A A A
  • 1946 - Zbigniew Jan Jaremko
  • 1973 - Jón Sigurđson
« 1 af 3 »

Þessa dagana er að fara í dreifingu bókin Súgfirðingur fer út í heim eftir Guðbjart Gunnarsson. Hér segir Guðbjartur frá lífshlaupi sínu eins og nafn bókarinnar bendir til. Vel skrifaðar, skemmtilegar og áhugaverðar æviminningar Vestfirðings.

Framboð

Árið 1959 voru tvennar kosningar á Íslandi vegna kjördæmabreytingar, sem samþykkt var í síðari kosningunni. Hannibal Valdimarsson var þá genginn til liðs við Alþýðubandalagið, en hann var mikil baráttuhetja í augum flestra Vestfirðinga, þótt sumir ættu erfitt með að fyrirgefa honum brotthlaupið frá Alþýðuflokknum. Mikið rót var á vinstri kantinum um þetta leyti, sem síðar leiddi m.a. til þess, að Frjálslyndir vinstri menn birtust á sviðinu. Hannibal ætlaði fram í hinu nýja Vestfjarðakjördæmi í síðari kosningunum, en ég var beðinn að fara fram í V-Ísafjarðarsýslu í fyrri kosningunni, sem jafnframt var hin síðasta samkvæmt gamla kerfinu og í nafni Alþýðubandalagsins.

Við fórum þrír í kosningaferðalag um Vestfirði: ég, Jónas Árnason og Hannibal. Línan sem ég fékk í vegarnesti var einföld: „Skammaðu Framsókn!“ Ég fékk mjög skamman tíma til undirbúnings og hafði ekkert skipt mér opinberlega af pólitík, þótt vinir og kunningjar vissu, að ég væri hlynntur vinstri öflunum, eins og allflestir launamenn á þeim árum, sem trúðu því, að þessi öfl, öðrum fremur, væru brjóstvörn þeirra í launabaráttunni. Ég varð mér úti um nokkur eintök af Morgunblaðinu, Þjóðviljanum og Tímanum og reyndi að draga saman það helsta, sem þessir andstæðu hópar hefðu verið að þræta um síðustu vikurnar. Framsóknarflokkurinn var á móti breytingunni og sú andstaða virtist helst byggjast á því, að flokkurinn myndi tapa fylgi, ef breytingin yrði samþykkt.

Nú var það svo, að fóstri minn var dyggur framsóknarmaður og ég kannaðist við marga framsóknarmenn þar vestra, sem voru hinir mætustu menn, auk þess sem ég vissi ekki betur en að Samvinnuhreyfingin væri í höfuðatriðum af hinu góða. Margir settu reyndar jafnaðarmerki þarna á milli, enda flestir forystumenn Samvinnuhreyfingarinnar áberandi í Framsóknarflokknum. Svo ég varð að stíga varlega til jarðar á heimaslóð og haga orðum mínum með háttvísum hætti, helst engan styggja, en reyna að fá menn til að skilja, að nú væru breyttir tímar og nýir straumar í farvatninu, alþýðu landsins til hagsbóta.

Það var að sjálfsögðu vonlaust verk að ætla að fara að telja Halldóri á Kirkjubóli og Guðmundi Inga, bróður hans og sýsluskáldi trú um, að Framsóknarflokkurinn hefði rangt fyrir sér, en það mátti reyna að stríða þeim svolítið. Halldór var skemmtilegastur, þegar fauk svolítið í hann. Þeir Hannibal og Jónas virtust þokkalega ánægðir með frammistöðu mína, en Hannibal var fáorður og dularfullur og eyddi engum tíma í að leiðbeina mér eða ræða þessa fundi yfirleitt að öðru leyti en því, að hann dró fram kjörskrá og benti mér á þá staði, sem ég þyrfti að heimsækja og tala við atkvæðin. En það var fróðlegt að ferðast með þessum ágætu mönnum. Á Þingeyri tók héraðslæknirinn á móti okkur og vísaði okkur til sængur í sjúkraskýli staðarins, því engir venjulegir sjúklingar voru þar fyrir. Þetta er reyndar eina nóttin sem ég hef dvalið á sjúkrahúsi til þessa. Þeir félagar voru kátir og sögðu sögur og þetta var skemmtileg og eftirminnileg spítalavist.   Þessi táknræna sjúkrahúsvist okkar félaganna dugði hinsvegar ekki til að bjarga lífi Alþýðubandalagsins.   Það andaðist skömmu síðar úr innanmeinum.  

