A A A
  • 1926 - Jökull Sigtryggsson
  • 1946 - Katrín Eiríksdóttir
  • 1979 - Sólveig Eirný Sveinsdóttir
21.02.2018 - 10:24 | BLÁBANKINN á Þingeyri

Lánatorg með samfélagsleg gildi

Hugsaðu þér ef til væri lánatorg sem væri fullkomlega í eigu viðskiptavina, sem veitti hagstæð lán með lága vexti og þú gætir hæglega verið hluti af þeirri heild og notið hagstæðra kjara. Hljómar það of gott til að vera satt?

Hjalti og Hjörvar eru forritarar og frumkvöðlar sem komu í Blábankann fyrir skemmstu til að vinna að tæknilausnum fyrir félagsvædda lánastarfsemi, verkefni sem þeir hafa nú unnið að ásamt tveimur öðrum í rúmt ár. Um er að ræða lánatorg með sterka skýrskotun til samfélagsbanka að erlendri fyrirmynd. Komust þeir bræður í kynni við einn slíkan þegar systir þeirra bjó í Bandaríkjunum og var í viðskiptum við samfélagsbanka (e. Credit Union), einskonar sparisjóð sem er 100% í eigu viðskiptavinanna án aðkomu stofnfjárfesta. Slík stofnun er samfélagslega jákvæð þar sem segja má að fólk eigi í fyrirtækinu sem það er að versla við.

Fyrirkomulag lánakerfisins í verkefni Hjalta og Hjörvars er á jafningjagrundvelli. Notendur lánatorgsins geta sótt um lán og aðrir notendur lánað þeim. Það má líkja því við einskonar hópfjármögunarlán* til einstaklinga. Eigendur Samfélags-lánatorgsins skiptast gróflega í tvo hluta, en stofnendur og starfsmenn annars vegar og notendur hinsvegar. Notendur kjósa tvo stjórnarmenn af fimm og fá 80% af þeim arði sem verður til í félaginu. Gagnsæi er félaginu mikilvægt og verða allar mikilvægar upplýsingar varðandi rekstur, s.s. laun framkvæmdastjór og stjórnar gerðar aðgengilegar.

Lánatorgið er einkahlutafélag með sterkan samvinnuvinkil. Lánveitendur taka ekki tryggingu fyrir láni, en vettvangur sem þessi gengur útá vandað lánshæfnismat. „Lántakendur á Íslandi eru almennt góðir lántakendur. Sé miðað við önnur lönd eru endurgreiðslur lána á Íslandi mjög góðar“ segir Hjalti. Samfélags-lánatorgið mun einbeita sér að því að bjóða millistór lán til nokkurra ára, þ.e. ekki smálán né stærri húsnæðislán. Lánin má t.d. líta á sem hluta af stærri fjármögnun, eða til að fjármagna smærri verkefni, bílakaup eða jafnvel niðurgreiðslu á skammtímaskuldum með háum vöxtum.

Hjalti og Hjörvar sjá fyrir sér að lánatorgið muni geta lækkað vaxtamun til almennings: „Það verður okkar markmið að hafa eins litla yfirbyggingu og hægt er og bjóða uppá góð kjör.“ Einn af kostum lánatorgsins er að það eru í raun notendur þess sem ákvarða vextina, en lánatorgið mun hliðra vöxtum eftir því hvort það er meiri eftirspurn eftir að lána eða fá lánað, það er því ekki eins auðvelt fyrir stóra aðila á markaðnum eins og banka að hækka vexti á almenning þegar svona fyrirtæki er á markaðnum sem veitir þeim aðhald.

Segja má að bakgrunnur Hjalta og Hjörvars sé nokkuð góður til að standa að þessu verkefni en Hjalti hefur áður starfað við áhættustýringu hjá bönkum og lífeyrissjóðum og þekkir því vel starfsumhverfið og flókið regluverk fjármálaheimsins. Hann er menntaður verkfræðingur og hefur að auki reynslu af hugbúnaðargerð. Hjörvar stundar nám í stærðfræði og tölvunarfræði við Háskóla Íslands og hefur sérstakan áhuga á netöryggi og ólíkum útfærslum þess. Hjörvar er einnig jógakennari og hefur ferðast mikið um afskekktari svæði heimsins og kynnst ólíkum menningarheimum. Reynsla þeirra og þekking, ásamt lífsviðhorfum mynda því gott jafnvægi. Bræðurnir starfa að verkefninu af hugsjón, enda þarf ríka samfélagshyggju til að standa að slíku verkefni. „Já ætli það sé ekki ástríða fyrir mannkyninu. Það er kannski von á fjármálamarkaðnum ef þú ert að fá peningana frá öðru fólki.“ segja þeir.

Verkefni Hjalta og Hjörvars er komið vel á veg og mun frumútgáfa þess líta dagsins ljós í sumar 2018. Allt bendir til þess að verkefni sem þetta geti gengið mjög vel hér á landi og ekki er ólíklegt að verkefnið verði prófað til að byrja með í smærra samfélagi en Reykjavík enda segja þeir að smæðin geti tvímælalaust verið kostur. „Credit union/sparisjóður gengur útá samfélagslega pælingu þ.e. samfélagið í kringum þá og samkennd meðal þeirra sem standa að þessu. Fólk vill mögulega frekar borga þangað sem þeir þekkja til en eitthað annað. Það vekur upp samfélagslega og félagsleglega ábyrgð“ segja þeir.

Hjalti og Hjörvar láta vel af dvöl sinni í Blábankanum en þeir vörðu þar sex dögum. „Já það er alltaf gott að skipta um umhverfi. Truflun var lítil og afköstin  góð.“ Þeir hafa heldur ekki látið sitt eftir liggja og verið ötulir þátttakendur í morgunumræðum í heitapottinum með fastagestum sundlaugarinnar og gerðu sér ferð í Grunnskóla Þingeyrar þar sem þeir kynntu forritun fyrir nemendum þar.

 

*(Hópfjármögnun er þegar einstaklingar leggja í púkk misháar fjárhæðir til fjármögnunar á stökum verkefnum.)

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30