A A A
  • 1928 - Unnur Hjörleifsdóttir
22.11.2009 - 12:42 | Hallgrímur Sveinsson

Hvar hafa dagar lífs ţíns lit sínum glatađ?

Höfundur greinarinnar, Hallgrímur Sveinsson
Höfundur greinarinnar, Hallgrímur Sveinsson
Svo spurði Jóhann Jónsson (1896-1932). Þessi ljóðlína skáldsins úr kvæðinu Söknuður er sígild og má vel yfirfæra á heilu þjóðfélögin jafnt og einstaklinga, ef svo ber undir. Spyrja má: Hvar hefur okkur Íslendinga borið af leið? Skyldi byrjunin hafa verið þegar þjóðin fór að ala upp kynslóðir sem sjaldan eða aldrei hafa þurft að dýfa hendi í kalt vatn?
Við skulum nú vitna í þrjá menn. Allir gengu þeir í háskóla alþýðunnar, skóla hins vinnandi manns, uxu af því, urðu menn að meiri og skilningur þeirra á gildi vinnunnar varð þeim til mikillar blessunar. Fyrstan skulum við kalla til Steingrím Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra. Hann segir svo í sínum merku endurminningum, sem Dagur B. Eggertsson skráði, 2. bindi, bls. 28, Vaka-Helgafell hf. Rvk. 1999: "Kynni mín af Vestfirðingum eru á við að ganga í marga háskóla. Þannig hef ég komist að orði allt frá fyrstu kosningabaráttu minni árið 1967. Þau kynni hefðu nægt mér sem fullgild ástæða til að fara í framboð. Þarna var alþýðan að störfum og hvergi var látið bugast þrátt fyrir erfiðleika í efnahagslífi eða hamfarir náttúrunnar. Sú saga sem fólst í samtökum fólksins og starfsháttum var mér ótæmandi lærdómssjóður. Af viðtölum við eldra fólk mátti læra margt um tíma sem var horfinn en varðveittist í frásögnum og endurminningum."

Fiskiðja Dýrafjarðar hf. á Þingeyri var þróttmikið og vel rekið fyrtæki um áraraðir og var þar aðallega unninn saltfiskur. Þar unnu margir eftirminnilegir persónuleikar. Í daglegu tali manna var fyrirtækið oftast kallað Bóla. Er sú sögn til þess, að þegar það var stofnað á sjötta áratug 20. aldar á Eiríkur Þorsteinsson, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Dýrfirðinga, að hafa verið spurður hvernig honum litist á þennan nýja samkeppnisaðila í fiskvinnslunni. Þá svaraði hinn orðhvati Eiríkur: "Þetta er bara bóla!"

Þorbergur Steinn Leifsson er maður nefndur, verkfræðingur að mennt, Dýrfirðingur í húð og hár, alinn upp á Þingeyri. Þegar hann var 12 ára fékk hann vinnu í Bólu, ásamt vini sínum Pálmari Kristmundssyni, seinna arkitekt. Þorbergur skrifaði skemmtilega frásögn um vinnu þeirra félaganna í Bólu sem birtist í ritinu Mannlíf og saga fyrir vestan, 8. hefti, Hrafnseyri 2001: "Í endurminningunni eru þessi tvö sumur í Bólu mjög skemmtileg. Þó það virðist ekki við fyrstu sýn vera áhugavert fyrir unga drengi að vinna með hálf karlægum gamalmennum í dimmu, köldu og slorugu húsi, voru karlarnir svo sérstæðir og merkilegir að hin mesta skemmtun var fyrir okkur að vinna með þeim. Var það einnig mjög lærdómsríkt að kynnast meðþessum hætti hugsunarhætti, venjum og vinnubrögðum fyrri kynslóða. Vinnan í Bólu var því gott veganesti út í lífið og jafnaðist sennilega á við nokkurra ára háskólanám."

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 1. nóvember s. l. ræðir Pétur Blöndal við Matthías Johannessen, skáld og ritstjóra. Matthías segir: "Í ljóðinu Bregður öld við aðra lýsir Matthías alþýðumanni, sem telur sig hafa frá litlu að segja, en er þó hafsjór af reynslu. Með því dregur Matthías það fram, sem var lýsandi fyrir hann sem ritstjóra, að líta undir yfirborðið og segja frá lífsbaráttu fólks í grunnatvinnuvegunum. „Ég vildi ekki að sífellt yrði talað við þessa fimmtíu Íslendinga sem voru í öllum fjölmiðlum - og endast þar illa. Ég vildi fá óþekkta alþýðufólkið inn í mína veröld. Og græddi mest á því sjálfur. Menntaðasta fólk sem ég hef kynnst er þetta alþýðufólk, sem bjó að meiri reynslu en venjulegur háskóli. Og var meiri næring fyrir sálina, en nokkur nútímaþekking. En þetta fólk hafði yfirleitt ekki lært neitt nema að lifa með náttúrunni, að lifa með umhverfi sínu, eins og það væri partur af því, en ekki drottnari þess. Ég veit þó vel að Fjölnismenn tala um þau miklu fyrirheit sem eru fólgin í því að beisla orku náttúrunnar samfélagnu til heilla. Þetta er eitt af grundvallaratriðum Fjölnis."
Svo mörg eru þau orð þessara ágætu manna og þarf svo sem ekki miklu við þau að bæta. En skyldi næsta skrefið í ógæfuferli þjóðarinnar hafa verið þegar hætt var að senda börn og unglinga í sveit eða í fiskvinnu hjá vinum og vandamönnum í krummaskuðunum? Þess í stað var þeirra staður steinsteypan og malbikið og um að gera að láta þau komast sem minnst í snertingu við náttúruna og vinnandi fólk. Sá mikli misskilningur er efni í aðra grein.
« Júní »
S M Ţ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30