Dýrafjörður á tímamótum
Þingeyri hefur verið boðin þátttaka verkefninu Brothættar byggðir á vegum Byggðastofnunar að beiðni Ísafjarðarbæjar. Forsendur fyrir þátttöku í verkefninu er m.a. skökk aldursdreifing, viðvarandi fólksfækkun og einhæft atvinnulíf. Markmið Brothættra byggða er að fá fram skoðanir íbúanna á framtíðarmöguleikum byggðarinnar og leita lausna á þeirra forsendum í samvinnu við ríkisvaldið, landshlutasamtök, atvinnuþróunarfélag, sveitarfélagið, brottflutta íbúa og aðra.
Árið 1998 bjuggu 371 íbúi á Þingeyri en árið 2017 voru íbúarnir orðnir 263. Á tímabilinu hafa dunið yfir nokkur áföll í fiskvinnslunni með tilheyrandi atvinnuóöryggi fyrir íbúa. Á sama tíma hefur opinber þjónusta sem og þjónusta einkaaðila dregist saman. Það var mat okkar í bæjarstjórninni að við yrðum að leita leiða til að bregðast við því ástandi sem upp er komið.
Tækifæri í augsýn
Þó að hagtölurnar á Þingeyri sýni dökka mynd, eins og staðan er í dag, þá er full ástæða til bjartsýni. Lykilatriðið er að styrkja íbúana og samfélagið og höfum við ýmis verkfæri til þess, þ.m.t. verkefni eins og Brothættar byggðir og Blábankann.
Árið 2020 opna Dýrafjarðargöng sem verður algjör bylting fyrir samfélög á Vestfjörðum og ekki síst fyrir Dýrafjörð sem verður miðja Vestfjarða. En hvernig ætlum við að nýta okkur þessa nýju stöðu? Ég er sannfærð um að göngunum muni fylgja mikil tækifæri fyrir Þingeyri til að ná vopnum sínum á nýjan leik, með aukinni ferðaþjónustu, menningu og stórefldri fiskeldisstarfsemi. Þess má líka geta að ljósleiðaratenging Dýrafjarðar, með Snerpu í fararbroddi, heldur áfram en þær framkvæmdir munu skipta samfélagið gríðarlega miklu máli.
Blábankinn – nýsköpun í þjónustu
Blábankinn er heiti á samfélagmiðstöð sem opnuð var á Þingeyri í september sl., en um er að ræða tilraunaverkefni til þriggja ára í nýsköpun í opinberri þjónustu til að takast á við breytingar í smærri samfélögum. Verkefnið er sprottið úr þeirri stöðu sem myndaðist á Þingeyri haustið 2015 þegar að Landsbanki Íslands lokaði útibúi sínu en önnur þjónusta í byggðarlaginu hafði einnig dregist saman samhliða því að íbúum hafði fækkað. Atvinnulífið á Þingeyri er frekar einhæft og mikil þörf fyrir að skapa ný atvinnutækifæri með breyttum tilverugrundvelli byggðarlagsins.
Fjölbreytt starfsemi
Markmið Blábankans er að skapa vettvang þar sem hægt er að veita fjölbreytta þjónustu með litlum tilkostnaði. Blábankanum er ætlaður að vera samverustaður og fastur punktur í tilveru íbúa Dýrafjarðar. Þar er vettvangur fyrir ríkisstofnanir, einkaaðilar og sveitarfélagið til að leggjast saman á árarnar til dæmis með því að þróa nýtingu nútíma tækni til að efla þjónustu í nærsamfélagi. Það er eitt af markmiðum Blábankans að stuðla að samheldni meðal íbúa og skapa rými þar sem fólk getur komið saman, rætt og þróað nýjar hugmyndir.
Í Blábankanum hefur verið komið upp vinnuaðstöðu fyrir frumkvöðla, fyrirtæki og aðra sem þurfa skrifstofuaðstöðu til lengri eða skemmri tíma auk þess sem hægt er að leigja fundaraðstöðu.
Í Blábankanum má nálgast þjónustu Ísafjarðarbæjar, Landsbankans, Verk Vest og bókasafns og þar eru reglulega haldnir viðburðir og námskeið.
Öflugt samstarf
Blábankinn er fyrirmyndar dæmi um hvernig hið opinbera og einkaaðilar geta unnið saman að sameiginlegum hagsmunum. Bakhjarlar Blábankans eru Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Landsbanki Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Ísafjarðarbær, Simbahöllin, Vestinvest, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Snerpa, Arctic fish, Pricewaterhouse Coopers og Pálmar Kristmundsson.
Góð byrjun
Blábankinn hefur farið mjög vel af stað og er ástæða til bjartsýni hvað varðar áframhaldandi þróun starfseminnar. Vel tókst vel með ráðningu tveggja starfsmanna en Arnar Sigurðsson og Arnhildur Lilý Karlsdóttir tóku til starfa í fyrra sumar og segja má þau hafi þegar sett mark sitt á starfsemina. Á fyrstu mánuðunum hafa verið haldnir fjölda margir viðburðir s.s. fundir, námskeið og kynningar í Blábankanum eða á hans vegum.
27 einstaklingar hafa nýtt sér vinnuaðstöðu í Blábankanum til lengri eða skemmri tíma, og verða a.m.k. tvö nýsköpunarverkefni með starfsstöð að hluta á næstu mánuðum í Blábankanum.
Blábankahraðallinn
Eitt af þeim spennandi verkefnum sem eru í gangi í Blábankanum er Blábankahraðallinn sem er vettvangur fyrir sprotafyrirtæki, frumkvöðla, listafólk og skapandi einstaklinga sem eru með hugmynd eða verkefni sem þeir vilja vinna og þróa frekar. Þetta er boð um að koma og dveljast á Þingeyri í allt að þrjár vikur í maí og fá tækifæri til að vinna að eigin hugmynd í skapandi umhverfi með aðstoð sérfræðinga eftir atvikum. Alls sóttu 14 verkefni um að fá taka þátt í Blábankahraðlinum sem verður að teljast góður árangur.
Íbúaþing framundan
Helgina 10. – 11. mars er íbúum á Þingeyri, og öðrum sem hafa tengsl við staðinn, boðið til íbúaþings í félagsheimilinu undir merkjum Brothættra byggða. Það eru Byggðastofnun, Ísafjarðarbær, Fjórðungssamband Vestfirðinga, Vestfjarðastofa og síðast en ekki síst íbúar sem bjóða til þingsins en fulltrúar þessara aðila skipa verkefnisstjórn. Þær hugmyndir og ábendingar sem koma fram á íbúaþinginu ásamt stöðugreiningu verða efniviður fyrir verkefnisáætlun með framtíðarsýn og markmiðum fyrir byggðaþróunarverkefni á Þingeyri, sem staðið getur í allt að fjögur ár. Raddir íbúa og frumkvæði skipta miklu máli í þeirri vinnu sem nú er framundan.
Blábankinn, Brothættar byggðir og bættar samgöngur munu verða vegvísir til bjartari tíma í Dýrafirði. Þetta eru þau verkfæri sem við getum notað til að ýta undir fjölbreytni starfa og fleiri tækifæri.
Sjáumst í félagsheimilinu á Þingeyri laugardaginn 10.mars kl. 11.
Arna Lára Jónsdóttir
Formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar og oddviti Í-lista