A A A
  • 1997 - Ragnhildur Anna Ólafsdóttir
  • 2000 - Andrea Sif Bragadótir
30.12.2008 - 11:48 | Hallgrímur Sveinsson

Þrír leigubílstjórar í Washington

Hallgrímur Sveinsson
Hallgrímur Sveinsson
Síðla á síðasta sumri átti undirritaður þess kost að ferðast til Bandaríkjanna í fyrsta sinn, sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi. Hitt mundi þykja nokkurrar frásagnar vert að við félagarnir hittum á tveimur dögum þrjá afríska leigubílstjóra undir stýri í höfuðborginni Washington D. C. sem allir höfðu komið til Bandaríkjanna á s. l. 20-25 árum beint úr svörtustu Afríku eins og sagt er. Til gamans skal þess getið, að í þessari stórkostlegu höfuðborg virðast margir leigubílar vera ekki undir 10 til 15 ára gamlir japanskir bílar, Toyota o. s. frv. og þaðan af eldri og þætti ekki boðlegt í henni Reykjavík í dag. Þetta eru hálfgerðar druslur eins og sagt er. En það er önnur saga.

Þessir þrír áðurnefndir höfðu í sitt hvoru lagi sögu að segja, sem vel má rifja hér upp. Sá fyrsti sagði okkur félögum að hann væri frá Darfur í Sudan. Rakti hann í stuttu máli allar þær hörmungar sem þar hafa dunið yfir. Sá annar sagðist vera frá nágrannalandinu, Eþiópíu. Hann vissi margt um sögu lands síns, keisarann Haile Selassie o.s.frv. Það kom blik í augu hans þegar við spurðum hann um héraðið Konsó. Þá spurði hann hvaðan við værum. Við sögðum honum það. Kom þá upp úr dúrnum að hann ólst upp í þeim hluta landsins og hafði notið góðs af ótrúlegu starfi íslensku þjóðkirkjunnar og kristniboðanna þar.

Sá þriðji sagðist vera frá Nígeríu, hins vegar í Afríku, Atlantshafsmegin. Við spurðum hvort hann kannaðist við héraðið Biafra. Leit hann þá á okkur stórum augum sínum og sagðist einmitt vera frá þeim slóðum ættaður. Hvaðan eruð þið? Hefur þú nokkurn tíma heyrt talað um hershöfðingjann Ojukwu? Það gat nú verið. Hann hafði þá verið hermaður í frelsisher hans, ungur maðurinn og tekið þátt í hinu hörmulega Biafrastríði, þar sem rúmar tvær milljónir Biaframanna, aðallega konur, börn og gamalmenni, eins og fyrri daginn, létu lífið.

Stórmerkilegt þótti okkur þegar hann sagðist muna eftir loftbrúnni frá eyjunni Sao Tomé undan strönd Afríku þar sem nokkur flugfélög höfðu aðstöðu og flugu hjálparflug til Biafra með matvæli, þar á meðal íslenska skreið og önnur hjálpargögn til sveltandi fólks hans. Þar var fremst í flokki flugfélagið Flughjálp á vegum íslensku þjóðkirkjunnar og fleiri norrænna kirkjudeilda sem höfðu í þjónustu sinni stórar flutningavélar þess tíma. Höfðu þeir aðeins mjóan veg sem flugbraut en björguðu samt hundruðum þúsunda frá hungurdauða. Þar komu margir hugdjarfir Íslendingar við sögu, meðal annarra Þorsteinn E. Jónsson flugstjóri, sem var í forystu á staðnum og Sigurbjörn Einarsson biskup á heimaslóðum.

Svona er heimurinn lítill þegar allt kemur til alls. Og þjóðkirkjan okkar merkileg stofnun.
« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30