátæk stúlka úr Dýrafirði. Ung trúlofaðist hún manni sem varð til þess að hún komst inn í bókmenntasöguna. Það varð með þeim hætti að unnusti hennar var Magnús nokkur Hjaltason en hann er fyrirmyndin að Ólafi Kárasyni í Heimsljósi Halldórs Laxness. Þar kemur við sögu heitkonan og þá er nú væntanlega Kristín þessi fyrirmyndin að henni,“ segir Guðjón Friðriksson sagnfræðingur.

 


Fór allslaus til Danmerkur og vann á veitingastöðum

Guðjón kynntist sögu Kristínar þegar hann skrifaði tvö bindi af Sögu Reykjavíkur sem komu út árið 1991 og 1994. „Það má segja að Kristín sé hluti af sögu Reykjavíkur þar sem hún rak hér lengi veitingastaði og áhugi minn á henni tengist áhuga mínum á sögu borgarinnar. Hún Kristín þessi braust til þess að sigla til Danmerkur ung kona ásamt sex öðrum stelpum. Fékk sér far með dönskum kútter árið 1899. Þetta var náttúrlega algjör ævintýramennska, þær voru allar mállausar og peningalausar.“ Kristín kom að landi í Fredrikshavn á Jótlandi og naut stuðnings skipstjórans sem skildi ekki við stelpurnar sjö fyrr en þær voru allar komnar með vinnu. Kristín fékk vinnu á hóteli og í sjö ár vann hún til skiptis á hótelum og veitingastöðum. „Hún var fyrst í Fredrikshavn en endaði svo í Kaupmannahöfn. Hún var líka í vist á fínum heimilum og reyndist hörkudugleg og má segja að hún lærði þarna matargerð og allt sem tilheyrir veitingamennsku. Meðal annars var henni falið að stýra kaffihúsi heilt sumar á Fredriksberg. Þetta er svona dæmi um hvernig konur voru að brjótast til mennta ef svo má segja.“

 

Fjallkonan flakkaði um Laugaveginn

Ef hugsað er til matarmenningar Íslendinga á þessum tíma spyrja eflaust margir sig; var hún nokkur? Saltfiskur og kartöflur í hvert mál, súrt á þorranum og hangikjöt á jólunum. Á einhverjum tíma urðu umskipti og átti ævintýrasækið fólk líkt og Kristín stóran þátt í breytingunum. Eftir dvöl sína í Danmörku opnaði hún veitingahús á Laugavegi 68. „Það hét Hótel Fönix og það stóð nú ekki mjög lengi, kannski eitt ár. Þá sigldi hún aftur til Danmerkur. Kom svo að nýju og þá opnaði hún Fjallkonuna sem átti eftir að vera á mörgum stöðum í Reykjavík. Þetta var mjög þekktur veitingastaður en hún þurfti að flytja hann oft og var svona í dálitlu braski. Hún átti stundum húsin og seldi þau og keypti ný og missti þau stundum. Það var nú svolítill drykkjuskapur á þessum veitingastöðum hennar og óróasamt og það kom fyrir að þeim var lokað af lögreglunni.“ Fjallkonan fluttist á milli fjögurra húsa við Laugaveginn og eru þau flestöll til enn í dag. „Á einum stað var hún við Skólavörðustíg og svo var hún uppi í Grjótaþorpi og svo endaði hún við Tryggvagötu og var þar alveg til 1946. Hún kallaði þann stað Ægi og var nú hætt að nota Fjallkonuna en þá var þetta orðinn ansi mikill sjóarastaður.“

 

Lifandi tónlist og sjálfspilandi píanó á veitingastöðunum

Það má segja að Kristín hafi verið sannkölluð nútímakona að mörgu leyti. Hún elti drauma sína, sótti vísdóm í sína grein handan hafsins, varð frumkvöðull í veitingahúsarekstri og átti börn með þremur mönnum. „Nafnið Dahlstedt fékk hún þegar hún giftist dönskum manni. Hún var frjálsleg í allri sinni hegðun og var með nútímalegar hugmyndir. Hún tók upp á alls konar nýjungum. Hún var með hljómsveitir sem spiluðu hjá henni og á einum staðnum var hún með sjálfspilandi píanó. 1910 var hún með grammófón sem maður setti pening í hann og þá spilaði hann. Þetta var einskonar undanfari glymskratta. Hún fann upp ýmislegt til að auka aðsóknina að þessum veitingahúsum sínum. Svo tók hún upp á því á tímabili að auglýsa matseðil á hverjum degi í dagblaði. Þannig að menn gátu séð hvað var á boðstólum hjá henni þann daginn. Það sem hún auglýsti mest og virðist hafa verið sérgrein hennar í matseldinni var buff með spæleggi og lauk. Hún kom með alls konar nýjungar inn í reykvískt líf sem hún hafði lært í Danmörku. Þetta er svona dæmi um það hvernig konur voru að hasla sér völl á fleiri sviðum en áður og tileinka sér borgaralega hætti. Þetta var mjög áhugaverð kona og hún greinilega sagði skoðanir sínar umbúðalaust og var ekkert að skafa utan af þeim. Þetta var beinskeytt nútímakona sem er frekar ólíkt eldri kynslóðum kvenna á Íslandi,“ segir Guðjón að lokum.

Morgunblaðið miðvikudagurinn 6. mars 2013. 
« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31