A A A
  • 1926 - Jökull Sigtryggsson
  • 1946 - Katrín Eiríksdóttir
  • 1979 - Sólveig Eirný Sveinsdóttir
07.02.2017 - 08:26 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Björn Ingi Bjarnason,Árni Gunnarsson

100 ár frá fæðingu Gylfa Þ. Gíslasonar

« 1 af 2 »
Í dag eru 100 ár liðin frá fæðingu Gylfa Þ. Gíslasonar, fyrrverandi formanns Alþýðuflokksins, alþingismanns, ráðherra mennta og viðskipta og prófessors við Háskóla Íslands.

Hann var einn af mikilvirkustu og mætustu ráðherrum þjóðarinnar.

Það var mitt lán að eiga löng og hlý samskipti við Gylfa. Hann og faðir minn urðu vinir í menntaskóla og þess naut ég um langt árabil. Þegar faðir minn lést í flugslysi árið 1951 var ég 10 ára gamall. Gylfi reyndist móður minni hjálparhella og á unglingsárunum átti ég skjól hjá þeim Gylfa og hans mætu eiginkonu, Guðrúnu Vilmundardóttur. Þar eignaðist ég vináttu Þorsteins og Vilmundar sona þeirra.

Mikil gestafjöld kom á heimili þeirra á Aragötunni. Þar mátt sjá marga af þekktustu stjórnmálamönnum og menningarfrömuðum Norðurlanda og fleiri Evrópulanda. Þá var oft glatt á hjalla. Gylfi lék á píanó, og þá m.a. lög sín, og oft sungu gestir með. Þáttur Guðrúnar í lífi Gylfa var honum ómetanlegur. Heimilishaldið hvíldi á henni og hún var dæmalaust góður ráðgjafi, sem Gylfi leitaði ósjaldan til. Vinnudagur hans var oftast langur, enda með ólíkindum hve miklu hann kom í verk.

Ég dáði Gylfa, alla framgöngu hans og pólitískar áherslur. Í ráðherratíð hans urðu grundvallarbreytingar á skólakerfi landsins. Öll menning var honum mikils virði, ekki síst tónlist. – Í starfi sínu lagði hann mikilvægan grunn að tónlistarnámi með stofnun tónlistarskóla víða um land, sem án efa hafa átt umtalsverðan þátt í þeirri miklu grósku tónlistarlífs, sem við njótum öll í dag.

Barátta Gylfa fyrir því að fá handritin heim frá Danmörku er eitt helsta afrek hans á sviði menningarmála og kristallaðist við afhendingu handritanna í Háskólabíói 21. apríl 1971. Þar afhenti Helge Larsen, danskur starfsbróðir Gylfa og vinur, Flateyjarbók með fleygum orðum: „Vær saa god, Flatöbogen“. Þetta var hamingjudagur í lífi Gylfa og allrar þjóðarinnar.

Gylfi átti vinum að mæta og var í miklum metum stjórnmálamanna og fulltrúa menningarlífs í fjölmörgum þjóðlöndum, einkum í hinum norrænu löndunum. Enginn vafi er á því, að vinátta hans og forystumanna danskra jafnaðarmanna, greiddi mjög fyrir niðurstöðu handritamálsins.

Gylfi Þ. Gíslason var menntamálaráðherra í tæp 15 ár og lengstum viðskiptaráðherra þann tíma. Hann var víðsýnn stjórnmálamaður og breytti miklu í þeim afdankaða og þröngsýna viðskiptaheimi, sem áður réði flestu hér á landi. Hann barðist fyrir auknu alþjóðasamstarfi á sviði viðskipta og menningar og á heiðurinn af mikilvægum breytingum til opnara og virkara samfélags, þjóðinni til mikilla hagsbóta. Meðal annars barðist hann fyrir aðild Íslands að GATT og EFTA og þurfti þá að standa undir þunga harðrar gagnrýni og flóðs köpuryrða andstæðinga aðildarinnar.

Gylfi var formaður Alþýðuflokksins á árunum 1968 til 1974, en á starfstíma sínum var flokkurinn í meira en helmingi ríkisstjórna landsins. Mest fór þó fyrir samstarfi flokksins við Sjálfstæðisflokkinn í svonefndri Viðreisnarstjórn 1959 til 1971. Hið langa stjórnartímabil helgaðist af trausti og vináttu forystumanna flokkanna, en Viðreisn hefur verið talin með merkari ríkisstjórnum. Í lok Viðreisnar kom tímabil, sem var Alþýðuflokknum og Gylfa mjög erfitt. Flokkurinn naut ekki samstarfsins né verka sinna.

Jafnaðarstefnan var hinn pólitíski grundvöllur í lífsstarfi Gylfa. Árið 1977 gaf Almenna bókafélagið út bókina Jafnaðarstefnan eftir Gylfa. Sú bók hefur verið minn leiðarvísir í stjórnmálavafstri. Í aðfaraorðum segir Gylfi m.a.:

„Kjarni jafnaðarstefnu er frelsi og jafnrétti, skilyrði og skylda ríkisvaldsins til að tryggja öllu vinnufæru fólki rétt til vinnu, sem og þeim, sem af einhverjum ástæðum geta ekki aflað sér nægilegra tekna, öruggrar afkomu, jafnframt því, að samfélagið eigi að efla heilbrigði og hjálpa sjúkum, tryggja menntunarskilyrði og aðstöðu til farsæls lífs... Skilningur á því, að þjóðmálastefnur, og þar á meðal félagshyggja og jafnaðarstefna, eru ekki vísindi, heldur grundvallast á hugsjónum, sem tengdar eru siðgæðismati, er undirstaða skynsamlegrar skoðanamyndunar í þjóðfélagsmálum.“ – Þessi orð hans eiga mikið erindi við nútímann.

Minning mín um Gylfa er sveipuð aðdáun og kærleika til manns, sem reyndist mér vel, var yfirburðamaður sakir menntunar og þekkingar, siðfágaður fulltrúi menningar, og hafði það að markmiði að bæta kjör þjóðarinnar á grundvelli frelsis og jafnréttis. – Fáum jafningjum hans hefi ég kynnst. Megi minning hans lengi lifa.

 

Árni Gunnarsson

Höfundur er fyrrverandi alþingismaður.

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30