A A A
  • 1949 - Guðberg Kristján Gunnarsson
  • 1962 - Unnur Cornette Bjarnadóttir
23.05.2014 - 22:29 | Hallgrímur Sveinsson og Bjarni Georg Einarsson

„Viljið þið gefa mömmu í soðið?“

Hallgrímur Sveinsson.
Hallgrímur Sveinsson.
« 1 af 2 »
Útgerðarmenn eins og Einar Guðfinnsson, Einar Sigurðsson ríki, Tryggvi Ófeigsson og Óskar Halldórsson, svo nokkrir séu nefndir, eru þekkt nöfn í útgerðarsögu landsins. Þetta voru menn sem kölluðu ekki allt ömmu sína. Þeirra barátta fór fram í bönkunum frá morgni til kvölds. Það var ekki alltaf dans á rósum. En þeir höfðu ekki einkarétt á óveiddum fiski í sjónum eins og kollegar þeirra í Landssambandi íslenskra útvegsmanna í dag. Þeir voru ekki gulltryggðir eins og margir kvótagreifar dagsins. Vel má segja að þessir kallar í L. Í. Ú. eigi allt gott skilið. En lögverndaður réttur þeirra til að selja óveiddan fisk í sjónum ef og þegar þeim hentar er einsdæmi í Íslandssögunni. Þetta er algjörlega óskiljanlegt og óásættanlegt hvernig sem á er litið. Þýðir einfaldlega að þessir menn ráða því að mörgu leyti hvar byggð skal haldast á Íslandi. Þetta er augljóst öllum sem vilja sjá, nema svokölluðum ráðamönnum þjóðarinnar. Þeir hvorki sjá eða skilja. En að rífast um keisarans skegg. Það kunna þeir.


Kílóið af óveiddum fiski á 2,500,- kr.

Án nokkurs kinnroða hefur útgerðaraðall landsins selt óveiddan fisk í sjónum fyrir jafnvel milljarða og farið með þá peninga burt á bakinu í sekkjum, ef svo mætti segja. Beint fyrir framan nefið á saklausum sérfræðingum í fiskvinnslu í frystihúsunum og einhverjum duglegustu sjósóknurum í heimi hér, sem við það hafa misst frumburðarrétt sinn. Margir Vestfirðingar hafa ekki látið sitt eftir liggja í þeim gráa leik. Og nýjasta dæmið eru hjón í Hafnarfirði sem eru alls góðs makleg. Þau hafa staðið vaktina. En að þau eigi að fá að setjast í helgan stein með marga milljarða króna í veskinu fyrir óveiddan fisk í hafinu umhverfis Ísland er óskiljanlegt þeim sem ekki hafa gáfur umfram meðallag. Í dag er þorskígildi á óveiddum fiski virt á 2,500,- kr. kílóið. Það þýðir að útgerðarmaður með bréf frá stjórnvöldum upp á 1000 tonna einkarétt, getur selt þau á tvö þúsund og fimm hundruð milljónir -2.500,000,000,- króna. Er eitthvert vit í þessu?


Með pálmann í höndunum

Fjöldi útgerðarmanna, sem komust yfir togara á sínum tíma, þurftu ekki að hætta sínu eigin fé. Þeir fengu lánað nær til fulls fyrir kaupunum úr opinberum sjóðum og veðin voru aðeins í skipunum sjálfum. Útgerðarmenn höfðu því engu að tapa. Nokkrum árum síðar voru þessir sömu menn, sem ekki hættu eigin fjármagni nema að litlu leyti til kaupa á skipum, taldir sjálfsagðir handhafar, ef ekki eigendur kvótans þegar hann kom til sögunnar. Þá voru rökin þau að þeir hefðu með eigin dugnaði, fjármagni og fórnarlund dregið fiskinn úr sjó og fært hann á land áratugum saman.


Nýjar tillögur á grunni þeirra gömlu

Steingrímur Hermannsson var sjávarútvegsráðherra í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen 1980-1983. Hann fékk Vestfirðinginn og reynsluboltann Baldur Jónsson frá Aðalvík sér til aðstoðar. Þeir settu saman tillögur um nýtt kerfi í fiskveiðistjórnun. Grundvöllur þess var að það leiddi ekki til byggðaröskunar. Kvótanum átti að deila á milli fiskvinnsluhúsa, skipa og báta á hverju tilgreindu svæði. Sem sagt beint til fólksins á viðkomandi stað. Fólksins sem hafði lifað á fiski frá upphafi byggðar í landinu. Ekki skipti máli hvar fiskinum yrði landað innan hvers löndunarsvæðis. Innan þess mátti jafnframt framselja hann milli fiskverkenda og báta. Innan hvers svæðis áttu heimamenn sjálfir að sjá um stjórn á veiðunum í umboði og undir stjórn sjávarútvegsráðuneytisins. Því miður báru menn ekki gæfu til að fara eftir þessum tillögum þeirra Steingríms og Baldurs. Innan örfárra daga munum við undirritaðir leggja fram björgunartillögur til umræðu, sem byggja á tillögum þeirra á sínum tíma.


Rússneska byltingin og L. Í. Ú.

Rússneska byltingin hefði aldrei orðið ef aðallinn hefði gefið tommu eftir og alþýða manna fengið nokkrum brauðhleifum meira til að drepast ekki úr hungri. Hvað þá heldur að hleypa fólkinu að kjötkötlunum hjá sér. Það mátti náttúrlega alls ekki. Græðgin réði sem fyrr og síðar. Þeir sem hafa fengið frumburðarrétt þjóðanna upp í hendurnar gefa yfirleitt aldrei tommu eftir fyrr en of seint. Þeir þekkja yfirleitt ekki sinn vitjunartíma.


Stefán Jónsson fréttamaður segir frá ýmsum karakterum á Djúpavogi í uppvexti sínum í bókinni Að breyta fjalli. Einn þeirra var Karl Steingrímsson, alþýðuspekingur mikill. Hann hefði þess vegna getað verið alinn upp undir vestfirskum fjöllum sem austfirskum. Hann sagði, að sögn Stefáns, að allt fólkið í landinu ætti fiskimiðin og hlutdeild í aflanum. Allir þeir sem vinna við að ná honum og koma honum í verð. Karl sagði einnig að þegar menn eignuðust of mikið af peningum, þá yrði ágirndin svo mikil, að þeir réðu ekki lengur við hana. Þess vegna yrði að koma í veg fyrir að einstöku menn yrðu of ríkir.


„Viljið þið gefa mömmu í soðið?“

Það er mikið vatn til sjávar runnið síðan Óskar Jóhannsson, kaupmaður í Sunnubúðinni, var að alast upp í Bolungarvík á kreppuárunum. Þá var það soðningin sem hélt lífi í fólkinu. Vá fyrir dyrum ef ekki gaf á sjó kannski vikum saman. Móðir Óskars sendi hann oft niður á bryggju. „Viljið þið gefa mömmu í soðið,“ sagði hann við sjómennina. Ekkert var sjálfsagðara. Samhjálpin í verki. Þessir karlar þekktu það á eigin skinni þegar ekkert var til að setja í pottinn.


Nú er það stóra spurningin hvort kvótagreifarnir á Íslandi vilja gefa mömmu í soðið. Vilji þeir það ekki, þekkja þeir ekki sinn vitjunartíma frekar en rússneski aðallinn. Það mun hafa slæmar afleiðingar fyrir þá.

Hallgrímur Sveinsson og Bjarni Georg Einarsson

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31