A A A
  • 1946 - Zbigniew Jan Jaremko
  • 1973 - Jón Sigurđson

Yst á Hornströndum Ferðaminningar  frá 1940 eftir Jóhann Hjaltason, fræðimanninn góðkunna, er uppistaðan í þessari Hornstrandabók sem er nr. 5 í röðinni. Það fer ekki á milli mála að frásagnir Jóhanns eru í raun ómetanlegar fyrir þá sem láta sig Hornstrandir og íbúa þeirra einhverju skipta. Árið 1940 er byggðin enn býsna traust, en svo hallar hratt undan fæti. Lýsingar Jóhanns á fólkinu, bændum og búaliði og öllum aðstæðum þar nyrðra, eru skemmtilegar, lifandi og ótrúlega glöggar. Þeir sem ferðast um þessar eyðibyggðir í dag hljóta að fagna því að fá þannig að kynnast frásögnum Jóhanns af síðustu íbúunum yst á Hornströndum. Þær eru góð viðbót við þá mynd sem til er á öðrum bókum.

Komið í Hornbjargsvita

 

 

Hornbjargsvitinn í Látravík var byggður og tók við hlutverki sínu árið 1930. Teikningar og umsjón með verkinu annaðist Benedikt Jónasson. Hann var verkfræðingur hjá Vita- og hafnarmálaskrifstofunni 1919-1951 og yfirverkfræðingur frá 1945. - Verkstjóri og yfirsmiður var Bertil Sigurgeirsson trésmíðameistari, en hann byggði meðal annars íbúða- og peningshús víða um land. Sonur Bertils og konu hans Fjólu Oddsdóttur, er Þráinn rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður í Reykjavík. Vitabyggingin er allmikið steinsteypuhús, íbúðarhæð, geymslukjallari og ris og helmingi hærri turn byggður við suðausturenda hússins sjávar megin. Auk vitaljósanna í turninum, er þar sendistöð fyrir radíómerki og olíuknúin ljósavél var í kjallaranum.

Vitavörður var um þetta leyti hagleiksmaðurinn Frímann Haraldsson frá Horni, sonarsonur Hornbóndans Stígs Stígssonar, sem nafnkunnur hefur orðið bæði í sögn og sögu vegna hæfileika sinna og búskaparhátta. Frímann var orðlagður framkvæmda- og dugnaðarmaður, sem bóndi og bátasmiður auk varðstöðu sinnar við vitann. Nú hitti ég svo á, að hann var ekki heima, sem raunar skipti ekki máli fyrir mig, að því er gistingu og annan greiða snerti, því hjá konu hans Hallfríði Finnbogadóttur, naut ég mikillar gestrisni eins og víðast hvar þar sem ég kom á þessu ferðalagi og öðrum álíka bæði fyrr og síðar. Þó kom það fyrir á einstaka stað, að nokkurs mismunar gætti með gestrisnina eftir efnum og ástæðum og þá  yfirleitt með öfugum formerkjum. Morguninn eftir þegar ég reis úr rekkju í Látravík, útsofinn og afþreyttur í hægri og góðri hvílu var skollið á niðamyrkur af þoku. Sá ég rétt aðeins grilla í svart og grett klettaþil Axarfjallsins þverhnípt í sjó niður, að því er virtist til að sjá í þokumóðunni örskammt innantil við þessa svokölluðu vík, sem er engin vík í venjulegum skilningi þess orðs, heldur einungis víð dæld eða skál á strönd fjallaskagans sem myndar Hornbjarg og hið eiginlega fuglabjarg um það bil 3-400m hátt allmiklu lengra norður til hafsins.

Þokan gerði það að verkum, að ég sá frekar óljóst traustlega gaddavírsgirðingu umhverfis töluvert stóran túnblett, sem ég hygg að Frímann hafi að mestu leyti ræktað og stækkað frá því sem áður var og vissulega hefur þessi nýja og stæðilega túngirðing verið hans handaverk og manna hans. Er ég fór að sinna erindi mínu og spyrja húsfreyju um örnefni víkurinnar og nágrennis, vék hún öllum svörum í því efni til sonar þeirra hjóna Guðmundar Óskars, drengs á fermingaraldri. Reyndist þar ekki í kot vísað - því drengurinn var bráðskýr í svörum. Ég gaf mér tíma til að litast dálítið um utanhúss, þó lítið væri að sjá vegna þokunnar, nema hið allra næsta umhverfi. Ég gekk út að túngirðingunni á blábjargbrúninni, sem mér var sagt að væri þar um það bil 30m há. En því miður mun ég næstum ekkert hafa skoðað mig um hjá svonefndum Lendingarbási, sem er þröngur hamravogur inn í bergvegginn rétt norðan við íbúðar- og vitahúsin. Beint upp af voginum var smíðahús Frímanns, fjós og hlaða og ef til vill lítill kindakofi. Annars hafði Frímann - líklega fyrstur og síðastur vitavarða í Látravík, 50-60 kinda fjárbú suður í Hrollaugsvík á Bjarnarnesi og fjárins vitjað daglega allan veturinn yfir Axarfjall, hvernig sem viðraði. Smíðahúsið var með lágum veggjum, en breitt og mikið ummáls og kannski hefur bátur verið í smíðum þar inni. En Guðmundur Óskar sagði mér, að faðir sinn hefði bæði endurnýjað og endurbætt umbúnaðinn í Lendingarbásnum.

Oft er ég búinn að iðrast þess, að hafa ekki skoðað þennan sérkennilega lendingarstað nákvæmlega. En hitt man ég fullvel að drengurinn sagði mér, að niður í vogsbotninum lægi tvískiptur tréstigi með 57 þrepum og væri nokkuð stór stallur á miðri leið, þ. e. efri og neðri stigi. Ennfremur að á brúninni væri spil, sem drægi bátinn í rennibraut upp á stallinn þegar ylgja væri í sjó eins og oftast í þessari klettakró fyrir opnu hafi, en dreginn alla leið upp á brún í haugasjó og veltibrimi hausts- og vetrarveðra.

Hallfríður húsfreyja gerði ekki endasleppt við mig með gestrisnina, því að loknum ríkulegum morgunverði milli dagmála og hádegis sagði hún syni sínum hinum greinagóða unglingi Guðmundi Óskari, að fylgja mér norður á Innstadal, þ. e. langleiðina út til bæjanna á Horni í Hornvík.

Ég hafði einhvern tíma lesið um það löngu fyrr, að vegurinn út frá Látravík og norður eftir lægi allvíða mjög tæpt á 400m hárri bjargbrúninni. Með því að ég er allra manna lofthræddastur, þá hugsaði ég til slíkrar tæpugöngu af hreinni skelfingu og kom mér nú óendanlega vel að fá nákunnugan fylgdarmann þótt eigi væri hár í loftinu, en hinu var ég þegar búinn að kynnast hversu greindur og skynugur hann virtist vera. En nú kom þokan mér til hjálpar, að því er lofthræðsluna snerti - vegna hennar sá ég aldrei bjargbrúnina heldur elti bara minn ágæta fylgdarsvein hugsunarlítið. Oftast mun ég þó hafa séð 2-3m frá mér og stundum vel það, enda man ég eftir valllendisbrekkum og bölum hið næsta við okkur vinstra megin, þ. e. að vestanverðu í þá átt er til fjalls sneri.

« Maí »
S M Ţ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31