Það er við hæfi að minnast þess í þessu samhengi, að ég kynntist dálítið þeim sonum Hannibals, Ólafi og Jóni Baldvin. Sómadrengir og fluggáfaðir og snjallir menn, báðir tveir.   Jón heimsótti mig í Winnipeg og við áttum góða kvöldstund saman.   Ég naut þess heiðurs að leggja Bryndísi, konu Jóns, svolítið lið við gerð fræðslumyndar sem hún var að vinna að fyrr á árum. Kona Hannibals var systir Þórðar, fyrrum tengdaföður míns.

Sigurður Bjarnason frá Vigur var í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann og kona hans fóru gjarnan að heimsækja atkvæðin út um sveitir á sömu slóðum og ég. Við mættumst því oft og hann var hinn vinsamlegasti og hrósaði mér fyrir góða ræðumennsku. „Þú ert efnilegur folketaler“, sagði hann. Sama gerði gamall og gróinn kaupmaður á Þingeyri, sem tók til máls á fundi og sagði leitt til þess að vita, að þarna hefði efnilegur, ungur maður villst inn í rangan flokk og slæman félagsskap!

Samkvæmt atkvæðatölum í þessum kosningum stóð ég mig hreint ekki illa, vantaði aðeins 4 atkvæði til að tvöfalda atkvæðamagnið frá fyrri kosningum, eða úr 26 atkvæðum í 48, ef ég man rétt. Skemmtilegast er að stilla þessu upp í prósentum. Annar kennari gerði sér hins vegar lítið fyrir, sló nýtt kosningamet og tvöfaldaði fylgi Alþýðuflokksins í V-Skaftafellssýslu, úr einu atkvæði í tvö!

Ég kom fram á nokkrum fundum í Reykjavík fyrir síðari kosningarnar, auk þess sem ég naut þess heiðurs síðar, þegar kastljós Sjónvarpsins beindist að stjórnmálamönnum, að leiðbeina frjálslyndum vinstri mönnum um, hvernig upptökur í sjónvarpi færu fram. Dálítið stúdíó var sett upp af því tilefni, að nú áttu í fyrsta skipti að fara fram kynningar frambjóðenda í sjónvarpi. Þar voru að sjálfsögðu fremstir í flokki verkalýðsleiðtoginn Björn Jónsson og sjálfur Hannibal, Magnús Torfi, Ragnar Arnalds og fleiri. Markús Örn var við sömu iðju á öðrum stað, þar sem hann leiddi Sjálfstæðismenn í allan sannleika um sjónvarpstæknina.

 

Að þessum kapítula loknum hafði ég lært ýmislegt og fengið svolitla innsýn í stjórnmálaátökin, eins og þau voru þá. Eins og áður var ýjað að, voru á þessum tíma talsvert áberandi átök og erjur í Alþýðubandalaginu og ég hafði hvorki þekkingu né áhuga á að gera mig gildandi á þeim vettvangi. Ég var efasemdarmaður, bæði í trúmálum og pólitík, og of heimspekilega sinnaður til að geta af einhverri sannfæringu einbeitt mér að pólitísku þvargi og hafði ekki skaplyndi til að taka við einhverri pólitískri línu frá öðrum, þótt þar væru í forystu hinir mætustu menn. Ég gekk því aldrei formlega í pólitísk samtök, hvorki þessi né önnur. 
« Maí »
S M Ţ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31