A A A
  • 2012 - Freyja Dís Hjaltadóttir
13.01.2017 - 08:14 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Komedia,Björn Ingi Bjarnason

-Það erfiðasta sem ég hef gert-

Elfar Logi Hannesson sem Gísli á Uppsölum.
Elfar Logi Hannesson sem Gísli á Uppsölum.

• Kómedíuleikhúsið sýnir Gísla á Uppsölum í Kúlunni • Leiktextinn byggir að mestu á skrifum Gísla sjálfs

„Við höfum oftast litið á landsbyggðina sem okkar vettvang og sýnt vítt og breitt um landið. Okkur fannst hins vegar nauðsynlegt að kíkja í kaupstaðinn og sendum Þjóðleikhúsinu fyrirspurn um hvort menn þar á bæ hefðu áhuga á að hýsa sýninguna í ljósi þess hversu margir í Reykjavík væru að spyrja um sýninguna. Svarið reyndist já og hingað erum við komnir,“ segir Elfar Logi Hannesson forsprakki Kómedíuleikhússins á Ísafirði, um leiksýninguna Gísli á Uppsölum sem tekin verður til sýningar í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu í kvöld kl. 19.30. Alls verða sýndar sex sýningar á einleiknum til og með 25. janúar og eru miðar seldir á vefnum tix.is.

Gísli á Uppsölum er 40. uppfærsla Kómedíuleikhússins, fyrsta atvinnuleikhússins á Vestfjörðum, á tæplega 20 árum, en Kómedíuleikhúsið var stofnað 1997. Sýningin var frumsýnd í lok september sl. í kirkjunni í Selárdal, þaðan sem horfa mátti heim að söguslóðum á Uppsölum og hefur þegar verið sýnd um tuttugu sinnum víðs vegar um landið. Elfar Logi leikur einbúann Gísla Oktavíus Gíslason, en hann skrifaði handritið í samvinnu við leikstjórann Þröst Leó Gunnarsson. Dramatúrg sýningarinnar er Símon Birgisson, tónlistina samdi Svavar Knútur og lýsingu hannaði Magnús Arnar Sigurðsson en útlit sýningarinnar var í höndum Elfars Loga og Þrastar Leós.

 

Langur meðgöngutími

„Hugmyndin að þessari uppfærslu kemur frá Þresti Leó leikstjóra. Hann var búinn að láta sig dreyma um það í mörg ár að gera sveitunga sínum úr Bíldudal einhver skil, helst á leiksviðinu. Þar sem ég er líka frá Bíldudal þótti upplagt að við legðum saman list okkar og byggjum til leikverk um þennan frægasta son Arnarfjarðar,“ segir Elfar Logi, en Gísli á Uppsölum er fyrsta samstarfsverkefni þeirra félaga. „Þó að við Þröstur Leó séum báðir frá Bíldudal höfum við aldrei unnið saman fyrr en nú. Við höfum hins vegar rætt um það á hverju kenderíi frá því ég útskrifaðist sem leikari 1997 að vinna saman,“ segir Elfar Logi og bendir á að góðir hlutir gerist hægt. „Við erum strax byrjaðir að leggja drög að næstu sýningu saman. Það er ekki seinna vænna að fara að skipuleggja það þegar meðgöngutíminn er þetta langur,“ segir Elfar Logi kíminn.

Að sögn Elfars Loga tóku þeir Þröstur Leó sér góðan tíma til að þróa handritið að sýningunni. „Við vissum að þetta yrði viðkvæmt efni. Gísli er þjóðinni mjög hugleikinn. Fólki þykir verulega vænt um hann og er jafnframt forvitið um sögu hans. Þegar það fór að kvisast út að við værum að vinna sýningu um Gísla heyrðum við ýmsar áhyggjuraddir þar sem fólk óttaðist að við ætluðum að gera grín að honum – sem er alls ekki reyndin. Við gerum þetta af mikilli væntumþykju, enda berum við gífurlega mikla virðingu fyrir honum. Þetta er enginn farsi – frekar þriggja vasaklúta verk,“ segir Elfar Logi og tekur fram að ætlunin hafi samt verið að segja sögu Gísla án þess að draga neitt undan.

 

Þrír staksteinar verksins

„Um 94% leiktextans byggja á orðum Gísla sjálfs, því eftir að hann féll frá kom út lítið rit með ýmsum skrifum sem hann hafði verið að dútla við alla ævi. Þetta fannst hér og þar á ýmiss konar bréfasnifsum og inni í bókum, s.s. ljóð, æskuminningar, móðurminning og bókadómar,“ segir Elfar Logi og vísar þar til bókarinnar Eintal sem út kom 1987 ári eftir andlát Gísla.

Að sögn Elfars Loga má segja að í einleiknum séu þrír staksteinar. „Fyrst ber að nefna hið heiftarlega einelti sem hann varð fyrir í æsku og mótaði ævi hans. Því næst er það höfnunin, en stúlkan sem hann elskaði hryggbraut hann. Loks er það loforðið sem hann gaf mömmu sinni. Þegar hann vildi fara suður að mennta sig bað mamma hans hann að skilja sig ekki eina eftir og hét hann því að fara hvergi, sem hann stóð alla tíð við og var í sinni sveit alla ævi,“ segir Elfar Logi og bendir á að Gísli hafi skrifað af miklu innsæi og á heimspekilegum nótum um stöðu sveitarinnar. „Þegar hann er að alast upp bjuggu hundrað manns í Selárdal, en þegar hann er kominn á efri ár voru aðeins þrír bæir í byggð og brátt fóru tveir þeirra í eyði. Hann skilur það vel að æskan vilji fara suður, enda vildi hann það sjálfur.“

 

Átakanlega mikil saga

Inntur eftir því hvort það taki á að túlka Gísla á leiksviðinu svarar Elfar Logi því játandi. „Það er alveg óhætt að segja að þetta er það erfiðasta sem ég hef nokkurn tímann gert. Yfirleitt, og eftir því sem maður eldist, fer mörinn að leka af manni þegar maður leikur. Gísli hafði hins vegar allan sinn tíma og því er þetta engin fimleikasýning. Í þessari sýningu er það sálin sem er þreytt, því maður er andlega þreyttur eftir hverja sýningu. Þetta er mikil og átakanleg saga,“ segir Elfar Logi og bendir á að boðið sé upp á umræður að loknum öllum sýningum, en leikurinn tekur um 50 mínútur í flutningi. „Umræðurnar hafa gefist vel. Sýningin veltir upp mörgum spurningum og getur verið býsna erfið. Ég er því alls ekkert móðgaður þó að áhorfendur klappi ekki. Þetta er bara þannig stund.“

 

Morgunblaðið  13. janúar 2017.


« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30