A A A

Sarah Maloney er hugmyndarík og ævintýragjörn ung listakona sem hefur síðustu vikur dvalið á Þingeyri og unnið að annari teiknimyndaskáldsögu sinni, en sú fyrsta kom út í desember 2017.

Teiknimyndaskáldsögur eru skáldverk sem eru teiknuð og bera mörg einkenni skáldsagna; hafa upphaf, ris og endi, eru novellur eða sögur í fullri lengd, og geta t.d. verið sagnfræðilegar eða sjálfsævisögulegar. Þær skera sig þannig á afgerandi hátt frá teiknimyndasyrpum eða blöðum sem eru framhaldssögur sem byggðar eru upp til krækja í lesandann og ýta undir áhuga fyrir framhaldi í næsta blaði.*

 

Teikning hefur ávallt skipað stóran sess í lífi Söruh en hún hefur frá unga aldri leikið sér við teikningar heimavið sem og í skólanum en aðeins ómarkvisst og mest gert til dundurs og dægrastyttingar. Sarah er einnig mikil áhugamanneskja um bókmenntir, en hún lauk námi enskum bókmenntum og spænsku frá háskóla í heimabæ sínum, Seattle á austurströnd Bandaríkjanna. Það var ekki fyrr en að loknu námi sem henni hugkvæmdist að vinna meira með hæfileika sína og leiða saman þessa tvo hesta, teikningar og sagnagerð. Þá var hún stödd í Seúl í Kóreu en þangað fór hún á vit ævintýranna eftir háskólann. Í Seúl dvaldi hún í eitt ár og starfaði bæði sem enskukennari í leikskóla og grunnskóla. „Það er dásamlegt að búa í Kóreu, fleiri ættu að fara þangað. Það er ekki mjög dýrt að vera þar og maturinn ævintýralega góður“ segir Sarah. 

Sarah kunni því afar vel að kenna í Kóreu, komst vel af og hafði mikið listrænt frelsi í vinnunni en því fylgdi einnig mikið vinnuálag svo tíminn til að vinna að skáldsögunni var af skornum skammti. Hún hafði ekki hlotið neina eiginlega kennslu í teiknimyndagerð svo hún varð bara að prófa sig áfram. Hún teiknaði stakar myndir, skapaði persónur og vann að stuttri sögu sem gekk meira út á að þjálfa upp tækni fremur en að ná fullkomnun. Eftir árs dvöl sagði hún skilið við Kóreu og fór til Spánar. Þar vann hún sem aðstoðarkennari í ensku bæði í grunnskóla og háskóla milli þess sem hún nú nýtti tímann til að vinna að fyrstu teiknimyndaskáldsögunni í fullri lengd. Sú vinna bar loks ávöxt en í desember á síðasta ári kom verkið hennar We all fall down út.

Sarah hefur ferðast víða um heim, „mér finnst gaman að búa á mismunandi stöðum. Eitt af því sem mér líkar við að ferðast er áskorunin. T.d. það eitt að fara í matvöruverslun getur verið töluverð áskorun. Ég kann því vel, það er spennandi leið til að læra og tileinka sér ólíka hluti.“ Sarah leggur áherslu á að þetta sé lífstíll sem henti henni vel en það að búa erlendis segir hún geta haft marga stóra kosti í för með sér. „Í útlöndum eru sum hlutir auðveldari en heima, eins og sjúkratrygging. Í Kóreu og Spáni hafði ég sjúkratryggingu. Heima í Bandaríkjunum er sjúkratrygging mjög dýr. Ég þyrfti að fá mér fasta vinnu til þess að geta greitt svo háa upphæð og þá gæti ég ekki lifað þessu lífi sem ég lifi.“


Sarah hefur dvalið á Þingeyri í nokkrar vikur en hún sótti um listadvöl hjá Simbahöllinni að áeggjan vinkonu sinnar sem sjálf vann þar sem sjálfboðaliði fyrir tveimur árum síðan. Söruh hefur orðið vel ágengt með vinnu sína hér, enda kann hún ákaflega vel við fólkið og bæinn. „Ég vil þakka öllum þeim sem ég hef hitt á Íslandi. Fólkið hér er mjög gott og áhugasamt, það er gaman þegar fólk sýnir áhuga.“ Sarah segir að henni finnist best þegar hún ferðast að dvelja í svolítinn tíma á hverjum stað. „Maður eyðir meiri peningum, tíma og orku með því að hendast á milli staða yfir stuttan tíma, en með því að dvelja á stað til lengri tíma kynnist maður fólkinu og menningunni. Það besta við að ferðast er fólkið og maturinn“ segir Sarah en á Þingeyri hefur hún lagt sig fram við að kynnast fólkinu, sækja sundlaugina, og tók m.a. þátt í íbúaþingi á vegum verkefnisins Brothættar byggðir sem haldið var helgina 10.-11. mars síðastliðin.

Hún leggur nú upp í enn eitt ferðalagið er hún fer frá Íslandi því næsti viðkomustaður er Þýskaland. Sarah hefur einsett sér að ferðast um á milli listamannadvala í Evrópu þar til hún lýkur við teiknuðu skáldsögu sem hún vinnur að um þessar mundir.


*Þó teiknimyndaheimurinn sé allstór innan bókmenntanna má segja að teiknaðar skáldsögur tilheyri jaðarbókmenntum. Margir höfundar hafa kosið að miðla sögu á þennan hátt líkt og höfundurinn Marjane Satrapi en verk hennar Persepolis er sjálfsævisögulegt verk þar sem hún fjallar um barnæsku sína meðan á íslömsku byltingunni stóð og um lífið í Íran fram til upphafs fullorðinsáranna.

« Maķ »
S M Ž M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31