A A A
  • 1982 - Sveinbjörn Halldórsson
15.10.2015 - 07:40 | Hallgrímur Sveinsson

Gamansemin er beittasta vopnið

Björn Pálsson frá Löngumýri.
Björn Pálsson frá Löngumýri.

Árið 1990 gaf Forlagið út bókina Ég hef lifað mér til gamans eftir Gylfa Gröndal. Þar rekur Gylfi æviferil Björns á Löngumýri og skráir eftir söguhetjunni. Bók þessi ætti að vera skyldulesning allra þingmanna. Hvað ber til þess? Jú, bókin lýsir svo skemmtilegum karakter að unun er að lesa. Þar ber allt að sama brunni, til dæmis þetta:

            „Því er þannig varið með þessar blessuðu stjórnir okkar, að flestir verða fegnir, þegar þær hætta. Fólkið man ekki stundinni lengur hverjir hafa verið ráðherrar og hverjir ekki; þeir þurrkast úr huga almennings á augabragði. Nöfn og ártöl eru að vísu skráð í bækur alþingis, en útilokað er, að nokkurn reki minni til slíks, ráðherrarnir sjálfir eru hinir einu, sem muna eftir þessu. Ég hef oft lýst í vinahópi, hvernig jafnvel bestu menn breytast, þegar þeir verða ráðherrar; þeir reyna að rétta úr hoknum herðum og tylla sér á tá í sífellu, sumir líta jafnvel til himins, eins og helgir menn. Og geispa í tíma og ótíma á þingfundum!“

            Það er enginn venjulegur maður sem svo segir:

            „Það var líka fjörugt hjá okkur út af nýju lögunum um barnavernd, sem Gylfi Þ. Gíslason ætlaði að setja, hann var svo duglegur að skipa nefndir og láta semja fyrir sig frumvörp, þetta voru stærðar lagabálkar. – Ég minntist á búskapinn í sveitum landsins og hvernig hann ætti að geta gengið, ef gamlir foreldrar yrðu að basla við það einir að mjólka á kvöldin, en stálpaðir krakkar þeirra mættu ekki einu sinni reka kýrnar út fyrir túngirðinguna. Engu var líkara en þeir, sem sömdu þetta dæmalausa frumvarp hefðu átt heima á tunglinu. – Svo máttu unglingarnir ekki elskast, fyrr en þeir væru orðnir 18 ára; það var tveggja ára tugthús, ef þeir gerðust sekir um að fikta við slíkt fyrr. Ég hafði ekkert nema gott um það að segja, að unga fólkið hegðaði sér skikkanlega, en ég gat ekki stillt mig um að spyrja Gylfa, hvort hann ætlaði að passa allar stelpur, þangað til þær væru orðnar 18 ára; og stráka kannski líka!“

            Enn segir Björn:

            „Það bar til tíðinda í kosningunum 1967, að drottinn sendi mér Eykon, Eyjólf Konráð Jónsson, sem skipaði þriðja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins; það var himnasending fyrir mig að fá hann; þá þurfti ég ekki lengur að slást eingöngu við Ragnar Arnalds. Eyjólfur er snaggarlegur maður, snúningalipur og hefur trú á því, að hann hafi dálítið fjármálavit. Á Hvammstangafundi sagði ég, að hann væri besta efni í smala, sem ég hefði kynnst, og bændurnir höfðu gaman af því. Einnig lét ég þess getið, að ég hefði verið að baksa við að koma lambi á spena, en gengið illa; þá hefði mér orðið hugsað til Eykons, því að hann ætti svo gott með að beygja sig. Þegar ég sagði þetta, hlógu bændurnir, og Eykon skemmti sér vel líka. Að fundinum loknum biðu margir eftir mér niðri á vegi og vildu spjalla við mig, það gildir á kosningafundum að koma mönnum í gott skap. Sá, sem veldur leiðindum, hlýtur að tapa, þurrspeki gengur ekki, og rætni og rótarskapur getur verið neikvæður, gamansemin er beittasta vopnið.“

            Enn kvað Björn og taki menn nú eftir:

            „Þegar ég settist fyrst á þing, hélt ég í bjartsýni minni, að ég gæti gert eitthvert gagn með því að vera á móti því, sem vitlaust var. En eftir að hafa gegnt þingmennsku í sextán ár, var mér orðið ljóst, að ekki er hægt að ráða við vitleysuna, það hefur enginn getað og mun enginn geta.“

           Alþingi þarf sárlega á að halda fleira fólki með karakter Björns Pálssonar frá Löngumýri. Ætli það yrði ekki til þess að virðing þjóðþingsins mundi vaxa með þjóðinni á nýjan leik?

 

Hallgrímur Sveinsson.

« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31