A A A
  • 1922 - Guðmundur Magnússon
  • 1942 - Sigurður Jónsson
19.04.2009 - 11:28 | Hallgrímur Sveinsson

Íslandssjóðurinn

Í fyrra leyfði undirritaður sér að leggja fram tillögu um stofnun svokallaðs Vestfjarðasjóðs, í þágu uppbyggingar á Vestfjörðum í anda Roosevelts Bandaríkjaforseta og New Deal stefnu hans, með 20 milljarða króna stofnfé. Ýmsir sérfræðingar og fjármálaspekingar hlógu þessa tillögu að sjálfsögðu út af borðinu. En rétt áður stofnuðu þeir sömu spekingar eitt dularfyllsta eignarhaldsfélag landsins, Stím ehf. svo eitt lítið dæmi sé nefnt um heimsku sumra fármálaspekinga.

Þetta skruggufélag var sérstaklega sett á fót til að kaupa hlutabréf í Glitni og FL Group, stærsta eiganda Glitnis, fyrir tæpa 20 milljarða króna í nóvember 2007. Glitnir seldi bréfin og lánaði Stími litla, sem var bara eitt af hundruðum slíkra gervifélaga, um 20 milljarða króna til kaupanna. Og félagið fékk fimm milljarða króna lán í október á síðasta ári og fjárfesti í kjölfarið í FL Group rétt áður en félagið skilaði mesta tapi Íslandssögunnar.

Hugsið ykkur lesendur góðir. Ef þessir blessuðu drengir hefðu haft vit á að stofna eitt stykki Vestfjarðasjóð meðan allt lék í lyndi og látið t.d. Glitni vera rekstraraðila. Í stað þess að lána með veðum í verðlausum hlutabréfum í sjálfum sér, hefðu veð bankans verið i þróttmiklum nýjum og gömlum fyrirtækjum á Vestfjörðum. En því miður. Það er sitt hvað gæfa og gjörfuleiki.

Íslandssjóðurinn
Og nú kemur hér önnur tillaga, yfirfærð á landið allt í stað Vestfjarða. Stofna skal nýjan fjárfestinga- og lánasjóð fyrir Ísland. Íbúðalánasjóður verði fyrirmynd að sjóði þessum og getur lýsing á tilgangi Íslandssjóðsins og starfsemi litið þannig út í grófum dráttum, sbr. skilgreiningu á Íbúðalánasjóði í lögum um hann: „Íslandssjóðurinn er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins, sem veitir einstaklingum, félögum og félagasamtökum í atvinnurekstri á Íslandi lán til uppbyggingar. Hann er fjárhagslega sjálfstæður og stendur undir lánveitingum og rekstri með eigin tekjum. Tilgangur sjóðsins er að stuðla að því að Íslendingar geti búið við öryggi í atvinnumálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að koma sér upp eigin atvinnurekstri á viðráðanlegum kjörum.
Íslandssjóðurinn fjármagnar útlán sín með sölu ríkistryggðra verðbréfa og lántöku. Ríkissjóður er ábyrgðaraðili sjóðsins og semur við bankastofnun um rekstur hans og stjórn. Viðkomandi banki sér um alla vinnu við undirbúning og veitingu lána sjóðsins og tekur allar ákvarðanir þar að lútandi, hverju
nafni sem nefnast. Rekstrarkostnaður Íslandssjóðsins og tap vegna útlána skal greitt af tekjum hans.
Heimilt er að veita lán til smáfyrirtækja jafnvel þó þau hafi engin veð önnur en frumkvæði, kjark og þor. Bannað er að veita lán með veði í íbúðarhúsum lántakenda eða skylduliðs þeirra. Lánin verði veitt til eins margra ára og þurfa þykir. Lántakendur hafi nokkurt val um það hvenær afborganir hefjast. Heimilt er að láta hluta af lánum sjóðsins vera víkjandi lán. Vextir verði eins og þeir gerast hjá Íbúðalánasjóði á hverjum tíma. Stofnfé Íslandssjóðsins er 100 milljarðar króna.”

Í framhaldi af samanburði þeim við Íbúðalánasjóð sem hér er viðhafður mætti vel spyrja hver sé eðlismunur á því að veita mönnum hagstæð lán til íbúðakaupa eða veita þeim hagstæð lán til að koma undir sig fótunum í atvinnurekstri til að búa í viðkomandi húsnæði. Er hann einhver?

Lánsupphæðir geta verið breytilegar, til dæmis 50 milljóna króna hámarkslán, þá væri um að ræða 2000 –tvö þúsund- ný og gömul fyrirtæki á landinu öllu, hvort sem væri á Langanesi, Reykjavík eða Árneshreppi á Ströndum. Ef allir fengju lán að hámarki 100 milljónir króna, þá væri um að ræða 1000 fyrirtæki. Þá má hugsa sér að lánin verði verðtryggð að hluta.
Á það skal lögð þung áhersla, að stuðningur Íslandssjóðsins við alls konar fjölskyldufyrirtæki og önnur smáfyrirtæki mun skila sér þegar á heildina er litið, þó veð verði kannski ekki alltaf samkvæmt ströngustu kröfum Lloyd's. Það er reynsla margra annarra þjóða af aðgerðum af þessu tagi. Menn þurfa einungis að horfa á þetta öðrum augum en þeim að heimta arð og vexti að kveldi. Hér er verið að tala um langtíma fjárhagsaðgerðir sem munu skila sér margfaldlega beint í kassa landsmanna.
Íslandssjóðurinn mundi hafa gífurleg margfeldisáhrif strax frá fyrsta degi. Og það sem meira er: Allar reddingar í byggðamálum á landinu gætu heyrt sögunni til að verulegu leyti. Ætla mætti að margir væru þeirrar skoðunar að ýmislegt væri á sig leggjandi til að svo mætti verða. Peningarnir eru til og bíða þess að verða notaðir í þágu almennings.

Svo mörg eru þau orð. Vitlaus? Má vera. En eru menn með heppilegri lausnir á takteinum? Er ekki Íslandssjóðurinn bara grá upplagður?
« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31