A A A
  • 1931 - Valgerđur Kristjánsdóttir
  • 1956 - Auđbjörg Halla Knútsdóttir
  • 1984 - Hrafnhildur Ýr Rafnsdóttir
  • 1988 - Emil Ólafur Ragnarsson
18.03.2014 - 06:39 | Hallgrímur Sveinsson

Bör Börsson og Óli í Fitjakoti

« 1 af 2 »

Um þessar mundir eru liðin 70 ár síðan Helgi Hjörvar þýddi og las í beinni útsendingu í útvarpið söguna um Bör Börsson eftir norska skáldið Johan Falkberget. Þá tæmdust götur og allir sem vettlingi gátu valdið til sjávar og sveita hlustuðu á lestur hans og leik. Bör Börsson júníór og flest hans háttalag er klæðskerasaumað upp á okkur frændur hans hér á eyjunni. Það hefur oft sannast áþreifanlega frá því Helgi las og allt Ísland hlustaði. Er þar margt líkt með skyldum.

    Einn af mörgum óborganlegum karakterum í sögunni er Óli bóndi  Pétursson í Fitjakoti. Hann telur að flest sem aflaga fer sé öðrum að kenna. Óli þurfti oft að taka lán. Þegar allt var komið í strand hjá honum, kom gamli sýslumaðurinn í Fitjakot með lagastafinn í höndunum og hélt uppboð og seldi allt, smátt og stórt. Allt fyrir sparisjóðinn, allt til að bjarga sparisjóðnum.       

   Þegar Bör opnaði nýju krambúðina á Öldurstað ætlaði Fitjakotsbóndinn að biðja hann að kríta smávegis hjá sér í bráð. Hann myndi borga honum hvern eyri, ekki að tvíla með það! En Bör var erfiður. Þegar Óli hljóp við fót ofan eftir nýja sýsluveginum um morguninn, grunaði hann að þetta yrði leiðindadagur. Þá skaust nefnilega grái kötturinn hennar Brittu gömlu Sýrusdóttur yfir veginn fyrir framan hann. Og það áður en honum ynnist tími til að hrækja þrisvar. Og þá var nú ekki að sökum að spyrja! Bara hann gæti einhverntíma fengið tak á þessum kattardjöfli hennar Brittu, þá mundi margt snúast á betri veg. Hvern einasta morgun sem Óli í Fitjakoti kom út, þá þaut kötturinn þvert yfir veginn og hlaðið. Hann var þessi andskotans eldibrandur, að það var ekki viðlit að geta hrækt í tæka tíð!

        Hvílíkur skínandi húmor hjá Johan Falkberget og Helga Hjörvar!

    

Úttroðið seðlaveskið virkaði

 

   Bör keypti sér hlut í banka. Nema hvað. Það var Einkabanki Öldurdæla. Á aðalfundi bankans lagði hann til í ræðu að bankinn skyldi útvíkka starfsemi sína, stofna útibú eins og þeir stóru í Niðarósi. Þegar karlarnir fóru eitthvað að ambra, sagði Bör: „Ef þið viljið ekki samþykkja mína heiðruðu tillögu, þá skal ég sýna ykkur það, að ég get stofnað minn eigin banka sjálfur, in kassó.“ Fleygði svo úttroðnu seðlaveski sínu á borðið. Öldurdalskarlarnir hrukku upp í stólunum. Enginn þeirra hafði vitað að Bör væri svona forríkur og ætti þennan fjanda af peningum. Hann var kosinn í stjórnina og lét upp frá því kalla sig herra bankastjórann.

 

Salta og Malta

    Í Osló hitti Bör víxlarana Sól og Mána. Þá var hann líka orðinn dírektör, eins og Ólsen músapúlversdírektör í Niðarósi. Sólin og Máninn töluðu um hlutabréf og farmgjöld og bólgu og hrun. (Kannast menn nokkuð við orðalagið?) Þeir höfðu frétt að nóttina áður hefði skipinu Salta verið sökkt í Norðursjónum. Síðustu dagana höfðu þeir keypt öll hlutabréf sem þeir komust yfir í félaginu Salta hf. Þeir höfðu nefnilega frétt frá áreiðanlegum heimildum að stjórn félagsins ætlaði að úthluta sjötíu prósent til hluthafa. En nú var allt hrunið. Þá datt Mána í hug að koma hlutabréfunum yfir á dírektör Börsson áður en þetta fréttist. Og það gerðu þeir. Áður en Bör vissi af var hann búinn að skrifa nafn sitt á kaupseðilinn. Svo kom reiðarslagið. Það var ekki e/s Salta sem hafði verið sökkt, eins og sagði í símskeytinu frá London. Það var e/s Malta! Hlutabréfin í Salta þutu upp um 140%. Sól og Máni sátu eftir með sárt ennið.

 

Sýndarmennskan og hið ranga mat alls

 

      Í útgáfu  Almenna bókafélagins 1988 skrifar Hjörtur Pálsson svo um Bör Börsson í formála:

 

    „Ekki þarf að bera ýkja víða niður í sögunni til þess að Íslendingurinn 1988 kannist við sig í Kjósinni. Þó að einungis séu teknar tvær tilvitnanir um æðsta draum grósserans á Öldurstað og fjárfestingargleði Péturs í Lækjarbotnum  -- önnur að vísu úr seinni sögunni um Bör — segja þær sína sögu:

   „Peningar voru æðstu gæði sem til eru á þessari jörð. Enginn hlutur annar getur gert manninn eins glaðan og sælan og peningar. Það hafði verið hans æðsta markmið í lífinu frá blautu barnsbeini að eignast stóra bankabók  -- bankabókin þótti honum besta bókin sem til var í heiminum.“---

   „En vegna þess arna þarf Pétur að fá lán á lán ofan. Og svo þarf hann að fá lán til að bjarga láninu. Og loks er hann orðinn leikinn í að borga gamla skuld með nýrri skuld. Í þessu er hann orðinn mesti snillingur.“

   Sagan um Bör Börsson er hvorki meira né minna en hún er og ætlar sér að vera: ærsl- og ádeilusaga sem höfundurinn kvaðst, þótt ótrúlegt megi virðast, hafa skrifað „af fyllstu alvöru og gremju – ekki þó fyrst og fremst yfir Börsson eðli mannsins, svo slæmt sem það getur þó verið í sjálfu sér--

heldur yfir sýndarmennskunni, hinum gyllta leir – og hinu ranga mati alls.“

   

   Sagan af Bör birtist upphaflega 1917 sem neðanmálssaga í norsku blaði, samin jafnóðum eftir þörfum. Þó ýmsir hafi álitið að hún  hafi ekki mikið bókmenntalegt gildi, þá er hún annað og meira. Bör Börsson var nokkurs konar forsögn eða forspá, ekki síst fyrir okkur frændur hans. Leiftrandi húmor sem allir geta haft gagn og gaman af.

« Júní »
S M Ţ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30