A A A
  • 1946 - Zbigniew Jan Jaremko
  • 1973 - Jón Sigurđson
22.02.2017 - 22:11 | Vestfirska forlagiđ,Hallgrímur Sveinsson

Kafli úr bókinni gamlar Glefsur og nýjar eftir Gunnar B. Eydal

Guđný Ţórdís Magnúsdóttir.
Guđný Ţórdís Magnúsdóttir.

„Ég upplifði ömmu mína Guðfinnu alltaf sem svolítið skass. Hún talaði mest við mig um praktíska hluti, vinnu og sparnað. Ég vissi ekki þá hversu merkileg kona hún var. Hún studdi Alþýðuflokkinn alla tíð, þrátt fyrir stjórnmálaskoðanir afa sem hann lifði og barðist fyrir. Eitt var það sem aldrei var talað um í æsku minni. Hún veiktist af þunglyndi og var sjúklingur á Kleppi í rúmlega eitt ár, 1923. Ég tel að þetta hafi verið sjúkdómur sem nú er kallaður manio depresiv. Á þessum tíma var ekki  rætt um geðsjúkdóma. Átti það bæði við um sjúklingana sjálfa og aðstandendur þeirra. Þá skrifuðu konur ekki oft í blöð undir eigin nafni. Amma birti hins vegar grein, þremur árum eftir að dvölinni lauk, sem hún nefndi „Geðveikrahælið á Kleppi“. Þar réðst hún harkalega gegn þeim aðferðum sem þar voru notaðar í lækningaskyni.  Greinin birtist upphaflega í Alþýðublaðinu. Á þessum tíma tíðkuðust bæði svokallaðar vatnslækningar, þar sem sjúklingar voru baðaðir eða haldið í köldu vatni, og föstur þar sem sjúklingar fengu ekki næringu dögum saman, svo sem segir hér á eftir.“

 

Guðný Þórdís Magnúsdóttir:

GEÐVEIKRAHÆLIÐ KLEPPUR

 

„Þegar ég fyrir þremur árum var sjúklingur á Kleppi, hafði ég hugsað mér að það fyrsta sem ég þyrfti og ætti að gera, ef ég fengi heilsu og kæmist þaðan burt, væri að gefa fólki, sem ekkert þekkir þar til dálitla hugmynd um, við hvað sjúklingar, sem þangað eru sendir, eiga að búa. En þær upplýsingar eru því miður ekki glæsilegar. Að ég hefi þagað svona lengi, þótt nú sé liðið meira en ár, síðan ég var algerlega heilbrigð, kemur til af því, að ég hefi ekki getað aflað mér nógu góðrar vitneskju um sams konar stofnanir til samanburðar fyrr en nú, að ég hefi dvalið dálítinn tíma í Kaupmannahöfn og fengið þar áreiðanlegar upplýsingar um geðveikrahæli bæði í Danmörku, Englandi, Þýskalandi og víðar, og get ég fullvissað þá, sem þessar línur lesa, um það, að ill meðferð á sjúklingum á geðveikrahælum í þessum löndum á sér hvergi stað nú orðið og líklega ekki í nokkru menningarlandi heimsins að undanskildu Íslandi.

Ég hika ekki við að segja, að meðferð á sjúklingum á Kleppi er andstyggileg, og gæti ég komið með mörg dæmi því til sönnunar úr daglega lífinu á Kleppi þessa 15 mánuði, er ég var þar sjúklingur. Einna hrottalegastar fundust mér kaffæringarnar. Menn álíta nú máske, að þær séu lækningatilraun, en svo er ekki ætíð að minsta kosti. Þær eru blátt áfram refsing á sjúklingana fyrir ýmsar yfirsjónir. Yfirsjónirnar þurfa ekki ætíð að vera stórar. Það þarf t.d. ekki annað en að sjúklingur missi óvart úr grautarskál niður á gólfið, þá er honum skipað að klæða sig úr hverri spjör og hann miskunnarlaust keyrður á kaf ofan í baðker, sem áður er hálffylt með ísköldu vatni. Það er ekki látið nægja að dýfa sjúklingunum í eitt skifti, heldur hvað eftir annað, og er þeim haldið niðri í því, þar til þeir eru komnir að köfnun, enda kom það fyrir, að þeir voru svo þjakaðir eftir þessa meðferð, að það varð að bera þá eða styðja inn í rúmbælin; stundum var þeim fleygt nöktum og blautum inn á „cellur“, þar sem ekki var einu sinni rúmflet handa þeim að liggja í.

Þá eru svelturnar.  Ég veit dæmi þess, að sjúklingur var að ráði geðveikralæknisins sveltur í 6 vikur samfleytt, og hafði það ekki önnur áhrif en auknar þjáningar. Ólíklegt er, að læknirinn hafi haft nokkra tryggingu fyrir að sjúklingurinn lifði þetta hungur af, því að nokkrir sjúklingar, sem sveltir hafa verið á Kleppi, hafa ekki þolað 30 daga sult; þeir hafa eftir þann tíma ekki þolað fæðuna, fengið afskaplega magaveiki, og dauðinn svo unnið sitt miskunnarverk á þeim. Það má vel vera, að nokkurra daga svelta í ýmsum geðveikitilfellum geti verið heilsusamleg; ég skal ekkert um það fullyrða. En að læknir hafi leyfi til að svelta sjúklinga sína svo að segja takmarkalaust, get ég ekki skilið.

