Kafli úr Hornstrandir og Jökulfirðir 5. bók: - Hvers vegna fóru Hornstrandir í eyði?
Þessi spurning berst stundum í tal milli manna. Við henni er ekki til neitt einhlýtt svar. En margt hjálpaðist að segja þeir sem þekkja til. Skoðum aðeins hvað tveir þekktir aðilar og gjörkunnugir hafa að segja um mannauðnina í sveitarfélögunum tveimur.
Sléttuhreppur
„Margir hafa talið miskunnarlaus vetrarveður, fámennið og skort á samgöngum á landi og sjó meginorsakir þess, að allt þetta stóra landsvæði skyldi fara í eyði á tiltölulega skömmum tíma. Víðast stóðu bæirnir einir og afskekktir, en þó hafði myndast þéttari byggð á nokkrum stöðum, nokkrir bæir þétt saman, eins og í Furufirði og Hornvík, eða jafnvel bæjaþyrpingar eða vísir að þorpum, sem höfðu myndast að Látrum og Sæbóli í Aðalvík og á Hesteyri. Innan marka núverandi Hornstrandafriðlands var Sléttuhreppur því fjölmennastur, en þar bjuggu um 420 manns árið 1942. – Á aðeins 10 árum fluttu allir íbúar Sléttuhrepps í burtu, og haustið 1952 fluttust þeir síðustu úr fyrri heimkynnum.“ Hjálmar R. Bárðarson í bók sinni Vestfirðir, bls. 287, Rvk. 1993.
Grunnavíkurhreppur
„Eyðingu byggðarinnar má skýra með því að féminna fólk; leiguliðar, vinnufólk og uppkomin börn bænda sem ekki áttu staðfestu, leitaði í aðra staði að menntun og arðbærari atvinnu, sumt sökum þess að ekki tókst að hrinda í framkvæmd ráðagerðum um frekari lendingarbætur og ræktunarframkvæmdir í Grunnavík. Til þess þurfti vinnuafl, en bændum lánaðist ekki að halda vinnufólki né uppkomnum börnum sínum kyrrum við störf í byggðarlaginu. Verkfært, eignalaust fólk úr hreppnum leitaðist við að fá atvinnu annarsstaðar til þess að geta staðið á eigin fótum og þegar verkafólk fór burtu var stoðum kippt undan búskap og sjósókn; bændur fylgdu verkafólki og skildu eigur sínar eftir verðlausar; hús og jarðir." Svo segir Guðrún Ása Grímsdóttir í Grunnvíkingabók 1, bls. 40. Endalok byggðarinnar urðu haustið 1962.