A A A
  • 1950 - Margrét Guðjónsdóttir
  • 1955 - Angantýr Valur Jónasson
02.01.2015 - 09:13 | Gunnhildur Björk Elíasdóttir.

Gunnhildur Björk Elíasdóttir: - Smá áramótahugleiðing

Gunnhildur Björk Elíasdóttir.
Gunnhildur Björk Elíasdóttir.
Málshátturinn „Enginn veit sína ævina.....“ o.sfr. er svo sannarlega í fullu gildi. Þegar ég lít til baka yfir liðið ár þá sannast það svo sannarlega. Þá var ég á nokkuð erfiðum tímamótum, að missa vinnu, ekki eitt starf heldur tvö hlutastörf. Ég hafði nú kanski ekki ýkja miklar áhyggjur þá, en auðvitað var maður hugsi yfir aðstæðum. Hefði hins vegar einhver sagt mér, um síðustu áramót að ég ætti eftir að hella mér út í kosningabaráttu í sveitarstjórnarkosningum, ja þá hefði ég örugglega beðið um aðstoð fyrir viðkomandi. 

Sú varð nú heldur betur raunin og ég held ég gleymi aldrei símtalinu þegar ég var beðin að taka sæti á Í-Listanum, ég hummaði og hikstaði, var stödd í Reykjavík og sagðist skyldi hugsa málið og vera í sambandi þegar ég kæmi heim, ja kanski einhversstaðar neðarlega á listanum, veit ekki. 

Allir vita svo hvernig framhald þessarar sögu var. Í fimmta sætið sættist kerlan á að setjast, svolítið stressuð vegna þess að þetta sæti er náttúrlega meirihlutasæti og þótt ég væri nú ekkert allt of vongóð þá viðurkenni ég að eftir því sem á leið varð þetta alltaf meira og meira spennandi og líka mjög gaman. 

Að sitja í bæjarstjórn er ábyrgðarmikið starf og lærist ekki á nokkrum vikum, heldur er stöðugt verið að takast á við ný og ný verkefni, og að halda heilu bæjarfélagi, þar sem atvinnuástand er ekki gott, það er mjög krefjandi en að sama skapi mikil áskorun að takast á við með góðum hópi bæjarfulltrúa. 

Að kynnast öllu því góða fólki sem ég hef kynnst frá því ég samþykkti að taka þátt í þessu verkefni, það hefur verið mér mjög lærdómsríkt. Þá er ég að tala um bæði samherja og mótherja, alla fundina, kjósendur og alla þá íbúa sveitarfélagsins sem ég hef hitt á þessari leið minni. Öllu þessu fólki vil ég þakka fyrir samfylgdina á árinu 2014 og vona og veit að við eigum eftir að eiga gott ár 2015, með mörgum og góðum tækifærum, því að þegar við leggjumst öll saman á árar þá gerast hlutirnir. 

Óska öllum íbúum Ísafjarðarbæjar, nær og fjær gleðilegs og kærleiksríks árs og hlakka til að hitta ykkur á nýju ári. 

Gunnhildur Björk Elíasdóttir, bæjarfulltrúi Í-listans.
« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30