Hvað fæði sjúklinga snertir, þá er það að mínu áliti vel við unandi og vel úr garði gert frá hendi ráðskonunnar, sem er myndarleg, roskin kona. Líklegt þykir mér þó, að fólki, sem séð hefir sjúklinga á Kleppi, sýnist þeir vera þunnir á vangann sumir hverjir, en það er ekki af því, að skamtur þeirra sé svo lítill; það kemur af því að fyrir utan alsvelti eru þeir hálfsveltir sumir, þannig að ein eða tvær máltíðir eru teknar af þeim á dag, ef þeir ekki sitja eða standa eins og vera ber.

Hvað hjúkrunarliðið á Kleppi snertir, þá er lítið um það að segja. Læknirinn sýnist ekki gera háar kröfur til hjúkrunarkvenna. Til þess að verða hjúkrunarkona á Kleppi þarf ekki annað en fara í ljósan kjól, sem hælið leggur til. Það gerir ekkert til, þótt þær kunni ekki að þvo gólf, því að það má láta sjúklingana gera bæði það og fleiri nauðsynjaverk, enda ekkert á móti því, þótt þeir séu látnir vinna, sé það í hófi. Það er heldur ekki nauðsynlegt, að þær þekki á hitamæli, því að hann er aldrei notaður, enda var mér sagt, að hann væri enginn til á hælinu. Ég held að það væri ekki rétt að gera háar kröfur til þessara hjúkrunarkvenna, en það er læknirinn, sem háar kröfur á að gera til. Líklega vita flestir, hvað sorglega fáir læknast af þeim, sem sendir eru á Klepp, enda virtist mér harðneskja og miskunnarleysi vera aðallækningatilraunirnar þar.

Ég hefi talað við lækni, sem hefir kynt sér mörg geðveikrahæli erlendis. Hann sagði meðal annars á þessa leið: „Í geðveikrahælum, sem ég þekki til í, reiknast svo til, að þrír fjórðu af öllum sjúklingum, sem koma inn í hælin, verði algerlega heilbrigðir og komi aldrei þangað aftur; einn fjórði læknast alls ekki eða þá að eins um stundarsakir og kemur síðan aftur. Annað en ágætismeðferð á geðveikum sjúklingum þekki ég ekki; fyrir löngu áttu sér stað kaffæringar á geðveikrahælum á Englandi og lítils háttar í Danmörku, en nú líta menn á alt slíkt með viðbjóði, en þrátt fyrir það, þótt svona margir læknist, eru hælin altaf full, því að geðveikin virðist fara vaxandi um allan heim.“

Svo mörg voru orð læknisins. Áður en ég lýk máli mínu, ætla ég að nefna einstök dæmi af mörgum um meðferð sjúklinga.“

„Greininni lýkur svo með því að tilgreind eru einstök dæmi af mörgum um meðferð sjúklinga þann tíma sem hún dvaldi þar. Eru það ófagrar lýsingar sem verða ekki raktar hér.

Að loknum þessum lýsingum segist amma hafa skrifað þessar línur af meðaumkun með þeim aumingjum sem verða fyrir þeirri ógæfu að lenda á geðveikrahælinu. Henni finnst að á geðveikrahæli þurfi að vera lýsandi stjarna í myrkri þessara vesalinga í stað þess að vekja ótta fólks.

Athygli vekur að greinin birtist ekki fyrst í Degi þar sem afi var ritstjóri né heldur Tímanum, blaði framsóknarmanna á landsvísu. Ástæðan var án efa sú að hann hafi eindregið lagst gegn birtingu greinarinnar. Reyndar birtist hún síðar í Degi eftir að hafa vakið feikna athygli.

Nokkru síðar flutti Þórður Sveinsson yfirlæknir á Kleppi erindi hjá Læknafélagi Reykjavíkur, sem síðar var birt í Læknablaðinu, þar sem hann segist ofsóttur af því að hann hafi eins og allir aðrir læknar, reynt að hjálpa sjúkum mönnum og á hann þar við greinina í Alþýðublaðinu. Áður hafði birst „Opið bréf til  ríkisstjórnarinnar“ eftir Guðmund Þorkelsson, hjúkrunarmann á Kleppi, þar sem hann gerir alvarlegar athugasemdir við þær lækningaaðferðir sem þar eru notaðar. Allt vakti þetta mál feikna athygli og hratt af stað miklum umræðum.

Í janúar og febrúar 2016 gerði Illugi Jökulsson, útvarpsmaður „Kleppsmálinu“ svokallaða nokkur skil í vikulegum útvarpsþætti sínum, Frjálsum höndum, þar sem skyggnst var til liðins tíma. Fyrrnefnd blaðaskrif ömmu minnar voru rakin og í næsta þætti var fjallað um yfirlækninn á Kleppi á þessum tíma, Þórð Sveinsson.

Boðað var að í næsta útvarpsþætti yrði fjallað frekar um læknisaðferðir yfirlæknisins en upplýsingar þar um hefðu komið úr ólíklegri átt. Hins vegar brá svo við að ekki var fjallað frekar um málið. Engar skýringar hafa fengist.“

 Kafli úr bókinni gamlar Glefsur og nýjar eftir Gunnar B. Eydal


« Maí »
S M Ţ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31