A A A
Guđný Gilsdóttir
Guđný Gilsdóttir
« 1 af 3 »

Sveinn Mósesson skrifaði eftirfarandi frásögn upp eftir Guðnýju Gilsdóttur frá Arnarnesi en þau voru náskyld eins og áður hefur komið fram. Segir hér frá sönglífi í Mýrahreppi um aldamótin 1900 en fjölskylda Guðnýjar var þar mjög liðtæk.

Nokkru fyrir aldamótin starfaði mest að söngmálum hér í sveit ungur búfræðingur, Kristinn Guðlaugsson að nafni. Það var þá margt ungt fólk hér í sveit og sæmilega sönghæft. Þá var stofnað „Söngfélag Mýrahrepps“. Það starfaði með góðum árangri í mörg ár. Olli þar mestu áhugi og hæfni hins unga söngstjóra. Það var ekki látið undir höfuð leggjast að sækja söngfundi þó færi og veður væri ekki sem best, því auðvitað var veturinn mest notaður, tíminn ekki til þess á sumrin.

Kristinn bjó sín fyrstu búskaparár í Meira-Garði. Þar var systir mín Guðrún, þá 11 ára, í vetrarvinnu hjá þeim hjónunum. Þá komst hún í þennan félagsskap og einnig Gísli bróðir okkar. Lögin sem þau lærðu sungu þau heima og við lærðum þau og tókum undir eftir getu. Þá urðu rökkrin stundum nokkuð löng. Gísli söng snemma bassa og hafði djúpa og mjúka bassarödd.

Um aldamótin fórum við fimm héðan inn í Framnes. Þar var alda-mótahátíðin haldin. Þar voru ágæt húsakynni til þeirra hluta. Þá var þar hvalveiðistöð og nóg af stórum húsum og eitthvað af Norðmönnum. Ég man sérstaklega eftir einum, hann var fatlaður, með staurlið í hægri hné, hann hét Seland. Þarna voru haldnar ræður, sungið og dansað fram í dögun og síðan labbað heim í norðan kafaldsbyl. Allt gekk vel þó að litlu munaði að tvö af okkur fykju út af brúnni á Arnarnesánni sem var mjög mjó og handriðslaus.

Við sungum tónlög eftir þá bræður, Kristinn og Sigtrygg, og fleira hátíðlegt til viðbótar t.d. var Álfakóngurinn sunginn og leikinn. Rakel kona Kristins söng einsöng, hún hafði þýða rödd og var örugg.

Á sumrin var vanalega farið í eina skemmtiferð. Eitt sinn fram í Núpsdal en oftar inn í Botnskóg og man ég eina slíka stund er byrjaði með útimessu í fögru rjóðri og nesti innst inni í Lambadalshlíð innri, en presturinn byrjaði alltaf þær útiskemmtanir. Ein slík skemmtun var eitt sinn haldin í Valþjófsdal. Þar stjórnaði Gísli bróðir svolitlum kór. Hann var orgelleikari í Sæbólskirkju. Matthías Ólafsson frá Haukadal sást þá ríða þar hjá og var sent í veg fyrir hann og hann beðinn um að mæla fyrir minni kvenna sem og hann gerði. Ég man nokkur orð sem hann sagði: „Ég veit að konur hafa getu á við karla til að vinna að stjórnmálum; en ef þær vanrækja uppeldis-störf þessvegna – já, þá má Drottinn hjálpa íslensku þjóðinni, því það er kvenfólkið sem skapar þjóðfélagið.“

« Júlí »
S M Ţ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31