A A A
26.04.2010 - 11:41 |

Enn um Dýrafjarðargöng

Dýrafjörður
Dýrafjörður
Ágætir lesendur Þingeyrarvefsins !

 

Samgönguráðherra, Kristján L. Möller gerir heiðarlega tilraun til að útskýra, í bréfi sem m.a. hefur birst á vefmiðlum, að Dýrafjarðargöng hafi ekki verið slegin af - heldur hafi þeim verið seinkað. Er það nú allskostar rétt ? Í tillögu að matsáætlun um framkvæmdir við Dýrafjarðargöng, sem unnin var af Vegagerðinni, og dagsett er í ágúst 2008, kemur fram að fyrirhugað er að hefja framkvæmdir við þau á síðari hluta árs 2009. Vorið 2009, sagði Kristján L. Möller samgönguráðherra frá því á kosningafundi á Akureyri að þegar hann kom í samgönguráðuneytið, - 18 mánuðum fyrr, hafi ekki verið byrjað að hanna Norðfjarðargöng en nú (í maí 2009) væru þau að verða tilbúin til útboðs. Ef fullyrðing samgönguráðherra um, - að vegna efnahagsástandsins verði að seinka öllum framkvæmdum allsstaðar á landinu, er rétt, - þá hljóta þær framkvæmdir að koma fyrst í röðinni sem fyrst var byrjað á að hanna og engst komnar í undirbúningsferlinu.

 

Í samgönguáætlun sem nýlega var lögð fram á Alþingi á bls. 26 kemur skýrt fram að á árinu 2011 skal veita 220 mkr til Norðfjarðarganga og 1174 mkr til sömu framkvæmdar árið 2012. Ekki verður annað ráðið af áðurnefndri samgönguáætlun en þetta séu einu fjárframlögin til jarðgangagerðar fram til ársins 2012. Sem sé, - ekki ein króna í Dýrafjarðagöng.

 

Vestfirðingar, - Dýrfirðingar, Barðstrendingar og annað áhugafólk um löngu, löngu tímabærar samgöngubætur á landleiðinni; Bjarkarlundur - Þingeyri. Láið í ykkur heyra ! Veitið nú þingmönnum NV-kjördæmis stuðning og aðhald til þess að hnekkja því óréttlæti og grófu mismunun sem íbúar á suðursvæði Vestfjarða hafa mátt búa við í samgöngumálum áratugum saman.

 

Höfundur er sviðsstjóri ráðgjafarsviðs Bændasamtaka Íslands
« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31