A A A
  • 1927 - Rannveig Guðjónsdóttir
  • 1970 - RAIVO SILDOJA
Hallgrímur Sveinsson.
Hallgrímur Sveinsson.

Nokkrar vinsamlegar athugasemdir við bókina Eyðibýli á Íslandi

 

 Bókin Eyðibýli á Íslandi, 4. bindi, 130 bls. kom út 2013. Fjallar hún um Vestfirði. Aðeins lítill hluti af öllum hinum mörgu eyðibýlum í fjórðungnum er þó nefndur á nafn. Höfundar eru 10 að tölu, auk 7 ráðgjafa og umsjónarmanna. Allt háskólafólk. 35 aðilar studdu við þetta verkefni 2013, aðallega opinberir aðilar eins og háskólar, alls konar söfn og aðrar stofnanir, auk nokkurra einstaklinga. Helstu styrktaraðilar þessarar vestfirsku eyðibýlabókar eru Nýsköpunarsjóður námsmanna, Húsafriðunarnefnd, Mennta- og menningarmálaráðuneytið og sveitarfélög. Ekki er getið um fjárupphæðir styrkja í bókinni.

Vestfirsku Alparnir 

Á bls. 46- 53 er alls greint frá 8 húsum í Þingeyrar-og Auðkúluhreppum og nokkuð fjallað um nánasta umhverfi þeirra. Þessir hreppar eru á skaganum milli Arnar-og Dýrafjarðar, sem oft er kallaður Vestfirsku Alparnir í dag. Einar Þ. Guðjohnsen, ferðmálafrömuður, kom líklega fyrstur manna fram með þá nafngift, vegna hinna hvassbrýndu fjalla á svæðinu, sem minntu hann á hin frægu Alpafjöll suður í Evrópu, en það er önnur saga. Fjöldi laglegra mynda eru af umræddum húsum í bókinni og öðrum eyðihúsum sem um er fjallað á Vestfjörðum. Bókin er ágætlega úr garði gerð sem slík. Svolítið sérstök. Ekki mikið um ásláttarvillur. Er þá eitthvað að mætti spyrja. Því miður. Á áðurnefndum 7 blaðsíðum eru svo ótrúlegar efnis- og klaufavillur að manni fallast eiginlega hendur. Ekki dugar það þó. Vinur er sá er til vamms segir. Undirritaður, sem er nokkuð kunnugur í Vestfirsku Ölpunum, leyfir sér því að benda á nokkrar helstu ambögur í textanum. Skylt er að geta þess að engar athugasemdir eru gerðar við frásagnir af tveimur húsum á svæðinu. Þar er heimildarmaður Hreinn Þórðarson á Auðkúlu.

Tjaldanes      

„Fyrsti landnámsmaðurinn í Arnarfirði byggði hús hér, Örn frá Rogalandi, og gæti fjörðurinn verið nefndur eftir honum,“ segir í eyðibýlatextanum. Örn var aðeins einn vetur á Tjaldanesi. Þar gekk eigi sól af um skammdegi. Svo segir í Landnámu. Líklegt verður að telja að Örn hafi slegið upp tjöldum á Tjaldanesi, eins og talið er að landnámsmenn hafi tíðkað er þeir komu að óbyggðu landi. Fullyrðingin um húsbyggingu Arnar verður því að teljast hæpin.

Ennfremur: „Vestan við húsið (Byggt 1930 af Jóni Kr. Waage, síðar bónda á Hrafnseyri) er steinsteyptur grunnur sem gæti hafa verið notaður sem matjurtagarður.“ Hér þarf ekki vitna við: Um er að ræða bílskúrsgrunn Gunnlaugs bónda Sigurjónssonar.

Um samgöngur við Tjaldanes segir í texta: „Akstursleið frá Tjaldanesi fyrir nesið yfir á Þingeyri í Dýrafirði er torfær en landslagið sérstaklega fallegt.“ Óskiljanleg ályktun. Þokkalegasti þjóðvegur opnaðist að Tjaldanesi um 1950.

 

Stapadalur

„Vegurinn sem liggur þangað er í daglegu tali kallaður Lokinhamravegur. Hann telst illfær og er einungis opinn þegar færð leyfir yfir sumartímann.“

   Þetta fer nú að verða talsvert erfitt! Blessaður Lokinhamravegurinn!  Hvaða rugl er þetta?  Álftamýrarvegur var lagður alla leið í Stapadal um miðjan sjötta áratug 20. aldar.

