A A A
01.11.2018 - 09:39 | Bjarni Georg Einarsson,Guðmundur Ingvarsson,Hallgrímur Sveinsson

Við þurfum nýjar uppfærslur og önnur sjónarhorn fyrir byggðir Íslands

Löngu er kominn tími til að við lítum á land okkar sem eina heild. Smákóngahugsunarhátturinn ætti að tilheyra fortíðinni. Við félagarnir höfum gerst svo djarfir að benda á, að 100 milljarðar í stórtækar, almennar byggðaaðgerðir á ári í 5 ár, myndu breyta miklu fyrir landsmenn alla. En hvar á að taka þá peninga? Nefna má eftirfarandi leiðir:

  
1. Ríkissjóður gefi út 73 milljarða afborgunarlaus skuldabréf á ári næstu fimm ár með hefðbundnum vöxtum. Gott fyrir þá sem eru að ávaxta fé almennings. Lánið endurgreiðist með vegasköttum og gjöldum sem lagðir eru á umferðina næstu 30 ár eftir að afborganir byrja. Í ár er reiknað með allt að 80 milljarða skattlagningu á þeim bæ. Um það bil helmingur af því fer í annað en umferðarmál. Þá skattheimtu þarf bara ekkert að hækka til að greiða umrædd skuldabréf. En Alþingi verður að dusta rykið af vitleysunni á móti á fjárlögum og hefur til þess 30 ár. Alþingi verður sem sagt að forgangsraða! = ca. 365 milljarðar. 


2. Hlutur ríkisins í Íslandsbanka verði seldur. Raunhæft verð, varlega áætlað af sérfræðingum, 130-140 milljarðar. = ca.135 milljarðar.

Alls 500 milljarðar sem komi til viðbótar núverandi framlögum í 4 málaflokka.

 


Hvað á að gera við alla þessa peninga?


1.
Samgöngur á landi. Heilsárssamgöngur á landi eru grundvallaratriði fyrir allar byggðir landsins. Allir ættu að komast akandi þangað sem þeir vilja fara ef veður leyfir, hvenær sem er. Það myndi gjörbreyta flestu hér á landi. Þarf ekki að hafa um það fleiri orð.


2. Heilbrigðisþjónusta sem dugar. Allir geti fengið lækningu og fyrirbyggjandi heilsueftirlit í heimabyggð sé þess kostur. Hver einasti landsmaður hafi sinn héraðs-eða heimilislækni líkt og var áður. Margt bendir til að við þurfum að stórefla þetta kerfi, þó margt sé vel gert í dag. Á tímum einsemdar, einmanaleika, stofnanavæðingar og firringar þarf að hefja persónuleg tengsl upp á nýtt plan.  


Virkt og rétt stillt heimilislæknakerfi, þar sem mannleg fyrirgreiðsla er í öndvegi, getur sinnt 95 prósent þess vanda sem leitað er með til heilsugæslu segja þeir sem vit hafa á. Svo tekur við þegar nauðsyn krefur allt það yndislega fólk sem vinnur á spítölum. Enginn ætti að verða úti í okkar góða heilbrigðiskerfi. Það hlýtur að vera grundvöllurinn.

3. Öruggt rafmagn. Allir íbúar landsins geti stólað á rafmagn frá samveitum allan sólarhringinn árið um kring. Langtímamarkmið að allar raflínur fari í jörð.

4. Örugg nettenging um land allt. Menn geti unnið við tölvuna sína hvar sem er og hvenær sem er á mesta mögulega hraða. Ljúka verkinu strax.

 

Loforð fyrir kosningar = Svik eftir kosningar

Sérfræðingar munu auðvitað hlægja þessar tillögur út af borðinu. Við því er ekkert að segja. Hláturinn lengir lífið! Engum er ljósara en sveitamönnunum að það eru veikir punktar í málflutningnum. En það breytir því ekki, að við þurfum nýjar uppfærslur á hagsmunum heildarinnar. Tillögur okkar verður að skoða í því ljósi. Og formúla stjórnmálamanna Loforð fyrir kosningar = Svik eftir kosningar er bara orðin ga-ga eins og unga fólkið segir.

Við verðum að hætta lobbýismanum og skæklatoginu. Nýi bæjarstjórinn byrjar að heimta af ríkinu áður en hann mætir á skrifstofuna. Sennilega fer meira en helmingur af vinnutíma hans allt kjörtímabilið í að heimta fyrir bæinn sinn. Allan andskotann svo sterkt sé að orði kveðið. Við þurfum vegspotta hér og vegspotta þar segir hreppsnefndin. Svo þurfum við að fá heflað. Það er hola, hola hola. Við þurfum bundið slitlag þar. Við þurfum að færa opinber störf út á landsbyggðina. Við verðum að fá þennan skóla til okkar. Við verðum að fá léttan iðnað. Þannig endalaust frá morgni til kvölds. Sem er auðvitað allt 100% satt og rétt. Menn verða að láta vita af sér. En vinnubrögðin eru kolvitlaus!

 

Hvað kostar vitleysan á þjóðhagslegum grunni?

 

Við verðum að biðja einhverja góða sérfræðinga að reikna út hvað vitleysan kostar á þjóðhagslegum grunni. Til dæmis vin okkar Vilhjálm Bjarnason. Hvað kosta í beinum peningum allar suðurferðirnar á fundina og ráðstefnurnar? Aðallega til að heimta hitt og þetta. Erlendu álitsgjafarnir. Og fundirnir í heimahéraði. Jepparnir og uppihaldið. Endalausar skýrslur. Og ályktanir um það sem allir vita. Og allar nefndirnar? Endalaus lobbyismi. Þrýstihópar og málafylgjumenn. Og allar fréttastofurnar og fréttamennirnir sem eru sólarhringinn út að segja frá kvabbinu í okkur. Og getur það verið að helmingur af vinnutíma allra forsvarsmanna sveitarfélaga fari í að heimta? Við höfum ekki þrek til að ræða eftirlitsiðnaðinn sem Alþingi hefur komið upp. Og varla þrek til að nefna að sennilega fer meira en helmingur af vinnutíma Alþingis út um gluggann fyrir framan styttuna af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli vegna atkvæðahræðslu.   

Nei, þessi vinnubrögð eru löngu gengin sér til húðar. Nú þurfum við stórhug, festu, djörfung, kjark og dug. Dustum vitleysuna burt! 

  

   

« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30