A A A
  • 1922 - Guðmundur Magnússon
  • 1942 - Sigurður Jónsson
Fjórir Gosamenn sem allir gerðu garðinn frægan í því félagi. Þeir sitja að spilum í Félagsheimilinu á Þingeyri. Miklir spilamenn og karakterar hver á sinn hátt. Frá vinstri. Gunnar Jóhannesson, Davíð H. Kristjánsson,  Guðmundur Friðgeir Magnússon og Tómas Jónsson.  Þessir heiðursmenn eru allir látnir. Ljósm. H. S.
Fjórir Gosamenn sem allir gerðu garðinn frægan í því félagi. Þeir sitja að spilum í Félagsheimilinu á Þingeyri. Miklir spilamenn og karakterar hver á sinn hátt. Frá vinstri. Gunnar Jóhannesson, Davíð H. Kristjánsson, Guðmundur Friðgeir Magnússon og Tómas Jónsson. Þessir heiðursmenn eru allir látnir. Ljósm. H. S.
« 1 af 4 »

 Aðalfundur Bridgefélagsins Gosa á Þingeyri fyrir nokkur ár var haldinn í Burstabæ Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri 22. júní 2001. Var hann fjölsóttur af báðum kynjum og þótti rart, þar sem aðeins ein bridgekona, Guðrún Bjarnadóttir húsfreyja á Dýrhól, telst virk á Þingeyri í dag og var hún á fundinum með mikinn, svartan hatt, samkvæmt New York tísku og vakti mikla lukku. Gosi er elsta starfandi bridgefélag á Vestfjörðum og þykir því hlýða að skýra nokkuð frá þessum merka aðalfundi félagsins.

   Áður en fundurinn hófst lék Sigurður G. Daníelsson safnvörður nokkrar rómantískar ballöður á píanó og féllu þá sumir í trans en aðrir létu sér fátt um finnast. Léttadrengur staðarins flutti síðan stutta hugvekju um Grelöðu og Án rauðfeld, mann hennar og  Hrafn Sveinbjarnarson. Að því loknu var gengið til fundarstarfa og kaffidrykkju.

   Davíð H. Kristjánsson, ritari, flutti viðamikla skýrslu stjórnar og kom þar fram að stjórnin hafði starfað alveg eins og vant er og voru sumir fundarmenn engu nær. Fráfarandi formaður, Tómas Jónsson, hafði safnast til feðra sinna á starfstímabilinu og er hans sárt saknað, en gjaldkerinn, Guðmundur Friðgeir Magnússon, var auðvitað á sjó, en sendi Davíð með hinn digra sjóð félagsins á staðinn, svo hann gæti borgað fyrir kaffið. Samþykkt var að senda gjaldkeranum væna sneið af tertunni sem húsfreyjan í burstabænum bar fram með kaffinu. Síðan hneygði ritarinn sig fyrir sína hönd og annarra stjórnarmanna sem ekki gátu verið viðstaddir.

    Sigfús Jóhannsson, aðal framkvæmdastjóri félagsins, tók síðan til máls. Kom fram, að hann hafði starfað mikið fyrir félagið þegar hann var á Flæmska hattinum og eins þegar hann fraus inni í ísnum á skipi sínu í vetur við Nýfundnaland. Var þá spilað bridge frá morgni til kvölds.

   Fram kom, að tveir félagar úr Gosa hefðu farið fyrir nokkrum árum á Íslandsmót á Hótel Sögu. Vantaði þá bara einn slag til að komast áfram í úrslitin. Nóttina eftir vafraði annar þeirra um ganga hótelsins og tautaði fyrir munni sér:

  "Það vantaði bara einn, það vantaði bara einn", en hinn félaginn fór og fékk sér einn tvöfaldan. 

  Var nú gengið til stjórnarkjörs. Davíð og Guðmundur Friðgeir hafa nú setið í stjórn Gosa uppundir fimmtíu ár og þurfti því ekki að kjósa þá, þar sem stjórnarmenn eru kosnir ævilangt í félaginu. Torfi Bergsson á Felli var kosinn formaður eftir harðan kosningaslag þar sem gekk á ýmsu. Flutti hann síðan tölu, þar sem fram kom að hann mundi vinna baki brotnu að málefnum félagsins í framtíðinni. Var Gosalagið þvínæst blístrað.

  Sigfús Jóhannsson var endurráðinn aðal framkvæmdastjóri þó að vitað væri að hann væri fluttur af félagssvæðinu. Þótti það ekki tiltökumál, þar sem hann gæti fjarstýrt málefnum félagsins utan af sjó í gegnum Netið. Einnig væri líklegra að hann flytti aftur á félagssvæðið ef hann hefði ákveðið embætti til að hverfa að.

  Að aflokum fundarstörfum settust fundarmenn á orkusteininn á Hrafnseyri, en eins og alkunnugt er fyllast allir þeir sem á steininn setjast mikilli orku til kvenna og annarra góðra hluta. Davíð ritari fór bæði úr sokkum og skóm til að komast í betra jarðsamband og er það samkvæmt ritúalinu, en hinn nýkjörni formaður reiknaði með miklum afrekum þegar hann kæmi heim til spúsu sinnar, sem reyndar var einnig á fundinum.   
 

                  (Frá Bjargtöngum að Djúpi, Nýr flokur, 1. bindi, 2008) 

« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31