A A A
29.04.2016 - 08:14 | Vestfirska forlagið,Hallgrímur Sveinsson

Fréttamaðurinn

Óðinn Jónsson.
Óðinn Jónsson.

 Óðinn Jónsson, þáv. fréttastjóri Ríkisútvarpsins, birti eftirfarandi  fréttareglur og vinnuleiðbeiningar fyrir starfsmenn Fréttastofu RÚV árið 2011. Fróðlegt er fyrir almenning að lesa slíka pistla.

 

Fréttamennska er skemmtilegt, fjölbreytilegt og ögrandi starf. Verkefni fréttamannsins eru sannarlega mörg og ólík. Engir tveir dagar eru eins. Nánd við hagsmunabaráttu eða viðkvæmar og erfiðar aðstæður eftir hamfarir eða slys getur auðvitað reynt á fréttamanninn. Þetta er ekki friðsælasta og átakaminnsta starf sem hægt er hugsa sér, það gleypir gjarnan þann sem sinnir því, mótar líf hans og viðhorf. Jafnvel má segja að fréttamennska sé lífsstíll eða lífsafstaða.

Góður fréttamaður upplifir sig að nokkru utangarðs, af því að hann vill varðveita sjálfstæði sitt og hlutlægt viðhorf til manna og málefna. Hann er ekki félagsmálatröll, predikari eða mannkynsfrelsari, með fullri virðingu fyrir slíku fólki. Þeir sem vilja boða og breyta og hafa vit fyrir öðru fólki eiga ekki að leggja fyrir sig fréttamennsku. Fréttir eru ekki boðskapur, ekki stóri sannleikur eða hin eina og rétta mynd af heiminum eða veruleikanum. Fréttir eru einfaldlega fréttir, takmarkaðar og ófullkomnar frásagnir af viðburðum, breytingum, þróun, reynslu fólks og upplifun.

 

   Fréttamaðurinn er sagnaþulur, túlkandi og miðill upplýsinga, vakandi fyrir umhverfinu, þörfum, viðhorfum og velferð almennings. Hann leggur sig fram um að draga upp sanngjarna og trúverðuga mynd af viðfangsefni sínu, leitast við að glæða frásögn sína lífi og litum. Fréttir eru sögur en aldrei skáldskapur. Fréttamennska er skapandi starf af því að fréttin er aðeins valið brot af veruleikanum – fært í búning, túlkað eða endursagt fyrir áhorfandann, hlustandann eða lesandann. Góð og eftirminnileg fréttafrásögn er hnitmiðuð, fáguð og áhugavekjandi. Hún skilur eitthvað eftir og hreyfir við fólki.

 

   Fréttamaðurinn á allt sitt undir því að honum sé treyst, bæði af hálfu heimildarmanna og þeirra sem styðjast við verk hans – fréttirnar sem hann skrifar og flytur. Traust öðlast hann með því að sýna í verki heiðarleika, sanngirni og nákvæmni. En jafnvel þessir góðu eiginleikar duga skammt ef ekki er fyrir hendi brennandi áhugi á fólki og samfélagi þess, forvitni, dugnaður og hugrekki. Góðir fréttamenn eru reiðubúnir að leggja á sig mikið erfiði til að klófesta gott söguefni og koma því til skila í áhugaverðum búningi. Þeir styðjast við starfsfélaga og yfirmenn sem liðsinna og gagnrýna á uppbyggilegan hátt, veita leiðsögn og stuðning. Allt starf okkar byggist á heilindum – að samræmi sé milli orða og athafna, að vinnureglum sé fylgt og góðar verkhefðir haldnar í heiðri.

 

Ríkisútvarpinu, 8.mars 2011

Óðinn Jónsson

fréttastjóri RÚV

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31