A A A
  • 1933 - Hulda Friðbertsdóttir
  • 1964 - Ingi Jón Jóhannesson
  • 1966 - Róbert Daníel Kristjánsson
03.04.2015 - 21:02 | Vestfirska forlagið

„Bleikur minn, komdu til mín“

Kirkjuferð að Stað um 1940. Myndirn er tekin á Staðarheiði. Frá vinstri: Sigrún Einarsdóttir, Ragnheiður Einarsdóttir, Tómas Guðmundsson og Ragnheiður Jónsdóttir í söðli sínum.
Kirkjuferð að Stað um 1940. Myndirn er tekin á Staðarheiði. Frá vinstri: Sigrún Einarsdóttir, Ragnheiður Einarsdóttir, Tómas Guðmundsson og Ragnheiður Jónsdóttir í söðli sínum.

Á vordögum kemur út hjá Vestfirska forlaginu 4. bókin í bókaflokknum Hornstrandir og Jökulfirðir. Þar í er meðal annars þessi fallega frásögn eftir Ragnheiði Jónsdóttiur ljósmóður í  Kjós og víðar í Jökulfjörðum. Hún var amma Ásgeirs Guðbjartssonar skipstjóra og  þeirra systkina.

 

Ég átti bleikan hest á Höfðaströnd sem við hjónin ólum upp. Hann var traustur í ferðalögum, viljugur og hrekkjalaus, klárgengur var hann, en eini ókostur hans var að hann var hlaupstyggur og kom það sér illa þegar fljótlega þurfti að ná í hann til ferðalaga handa mér, þegar mín var vitjað til þess að sitja yfir blessuðum konunum mínum, því að þá vildi ég flýta mér. Varð þá að reka öll hrossin heim úr haga til þess að ná í Bleik. Ég var búin að venja hann á að gefa honum eitthvað matarkyns heima og gott þótti honum að fá mjólkursopa og kallaði ég þá til hans: „Bleikur minn. Komdu til mín.“ Fyrstu skiptin meðan hann var að venjast þessu stansaði hann og horfði á mig einsog hann væri að hugsa um hvað hann ætti að gera. Ég rétti honum höndina og smáfærði mig til hans og kallaði eins og áður er sagt.

   Svo datt í mig að mig langaði að eignast vakra og góða hryssu, vel þýða. Ég hafði augastað á skjóttri hryssu sem séra Kjartan Kjartansson á Stað í Grunnavík átti og höfðum við hestaskipti á Bleik og Skjónu. Hann gat ekki alið Bleik heima hjá sér og kom honum þessvegna í eldi um veturinn suður að Reykhólum í Reykhólasveit. Maður sá sem fór með hann þangað kvartaði mikið undan því að gæta hans á leiðinni að hann missti hann ekki heim aftur.

   Um veturinn dreymdi mig oft Bleik minn og var hann þá raunalegur á svip og mér virtist ekki vel útlítandi. Vatnsfall þótti mér vera milli okkar, sem við komumst ekki yfir til að hittast. Um vorið um ávinnslutímann er ég stödd uppi á túni ásamt annarri stúlku; heyrum við þá að hestur hneggjar. Segi ég þá við stúlkuna „ósköp er þetta líkt hneggi Bleiks míns“ og lít í þá átt sem mér virtist hljóðið koma frá. Þá hillir undir hest á svonefndum Tíðagötum á Höfðaströnd þar sem ég bjó þegar þetta var. Hesturinn smáfærði sig niður á milli þess sem hann stansaði og greip niður. Segi ég þá við stúlkuna: „Sýnist þér ekki eins og mér að hesturinn sé bleikur?“ Jánkar hún því og segi ég þá að kannski sé Bleikur minn kominn, þó að ég hafi ekki fregnað það. Við leggjum af stað til hestsins en þegar við nálgumst hann, segi ég að þetta sé ekki Bleikur minn, hann var mér þá óþekkjanlegur, liturinn var hið eina sem ég þekkti. Tek ég þá upp brauðbita og sykurmola úr bréfi sem ég hafði í vasanum frá því við drukkum kaffið og kalla ég til hans: „Bleikur minn, komdu til mín.“ Hann kemur þá hlaupandi til mín og hefir góða lyst á því sem ég bauð honum; leggur svo höfuðið upp á öxlina á mér einsog hann var vanur að gera í þakklætisskyni þegar ég gaf honum. Það var indæl stund þegar við stóðum í faðmlögum. Fór ég daginn eftir út að Stað og keypti Bleik minn aftur af séra Kjartani og átti ég Bleik síðan meðan hann lifði. Var á orði haft hve hann hafði hafst illa við á Reykhólum, í honum var óyndi og heimþrá.

Í orðastað Ragnheiðar Ingibjargar orti Ólína Tómasdóttir frá Nesi í Grunnavík eftir Bleik fallinn og er þetta úr:

  
Oft braust hann fram í óveðrum,

   Mér til gagns margsinnum

   til hjálpar nauðstöddum.

 

  Hann var af konum virtur vel,

   Klerkum og kotungum

   Kosinn í samreiðum.

  

   Þakkar svo Bleikur þína fylgd

   húsfreyjan mæta mörg

   Ragnheiður Ingibjörg.

(Úr Grunnvíkingabók, fyrra bindi. Guðrún Ása Grímsdóttir, Grunnvíkingafélagið á  Ísafirði 1989) 

« Maí »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31