A A A
  • 1922 - Guðmundur Magnússon
  • 1942 - Sigurður Jónsson
02.04.2019 - 10:21 | Hallgrímur Sveinsson,Guðmundur Ingvarsson,Bjarni Georg Einarsson

Gjaldþrot WOW air

Stjórnvöld hafa unnið sína vinnu vel!

Nú má rifja upp þá daga 1936-1937 er Útgerðarfélagið Kveldúlfur hf var miðpunktur íslenskra stjórnmála. Stærsta útgerðarfélag landsins og um skeið í heiminum að sögn, rambaði á barmi gjaldþrots. Þá réru Thorsbræður lífróður til að bjarga sínu mikla fyrirtæki. Ólafur Thors flutti þá áhrifaríka ræðu, margir segja þá bestu sem hann flutti á ferli sínum, á Varðarfundi fyrir sneisafullu Gamla bíói.  Rakti opinskátt sögu Kveldúlfs, fjármál hans og fjölskyldunnar. Dró ekkert undan. Veð fyrir öllum skuldum. En það voru haldnar veislur og partý á þeirra tíma vísu. Thorsararnir lifðu hátt á kostnað landsins sagði Jónas Jónsson frá Hriflu. „Ævintýri Jensenssona er orðið of dýrt fyrir almenning í landinu“, bætti hann við.


Björgunaráætlun Jónasar og Ólafs Thors

Jónas setti svo upp það fræga „hægra bros“, öllum að óvörum og allt féll í ljúfa löð milli manna sem ekki höfðu talast við lengi. Þeir Ólafur og Jónas réðu öllu í Landsbankanum, sem hafði fjármagnað Kveldúlf og SÍS líka sem skuldaði þar stórfé. Stjórnvöld ákváðu að bjarga Kveldúlfi. Sagt var að þessi fyrirtæki hefðu haft óheftan aðgang að lánsfé í Landsbankanum. Hvar annarsstaðar áttu þau að fá lánsfé? Björgunaráætlun Ólafs og Jónasar gekk upp þrátt fyrir mikil þjóðfélagsleg átök.

  
Slatti af vatni er til sjávar runnið síðan þessi saga gerðist. Landið, eins og Jónas frá Hriflu kallaði það opinbera oft, hefur á öllum tímum orðið að hlaupa undir bagga og „bjarga“ einkafyrirtækjum sem störfuðu undir hf nafninu. Af illri nauðsyn og oft vegna brýnna hagsmuna almennings í landinu en ekki endilega eigenda og stjórnenda. Stundum hefur það lánast og stundum ekki. Hjá Kveldúlfi lágu undir hagsmunir þúsunda manna til sjós og lands. Félagið malaði gull í þjóðarbúið í mörg ár eftir „björgunina“. Þegar upp var staðið löngu seinna og félagið hætt öllum rekstri, var það gert upp á eðlilegan hátt. Skilanefndarmaður Kveldúlfs, Guðlaugur Þorláksson, skrifar 30. okt. 1972 til Landsbankans, að félagið eigi 25 millj. kr. umfram eignir. Svipað var með Sambandið þegar það var gert upp. (Sjá Guðjón Friðriksson: Ljónið öskrar og Matthías Johannessen: Ólafur Thors)

  
Einar Guðfinnsson hf í Bolungarvík var keyrt í þrot. Þar var það þriðja kynslóðin sem klikkaði sögðu menn. Hafskip hf var keyrt í þrot. Þar var bæði bruðl, partý og veisluhöld. Hvorugt þeirra var í raun gjaldþrota segja þeir sem vit hafa á í dag. Meðferð þessara stoðfyrirtækja hafði gífurlega neikvæð áhrif á þjóðarbúið. Allir milljarðarnir sem fóru í vaskinn að ekki sé talað um hina andlegu hlið þeirra sem fyrir urðu. Og öll höfðu þau greitt marga milljarða á núvirði í vexti, dráttarvexti, vaxtavexti og vexti líka af þeim eins og þar stendur. Og eitt stykki banki bar ekki sitt barr eftir darraðardansinn.


Gjaldþrot WOW air

Og nú er það WOW ævintýrið. Félagið flutti þrjár og hálfa milljónir farþega á liðnu ári. Sennilega mátti meta auðinn í starfsfólki félagsins og vörumerki á marga milljarða. Öllu kastað fyrir borð á flugi. Nú má vera að þetta dæmi hafi verið vonlaust. Samt sem áður má spyrja hvort ekki hefði verið heppilegra að sletta einhverjum milljörðum tímanlega í WOW, handstýra félaginu og losna við eftirleikinn í bili:  

  
Aldrei hafa jafn margir misst vinnuna í einu í Íslandssögunni. Ótrúlegar hliðarverkanir í þjóðfélaginu. Kjarasamningar í uppnámi. Samdráttur á Keflavíkurflugvelli. Samdráttur í ferðaþjónustunni. Ábyrgðarsjóður launa og Atvinnuleysistryggingasjóður stynja. Þar vantar sennilega milljarða á komandi mánuðum. Einn maður 563 þúsund kr. á mánuði. Þúsund menn 563 milljónir pr. mánuð. Svo geta menn reiknað fram og aftur. Hér er sennilega um að ræða tap fyrir þjóðarbúið upp á milljarðatugi ef allt er reiknað. „Maður verður klökkur og sorgmæddur“, segir starfsfólkið.

  
Sagan segir okkur blákalt að það verður stundum að handstýra í þessu bananalýðveldi okkar. Hvað ef stjórnvöld hefðu ekki sofið svefni hinna réttlátu fyrir hrun?  

Ríkisstjórn lítilla  sanda og lítilla sæva

Núverandi stjórnvöld hafa unnið sína vinnu vel, segir fjármálaráðherra. Höfum fylgst vel með öllu, segja ráðherrarnir. Nema hvað. En þeir sjá ekkert nema neyð. Alveg klárir með neyðaráætlun. En raunhæfar aðgerðir? Nei, það má ekki. Þetta er nefnilega hlutafélag! Svo eru settar 80 milljónir króna í Atvinnuleysistryggingasjóð í dag. Strætópeningar. Svo eigum við 30 milljarða handan við hornið ef illa fer, segja ráðamennirnir. Ríkisstjórn sem þekkir ekki sinn vitjunartíma. Og skiptaráðendur? Þeir fá væntanlega einhverja milljónatugi í sinn forgangshlut.

   
Almenningur hefur fylgst undrandi með þessu sorglega máli. Hvert barn hefur séð að það átti að vera búið að setja Mogensen, þann góða mann, til dæmis í stöðu starfsmannastjóra og þar með yfirmann partýhalds. Og það án afskipta af fjármálum félagsins. Selja svo farmiða á réttu verði. Það þurfti bara að sögn fimm milljarða á lokasprettinum, þegar skuldabréfaeigendur voru búnir að breyta sínum milljörðum í 49% hlutafjár. Ríkisstjórnin? Nei það má ekki rétta hendi. Bara neyðaráætlun. Og Alþingi úti að aka eins og venjulega. Það tapa allir á verkföllum. Það sama er með vissa tegund af gjaldþrotum. Þar tapa allir nema þeir sem fá eignir á brunaútsölu og skiptaráðendur.

 
« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31