   „Stapadalsá rennur um utanvert túnið norðvestan hússins.“ Áin rennur alls ekki um utanvert túnið, heldur rennur hún eftir árdal nokkuð djúpum neðan við bakkana utan við túnið.

 

Svalvogar

„Býlið er afskekkt, yst á tanganum við austanverðan Arnarfjörð,“ segir háskólafólkið. Svalvogar eru vestantil við mynni Dýrafjarðar, segir Kjartan Ólafsson í stórvirki sínu Firðir og fólk 900-1900. Arnarfjörður telst aftur á móti ná að Sléttanesi, segir Þórður Njálsson í Árbók F. Í. 1951.

 

Hraun í Keldudal

„Suðaustan við húsið er bærinn Arnarnúpur og þar er gamall sjómannaskóli sem nú hefur verið friðaður.“ Hér tekur steininn úr eins og maðurinn sagði. Bærinn Arnarnúpur stendur innan við Langá, sem liðast eftir dalnum. Sjómannaskóli hefur aldrei verið á Arnarnúpi, svo elstu menn viti, þó ýmsir hafi gert þar garðinn frægan á margan annan hátt. Í Meðaldal innar í Dýrafirði kenndi Kristján Andrésson bóndi þar hins vegar um langt skeið mörgum mönnum stýrimannafræði og seglasaum. Svo segir Kjartan.  Á bökkum Langár að utanverðu, í landi Hrauns, stendur aftur á móti Barnaskólinn í Keldudal sem byggður var 1910. Kennt var í skólahúsinu framundir 1950. Með leyfi, stórmerkilegt hús og sviphreint. Byggt af mikilli framsýni af fátæku sveitarfélagi sem rak um skeið sex farskóla í hreppnum, auk hins fasta skóla á Þingeyri. Mikið er fjallað um Keldudalsskólann í ritröðinni Mannlíf og saga fyrir vestan, sem gefin er út án nokkurra styrkja. Þar er meðal annars frábær grein um skólann eftir Skarphéðin Össurarson, föður utanríkisráðherrans fyrrverandi.

   „Hraun er gömul kirkjujörð og þar stendur kirkja frá 1890….“ Umrætt kirkjuhús var reist 1885 segir í Kjartansbók.

    Sagt er að Jón Bjarnason og Jóna Össurlína Guðmundsdóttir hafi byggt húsið sem enn stendur í Hrauni 1932. Þau bjuggu í Hrauni 1893-1907. Magnús Helgi Guðmundsson og Guðmunda Kristín Guðmundsdóttir komu aftur á móti frá Súgandafirði 1929 og bjuggu þar til 1949. Þau byggðu umrætt íbúðarhús 1932-1934. Útidyrahurð er talin ný en hún er frá sama tíma. Svo segir Gunnar B. Guðmundsson, sem nefndur er sem munnlegur heimildarmaður þeirra sem skrá þetta bull í vestfirsku eyðibýlabókina, en vill ekki við kannast.

   Sveinseyri

„Bærinn á Sveinseyri stendur við austurenda Eyrarfjalls í sunnanverðum Dýrafirði. Mjög víðsýnt er frá bænum yfir Dýrafjörð á Núp og inn Núpsdal og Gerðhamradal í norðri. Eyraroddi heitir eyrin sem gengur út í Arnarfjörð í austur frá bænum.“ Þetta minnir nú á það er forsætisráðherrann okkar flutti Hrafnseyri við Arnarfjörð yfir í Dýrafjörð með einu pennastriki í 17. júní ræðunni sællar minningar. Og er nú nóg komið af svo góðu.

Niðurlag

   Sem áður segir er hér eingöngu fjallað um 7 blaðsíður í umræddri bók. Þeir sem þar stóðu að verki virðast ekki alveg vera með það á hreinu hvar þeir voru staddir. Jarðsambandið virðist eitthvað bilað. Þráfaldlega kemur fyrir í þessum stutta texta að norður er sagt suður, austur vestur og allt þar á milli. Spyrja má hvernig slíkt getur skeð með allt þetta háskólalið í fararbroddi. Alla vega finnst okkur áhugamönnum hér fyrir vestan að eitthvað meira en lítið sé að. Er hugsanlegt að þetta ágæta fólk kunni bara ekki að leita sér heimilda, eða vinna með þær, þrátt fyrir Internet, I-pad og hvað þetta heitir nú allt? Ennfremur: Hvað skyldi verkefni þetta hafa fengið margar milljónir í styrki af opinberu fé?

                                                    Hallgrímur Sveinsson.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31