A A A
  • 1957 - Jón Reynir Sigurðsson
  • 1963 - Ísleifur B Aðalsteinsson
  • 2000 - Lilja Kristín Björgvinsdóttir
06.11.2017 - 06:53 | Vestfirska forlagið,Sr. Jakob Ágúst Hjálmarsson.

Kafli úr bókinni -Allt þetta fólk Þormóðsslysið 18. febrúar 1943-

Þormóður leggur upp í sína örlagaríku för frá Bíldudal. Teikning: Jóhann Jónsson.
Þormóður leggur upp í sína örlagaríku för frá Bíldudal. Teikning: Jóhann Jónsson.

Ótíðindin

Á Bíldudal fréttist ekkert af ferðum Þormóðs. Á fimmtudaginn var símalínunni vestur lokað. Þá voru liðnir fjórir dagar frá því skipið hélt frá Bíldudal. Menn vissu af viðkomu á Patreksfirði og þá hefði skipið átt að vera komið til Reykjavíkur á miðvikudagsnóttina. Á fimmtudag er ýmis kvittur á kreiki. Valdimar Bjarnason í Sælundi er sagður hafa getað hlustað á bátabylgjuna í útvarpi sínu sem þó var ekki algengt og heyrt samskipti við Þormóð og af þeim ráðið að skipið hafi lent í sjávarháska. Enginn veit þó neitt með vissu en ótta hefur sett að öllum.

Það er ekki fyrr en á föstudeginum að sr. Jón Kr. Ísfeld þá sóknarprestur á Hrafnseyri kemur með báti yfir fjörð að það rennur upp fyrir fólki að ástvinir þeirra, einhverra að minnsta kosti, hefðu farist með Þormóði.

Páll Hannesson (sonur Sigríðar og Hannesar Stephensen) fékk það verkefni að hlutast til um að ótíðindin bærust með settum hætti. Hann hringdi í sr. Jón og tók á móti honum. Hann hafði þá útvegað honum fylgdarmann, Ásmund Jónasson, hinn afa minn, sem öllum var kunnugur. Þennan dag fékk sr. Jón á honum  mikið traust eins og fleiri.

Þeir sr. Jón komu fyrst til frú Margrétar konu sr. Jóns Jakobssonar. Einhvern veginn virðist hún vera andlega undirbúin að taka sorgartíðindunum og reyndist fær um að veita prestinum mikilvæga hjálp við verkefni sitt.

Næst fara þau þrjú upp í Valhöll og þar er Sigríður ekkja Gísla skipstjóra og önnur börn þeirra Ágústs og Jakobínu. Eitt þeirra, Hjálmar, pabbi minn, getur ekki trúað þessu og segir þegar hann heyrir ótíðindin að það sé ómögulegt að Þormóður hafi farist „með öllu þessu fólki.“ Það var ofar hans skilningi að slíkt gæti gerst. Sr. Jón hafði með þeim bænastund og reyndi að veita fólkinu huggun trúarinnar. Hvað þetta fólk varðaði þá styggði þessi ógnaratburður þau ekki frá  kirkjunni og var það henni tryggt meðan þau lifðu, sungu í kirkjukór og pabbi var lengi sóknarnefndar-formaður.

 Áfram halda þeir hús úr húsi og lýsir sr. Jón ferð sinni í bókinni Lífsreynsla I. Þeir koma til Jóns Bjarnasonar og Dagbjartar Árnadóttur foreldra Þorkels. Þau hafa verið búin að átta sig, kannski Páll bróðursonur Jóns hafi komið til þeirra. Þau hugguðu sig við að hafa haldið honum Eyjólfi litla sem síðan óx upp hjá þeim og varð þeim ellistoð.

Ólafur P. Jónsson héraðslæknir hafði og ærinn starfa og studdi við verkefni sr. Jóns ásamt því að veita læknishjálp þar sem þess þurfti við. Frú Margrét fór einnig með sr. Jóni í fleiri hús og lýsir það styrk þessarar konu sem Bílddælingum sem henni kynntust er minnisstæð.

