A A A
  • 1982 - Sveinbjörn Halldórsson
29.04.2009 - 11:25 | Hallgrímur Sveinsson

Leikdómur

Frá sýningunni.
Frá sýningunni.
Ævintýri á vesturslóð: Dragedukken slær í gegn á Þingeyri.

Sögulegt leikverk um Þingeyri í denn
Höfundur og leikstjóri: Elfar Logi Hannesson
Tónlist: Andreas Steinbach
Útsetningar: Krista Sildoja
Hljómsveit tónlistarskólans:
Krista Sildoja 1. fiðla
Agnes Sólmundsdóttir 1. fiðla
Raivo Sildoja 2. fiðla, gítar blokkflauta
Jóhanna Jörgensen Steinsdóttir blokkflauta
Arnar Logi Hákonarson gítar
Elínbjörg Snorradóttir harmonika
Bergsveinn Gíslason harmonika
Kristján Gunnarsson harmonika.
Stjórnandi Krista Sildoja
Leikmynd: Alda Veiga Sigurðardóttir, Kristján Fannar Ragnarsson, Sigmundur F. Þórðarson, Steinn Ólason og Sveinbjörn Halldórsson
Ljósameistari: Róbert Daníel Kristjánsson
Leikskrá: Rakel Brynjólfsdóttir
Íþróttafélagið Höfrungur stendur að sýningunni - Félagsheimilið Þingeyri apríl 2009.

Leiklist í Dýrafirði í tímans rás

Leiklist hefur í tímans rás átt mikinn hljómgrunn í hjörtum Dýrfirðinga. Fyrsta uppfærsla á leikriti í fullri lengd sem vitað er um á Þingeyri, var Ævintýri á gönguför. Sá atburður átti sér stað á árunum rétt fyrir aldamótin 1900 í Vertshúsinu. Þá réði þar ríkjum Jóhannes Ólafsson, síðar hreppstjóri og mikill forystumaður í sveitarfélaginu um áratuga skeið. Jóhannes rak greiðasölu í húsinu sem nefnd var því virðulega nafni Hótel Niagara. Heimildir eru fyrir því, að mörg leikrit hafi verið sýnd þar á tíma Jóhannesar.
Lengi vel bar Kvenfélagið Von uppi leikstarfsemina á staðnum og voru leiksýningar á vegum þess meðal annars í svokölluðu Þinghúsi, sem er áfast við gamla barnaskólann, en síðan í Félagsheimilinu eftir að það kom til sögunnar 1939. Einnig voru leiksýningar á vegum Íþróttafélagsins Höfrungs, sem er eitt elsta íþróttafélag landsins, og mikið var leikið á vegum templara í Templarahúsinu, eða Rauða húsinu sem stóð fyrir innan barnaskólann. Þá starfaði Leikfélag Þingeyrar af miklum krafti um skeið.

