A A A
19.12.2015 - 14:12 | Hallgrímur Sveinsson,Guðmundur Ingvarsson,Bjarni Georg Einarsson

Við þurfum jafnvægi í byggð landsins og ekkert múður, Vilhjálmur

Hallgrímur er bókaútgefandi og léttadrengur á Brekku í Dýrafirði, - Bjarni er fv. útgerðarstjóri á Þingeyri og - Guðmundur er fv. stöðvarstjóri Pósts og síma á Þingeyri.
Hallgrímur er bókaútgefandi og léttadrengur á Brekku í Dýrafirði, - Bjarni er fv. útgerðarstjóri á Þingeyri og - Guðmundur er fv. stöðvarstjóri Pósts og síma á Þingeyri.

Vilhjálmur Bjarnason, aðjúnkt og alþingismaður, líklega Hornstrendingur í einn kantinn, skrifar stundum flottar greinar í Moggann. Þær er oft gaman að lesa. Um daginn skrifar hann um Samfélags hvað? Samfélagsbanki miðlar gæðum til gæðinga segir Villi. Hann heldur að slík stofnun muni gefa vondu köllunum peninga og ekki vera rekinn með hagnað í huga.

Kollegi Vilhjálms, Gísli Guðmundsson, fann upp hugtakið jafnvægi í byggð landsins fyrir mörgum áratugum. Ýmsir höfðu þetta að skotspæni að ófyrirsynju og hentu jafnvel gaman að. Þetta má vel rifja upp því stór hluti þjóðarinnar vill einmitt slíkt jafnvægi, en ekki bara að allir kúldrist í Stór-Reykjavík. Spyrja má: Væri ekki upplagt að Landsbankinn hefði það hlutverk eitt að stuðla að jafnvægi í byggð landsins? Við eigum öll þennan banka saman, eða svo er sagt. Af hverju ekki að hafa sparisjóðina sem fyrirmynd að slíkri lánastofnun, Vilhjálmur? Hvaða goðgá er það?

 

Hverju er bankinn að tapa?

Við könnumst við orðið hagræðing. Mikil hagræðing hefur til dæmis orðið innan bankakerfisins með svonefndum heimabanka. Það vita allir. En þeim sem ekki hafa slíkt apparat í höndum er bara hagrætt út af borðinu. Til dæmis 1/3 íbúanna í Dýrafirði, sem margir eiga háar upphæðir í bankanum sínum.

Fróðir menn segja að vaxtamunur á Íslandi í dag sé 5% til 6%. Jæja. Setjum sem svo að Dýrfirðingar eigi 500 milljónir króna sem Landsbankinn er að sveitast í að ávaxta fyrir þá. Ef við miðum við 5% vaxtamun þá er bankinn að hala inn á Dýrfirðingum 25 milljónir. Ef við miðum við 1.000 milljónir, sem er nú satt að segja líklegri tala, fær hann 50 milljónir fyrir snúð sinn. Miðað við sömu forsendur og talnaleik með fyrirvara. Svo segist bankinn tapa á Dýrfirðingum. Gaman væri að sjá það tap sundurliðað. En trúlega fellur það undir svokallaða bankaleynd! Svo er auðvitað mikil þjóðhagsleg hagræðing fólgin í því að aka 100 km leið ef menn vantar skotsilfur. Kannski í snarvitlausu veðri og ófærð. Við sveitamenn höfum ekki gáfur til að skilja slíka ofurhagræðingu. Lái okkur hver sem vill.

 

 

Hagræðing og hagvöxtur eru skemmtileg orð

Með viku fyrirvara er ákveðið að skella í lás á Þingeyri og reyndar Suðureyri og Bolungarvík líka án þess að tala við nokkurn mann. Svo neyðist bankinn eftir á til að opna eina klukkustund í viku, þegar hann sér hve vitlaust þetta er. Þetta eru náttúrlega stórmerkilegir starfshættir hjá almannafyrirtæki. Allt í nafni hagræðingar. Já, hagræðing og hagvöxtur. Skemmtileg orð. Skyldi þetta vera arðbært? Það er hin klassíska spurning. En jafnvægi í byggð landsins? Má ekki. Það á að flytja þetta lið eins og það leggur sig á mölina. Miklu ódýrara. Það væri sko hagræðing í lagi!

 

Enginn banki – engin byggð

Það er ekki nokkur maður að tala um að þessi blessaði banki eigi að beygja sig í duftið fyrir einhverja móhíkana, gamalmenni og útlendinga í fiskvinnslu vestur á fjörðum og gefa þeim peninga. En hann á að sýna þessum eigendum sínum og viðskiptavinum virðingu og koma fram við þá á mannlegan hátt. Hafa opið tvisvar-þrisvar í viku. Og ekkert vesen. Við erum að tala um góða viðskiptavini sem sumir eiga tugi milljóna inni í bankanum sínum. Það hljóta m.a. að vera slíkir hlutir sem menn eiga við með orðinu samfélagsbanki. En ef meiningin er að allir flytji til Reykjavíkur þá þurfum við náttúrlega engan slíkan samfélagsbanka. Enginn banki, engin byggð. Kannski það sé handan við hornið?

 

Aumingjarnir í krummaskuðunum geta bara farið suður

Þegar Matthías Bjarnason var viðskiptaráðherra 1986 veitti hann bönkunum harðar átölur vegna hækkana þeirra á þjónustugjöldum. Hann harðbannaði þeim að hækka þau gjöld á almenning. Þá kom verkalýðsforystan og færði kallinum blómvönd. Í dag taka ráðherrar ekki af skarið í einu eða neinu. Þess vegna er traustið í lágmarki.

Það var aldrei svo lélegt pláss í Villta Vestrinu að ekki væri þar lítilsháttar bankaþjónusta. Og er kannski enn. En vondu kallarnir og kellíngarnar úti á landi á Íslandi mega ekki hafa smá bankaholu hjá sér. Nú skal hagræða svo hinir stóru geti orðið stærri. Græða meira og verða ríkari! En aumingjarnir í krummaskuðunum geta bara farið suður.


Hallgrímur er bókaútgefandi og léttadrengur á Brekku í Dýrafirði, Bjarni er fv. útgerðarstjóri á Þingeyri og Guðmundur er fv. stöðvarstjóri Pósts og síma á Þingeyri.

 

Morgunblaðið föstudagurinn 18. desember 2015

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31