Sr. Jón minnist m.a á komu sína til Helgu Sigurbjörnsdóttur, ekkju Þorvaldar Friðfinnssonar. Hún var alin upp í K.F.U.K. í Reykjavík og átti og varðveitti alla tíð einlæga og trausta Kriststrú. Heimsóknin til hennar var eins og orkuhleðsla fyrir þennan prest sem aldrei áður hafði þurft að tilkynna mannslát. Þessi heimsókn lýsir vel hvernig þetta fór fram og sömuleiðis nærgætni sr. Jóns:

 

Þar kom til dyra ung kona. Ég sagði henni erindi mitt. Hún hikaði andartak. Tár blikuðu í augum hennar. Svo sagði hún nokkur orð, sem komu eins og ósjálfrátt yfir varir hennar. Svo varð andartaks  þögn. Ég hélt um skjálfandi hönd hennar og talaði rólega við hana. Smám saman róaðist hún. Hún spurði mig nokkurra spurninga, sem ég reyndi að svara sem hlýlegast svo að þær yrðu henni umhugsunarefni og til þess að gefa henni styrk eilífðartrúarinnar.

 

 

Lilja Valdimarsdóttir, sem nú var orðin ekkja eftir Jón Þ. Jónsson, flúði undan ótíðindamönnunum hús úr húsi með börnin sín litlu tvö. Hún gat ekki heyrt þessa frétt. Hún mátti ekki vera sönn; að allir hefðu farist, líka hann Jón hennar!

Pétur Bjarnason fyrrverandi skútuskipstjóri missti tvo sona sinna Bjarna og Björn. Hann þekkti sjóinn og mátt úthafsins og hversu sviplega gat brugðist til. Líklega einn af þeim sem búinn var að átta sig á öllu saman. En hvorki hann eða aðrir gátu vitað hvort einhverjir hefðu bjargast. Sömuleiðis ruglaði það fólk í ríminu að Þormóður hefði að réttu átt að vera kominn suður á miðvikudagsnóttina og nú var kominn föstudagur.

Sr. Jón Kr. Ísfeld heldur áfram frásögn:

 

Viðbrögð þessa mæta , lífsreynda manns voru þau, að mikið hefði hann misst, en mikið hefði sér verið gefið, ennþá ætti hann mikið eftir af þeim gjöfum sem hann hefði þegið frá „gjafaranum allra góðra hluta“, eins og hann sagði.

 

Jens Hermannsson skólastjóri hafði misst Áslaugu dóttur sína. Hann var einnig búinn að  reikna með þessu og var andlega undirbúinn eftir hætti. Umhyggja hans var á þessari stundu öll með þessum hálffertuga og óreynda presti og bauð honum að hvíla sig um stund. Svo sagði hann prestinum áður en hann hélt leiðar sinnar að þessi sextán ára dóttir þeirra hjóna hefði gert ráðstafanir um eigur sínar og arfleitt sín nánustu að helstu gripum sinnar fábrotnu eignar.

Það hefur verið einna erfiðast fyrir prestinn að koma þar sem þeir voru litlu drengirnir, Eyjólfur og Gunnlaugur sem höfðu misst báða foreldra sína. Afi Gunnlaugs var svo bróðir Ásmundar  fylgdar-manns prestsins.

 

Eftir þennan dag lagðist doði yfir litla kauptúnið. Það tók á að finna að ekki hafði fólk aðeins misst sjálft heldur flestir í kringum það líka.

Hann gekk á með stórviðrum sem minntu á örlög Þormóðs og fólksins sem hann flutti. Svo kom upp umgangspest og fullkomið ráðaleysi ríkti um sinn. Sr. Jón gekk um meðal fólksins með huggunarorð sín og samúð og bað með þeim sem það vildu.

Undirbúningur undir það sem fyrir lá krafðist tíma og samráðs og ófært var fyrir hann að skjótast heim um sinn. Esja kom á suðurleið mánudag 22. febrúar viku eftir að Þormóður lagði upp. Með skipinu fóru þau sem áttu allt sitt fólk fyrir sunnan, væntanlega fjölskyldur Þorvaldar og Lofts. Frú Margréti hefur fundist að hún gæti ekki farið, ekki fyrr en útför hefði verið gerð á Bíldudal. Þau voru þar fram í maí að lík sr. Jóns fannst.

Sr. Jakob Ágúst Hjálmarsson:

Kafli úr bókinni Allt þetta fólk

Þormóðsslysið 18. febrúar 1943

 

« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30