Sjónleikur í einum þætti

Og nú hefur Höfrungur gamli sett á fjalirnar sjónleik í einum þætti, Dragedukken, um klukkustundar langan og sýnt nokkrum sinnum fyrir fullu húsi. Eins og ekkert sé sjálfsagðara. Segir þar frá bræðrunum Daniel M. Steinbach og Andreas M. Steinbach, en þeir stýrðu verslununum á Þingeyri og Flateyri fyrir og eftir 1800, í umboði Henriks Henkel kaupmanns. Allir voru þessir heiðursmenn frá Noregi. Persónur og leikendur eru 12 talsins og hljómsveit skipa 8 manns.
Skemmst er frá því að segja að sýning þessi kemur á óvart. Þar er leikgleði og sérstakur sjarmi í fyrirrúmi, fáir veikir hlekkir og tempóið í verkinu mjög gott. Replikkur komast yfirleitt vel til skila og yfir sýningunni er þessi sérstaki blær sem oft er annars háttar en hjá atvinnumönnum.
Sögumenn tveir sem opna verkið, strákarnir Birgir Knútur Birgisson og Þórður Sigmundur Ragnarsson, eru nokkuð kostulegir og vita alveg hvað þeir eru að gera, bæði uppi á sviði og niðri í sal. Gestaleikarinn Benedikt Birkir Hauksson frá Ísafirði leikur Andreas Steinbach, eina höfuðpersónu verksins og ferst það vel úr hendi. Greinilega vanur maður. Elenu Kristine, konu hans, leikur Guðrún Snæbjörg Sigþórsdóttir og má bara teljast fæddur leikari, eins og fleiri sem troða upp í Dragedukken. Einnig leikur Guðrún Sigurð nokkurn sem við sögu kemur.
Jón Sigurðsson leikur Daniel Steinbach, bróður Andreasar, myndar maður í sjón og reynd og þarf ekki annað en láta sjá sig, þá fer kvenfólkið að kikna í hnjáliðunum. Þessu kemur Jón vel til skila.
Lisbet Hansdóttir, ráðskona, er leikin af Gunnhildi Björk Elíasdóttur. Hún skenkir ótt og títt í glösin hjá liðinu og flögrar um á sinn ísmeygilega hátt. Persónusköpun Gunnhildar er með því betra sem gerist í verkinu.
Næst skal frægan telja Hólmgeir Pálmason, sem hefur tvö hlutverk með höndum, Henrik Henkel og Friðrik Svendsen. Í höndum Hólmgeirs brestur ekkert á, maður sem er öllu vanur og er sviðið eins og heimavöllur hans og persónurnar ljóslifandi.
Bjarney Málfríður Einarsdóttir hefur með höndum tvö hlutverk eins og sumir aðrir, stúlkuna Kristínu og biblíumanninn Ebenezer Henderson. Skilar hún þeim óaðfinnanlega, ekki síst Henderson, sem er þekkt persóna úr Íslandssögunni.
Berglind Hrönn Hlynsdóttir leikur frænku sína, Þórdísi Jónsdóttur, móður Jóns forseta Sigurðssonar, þá ung heimasæta á prestssetrinu Söndum, en í leiknum gestkomandi í kaupmannshúsum á Þingeyri. Er ekki annað að sjá en Berglind Hrönn ætti að geta átt framtíð fyrir sér sem leikkona, eins og reyndar fleiri leikendur í Dragedukken.
Unga stúlku, Margréti, leikur Jóhanna Jörgensen Steinsdóttir og má segja að þar falli eplið ekki langt frá eikinni, en hún er dóttir Guðrúnar Snæbjargar, sem fyrr er nefnd. Jóhanna leikur einnig á blokkflautu í hljómsveitinni hjá þeim Sildoja hjónum og verður ekki skotaskuld úr því. Bóndi og Jón eru svo leiknir af Ævari Höskuldssyni, sem er á ungum aldri eins og Jóhanna og á framtíðna fyrir sér.
Af þeim fríða hópi leikara, sem lætur ljós sitt skína á sviðinu, skal svo að lokum nefndur Sigþór Gunnarsson, sem kemur, sér og sigrar í hlutverki Peders N. Terslews, sem er nokkuð óræð persóna. Það var sagt um gamanleikarann ástsæla, Alfreð Andrésson, hjá Leikfélagi Reykjavíkur forðum, að hann þyrfti ekki annað en sýna sig á sviðinu, þá færu allir að hlægja. Svipað má segja um Sigþór. Hann klikkar aldrei, hvort sem er í því daglega eða á sviði. Slíkir leikarar eiga það að vísu til að ofleika, en það gerir ekkert til, þannig er húmorinn. Sigþór er faðir Guðrúnar Snæbjargar, móður Jóhönnu Jörgensen Steinsdóttur. Þrjár kynslóðir í sama verkinu! Ekki amalegt.
Leikmynd Dragedukken er býsna góð og ljósum hagrætt af smekkvísi.

