A A A
  • 1927 - Rannveig Guðjónsdóttir
  • 1970 - RAIVO SILDOJA
05.07.2014 - 06:41 | Hallgrímur Sveinsson og Bjarni Georg Einarsson

Hvers vegna lögðust Hornstrandir í eyði?

Hallgrímur Sveinsson og Bjarni G. Einarsson.
Hallgrímur Sveinsson og Bjarni G. Einarsson.
« 1 af 2 »
Í vikunni hófust sumarhúslestrar hjá Morgunklúbbnum í sundlauginni hjá henni Tobbu á Þingeyri. Eru þeir yfirleitt í gangi á vetrum, en nú heimta menn að slíkt sé einnig haft um hönd á sumrin. Íslendingar hafa nefnilega allt frá landnámsöld haft gaman af að hlusta á upplestra, sögur og frásagnir. Þetta er einhver innri þörf, sem er innbyggð í þjóðarsálina. 

Tekin var fyrir nýja bókin Hornstrandir og Jökulfirðir. Lesið var úr hressilegu viðtali Finnboga Hermannssonar við Huldu Margréti Eggertsdóttur í Bolungarvík. Hún fór sem ráðskona 15 ára gömul norður að Horni vorið 1951 með liði Bolvíkinga til eggjatöku í Hornbjargi. Þar hitti hún verðandi kærasta sinn, Þorkel Sigmundsson. Svo fóru þau bara að búa við yzta haf. En það var stutt. Byggðin var að hrynja um það leyti. Finnbogi spyr hvort þetta hafi verið ást við fyrstu sýn. 

„Ég held það bara og ég gleymi því aldrei þegar við byrjuðum svona að blikka hvort annað og þetta var í Kristinshúsinu og vorum uppi á lofti að spila rakka og það um miðjan dag. Birtist þá ekki Sigmundur gamli faðir hans upp um loftsgatið og segir við son sinn hálfþrítugan: „Farðu nú að koma heim að sofa.“ Hefur ekki viljað að sonur sinn væri að fleka einhverja stelpugálu úr Bolungarvík.“ 

Þá var lesin dramatísk frásögn Stefaníu Guðnadóttur frá Hælavík, Þannig var það, sem segir frá nærri óyfirstíganlegum erfiðleikum sem var við að eiga þegar unga fólkið vildi gera sér glaðan dag og hittast. Var það um jólaleytið um 1920. Stefanía segir: 

„Mikið var nú hlakkað til, sérstaklega hjá okkur kvenfólkinu. En það leit ekki út fyrir að hamingjan ætlaði að vera okkur hliðholl, því snjónum kyngdi niður mest alla vikuna fyrir laugardaginn, þegar skemmtunin átti að vera. Loks rann þó upp þessi langþreyði dagur, dimmur og þungbúinn, en lítið snjóaði. 

Leizt karlmönnunum ekki vel á veðrið og þaðan af síður á færið, því snjórinn var svo laus, að ekki var hægt að nota skíði. Okkur konunum fannst hins vegar óbærilegt að hætt yrði við skemmtunina, sem við höfðum hlakkað svo mikið til, og því hvöttum við mjög til fararinnar. Niðurstaðan varð því sú, að ákveðið var að fara, og var síðan lagt af stað. Ferðin gekk mjög seint, piltarnir gengu á undan en við stúlkurnar fylgdum fast á eftir, gengum í slóðina og voru bakkar hennar oft í mitt læri og meira, svo mikið var snjókafið.“ 


Við þennan lestur vöknuðu nokkrar spurningar hjá okkur félögum.

- Hvers vegna ætli Hornstrandir hafi farið í eyði? 
- Hefur það verið rannsakað? 
- Íbúum á Vestfjörðum fækkar, fækkar og fækkar. Fátt virðist geta stöðvað þá þróun að allur landshlutinn fari sömu leið og Hornstrandir. 
- Hefur það verið rannsakað? 
- Vestfirðingar sem aðrir landsmenn eru fastir í einhverju mannfjandsamlegu kerfi sem enginn virðist ráða við og lifir sjálfu sér. Þó menn horfi á fiskinn synda nánast upp í kálgarða hjá sér mega þeir ekki róa til fiskjar sér og hyski sínu til bjargar. 
- Hvaða áhrif skyldi þetta hafa á andlega líðan fólks? 
- Hefur það verið rannsakað? 

Í frystihúsunum á Vestfjörðum er um og yfir helmingur vinnuaflsins útlendingar. Besta fólk allt það fólk. Þessi staðreynd er sjaldan nefnd. Skyldu áhrifin af þessu nokkuð hafa verið rannsökuð? 

Sumir óska þess að Vestfirðir verði Mallorca norðursins. Þeir hinir sömu hefðu átt að sjá fréttaskýringu Sjónvarpsins um þessa fallegu eyju í Miðjarðarhafi. Skyldi það hafa verið rannsakað hvaða áhrif örtröð ferðamanna mun hafa á Vestfirði og Vestfirðinga? 

– Hallgrímur Sveinsson og Bjarni Georg Einarsson, Dýrafirði.
« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31