Dugnaður Elfars Loga

Leikstjóri verksins og höfundur, Elfar Logi Hannesson, er greinilega ekki einhamur maður. Dugnaður hans á leiklistarsviðinu hér fyrir vestan verður að teljast mjög sérstakur. Uppbygging Kómedíuleikhúsins, sem unnið hefur sér fastan sess, er til dæmis algjörlega hans verk. Þannig mætti lengi telja. Og nú hefur Elfar Logi unnið nokkurn leikstjórnarlegan sigur með Dragedukken. Það er mikil vinna á bak við eina slíka sýningu áhugaleikara. Margir sem við sögu koma, en leikstjórinn er sá sem stillir saman strengina. Þar hefur vel tekist til sem áður segir.
Dragedukken er sagt sögulegt leikverk og er það að vissu leyti. Þar er nokkuð byggt á stórvirki Kjartans Ólafssonar, Firðir og fólk 900-1900. Svo er alltaf spurningin hvað á að taka með og hverju sleppa. Elfari Loga hefur tekist nokkuð vel að sigla þar milli skers og báru, þó deila megi um persónugerðir og slíka hluti endalaust.
Svo var það spurningin hvort ekki megi finna eitthvað sem betur mætti fara í þessari leiksýningu áhugamanna á Þingeyri. Vissulega. Annað væri óeðlilegt. Það verður þó ekki tínt til hér, nema það, að látbragðsleikur margra leikaranna, varahreyfingar í tíma og ótíma, mætti missa sín að nokkru leyti.

Hoffinsleikir

Því skal skotið inn hér til gamans, að Kjartan Ólafsson segir frá því í hinni stórmerku bók sinni, Firðir og fólk 900-1900, að Þórdís Jónsdóttir hafi á æskuárum verið viðstödd svokallaðan Hoffinsleik hjá Andreasi Steenbach á Þingeyri um 1790. Hoffinsleikur var einn hinna gömlu gleðileikja sem verslegir og geistlegir valdsmenn kepptust við að bannfæra á landi hér á árunum upp úr 1700, enda var sagt að 19 börn hefðu komið undir á síðustu Jörfagleðinni í Haukadal í Dalasýslu, en þar var einmitt venja að fara í Hoffinsleik. Þetta voru jólaleikir, en þá gladdi fólkið sig við söng og dans en síðan gengu karlmennirnir í kvennahópinn og völdu sér konu til fylgilags. Hoffinsleikurinn á Þingeyri, sem Þórdís segir frá, er sá síðasti á landi hér sem Kjartan getur rakið.

Tónlistin í verkinu, sem er eftir Andreas Steinbach, samin um 1800, er alveg sér á parti og setur mikinn svip á sýninguna undir öruggri handleiðslu þeirra Sildoja hjóna, Raivo og Kristu. Andreas hefur verið með allra fyrstu mönnum á Íslandi sem skrifuðu tónverk fyrir fiðlu. Þetta er alþýðutónlist af bestu gerð og er heilmikil saga á bak við hana, sem ekki er hægt að fara nánar út í hér.
Með konu sinni, Elene Kristine, eignaðist Andreas níu börn, sem öll fæddust á Þingeyri á árunum 1803-1816. Má telja víst að einhverjir af þeim sem við sögu koma í leiksýningunni Dragedukken séu afkomendur þeirra hjóna. Og það var einmitt einn af afkomendum þeirra, Guðmundur K. Steinbach, sem átti heiðurinn af því að koma tónlistinni á framfæri við Dýrfirðingana.
Þess skal getið, að í sýningarlok sungu allir viðstaddir grípandi lag eftir Andreas Steinbach, við ágætt ljóð Lína Hannesar Sigurðssonar, sem hann nefnir Síðasti valsinn. Var það góður endir á
skemmtilegu kvöldi.
« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31